kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Ráðstefna um kirkjutónlistina · Heim · Ýtarefni fyrir nemendur í Liturgíu I »

Setning Alþingis, stefnuræða og lungnabólga

Kristján Valur @ 20.45 2/10/03

Í gær var Alþingi sett. Í dag eru eldhúsdagsumræður. Í veikindum horfir maður á ýmislegt óvænt í sjónvarpinu.

Sonur minn menntskælingurinn er með lungnabólgu. Það er alveg nógu vont í sjálfu sér, en það sem plagar hann um leið er annarsvegar sú aðferð skólans að meta fjarvistir alltaf fjarvistir hvort sem það er af veikindum eða leiðindum (helmingur veikindastunda er gefinn eftir, en 50% eru metin sem skróp!) og hinsvegar hvað hann missir mikið úr skólanum. Hann er nefnilega samviskusamur. (Ég geri ráð fyrir að það sé allt úr móðurættinni).

Það sem hér hefur verið skráð til þessa í þessari færslu er auðvitað allt fjölskyldumál og kemur í raun engum við nema okkur, enda hefur það engin áhrif á almannaheill.

Það sem kemur okkur öllum við er hinsvegar Alþingi og störf þingsins. Við höfum jú öll eða flest tekið þátt í því að hafa áhrif á landsins heill og fólksins sem þar býr með því að nýta kosningaréttinn.

Nú stendur yfir svokölluð eldhúsdagsumræða. Forsetisráðherra flytur stefnuræðu sína og ríkisstjórnarinnar. Stjórnarliðar styðja hana (væntanlega) og stjórnarandstaðan kemur með heilsusamlegar athugasemdir og gagnrýni, eða er í það minnsta alveg ósammála.

Þessi umræða skiptir máli. Sannleikurinn, í þeirri mynd sem við getum nálgast hann með umræðum, er einhversstaðar í sameiginlegri brotalínu milli þeirra sem glíma við að finna hann. Þess vegna er líka gagnlegt að hlusta.

Þetta eru málefni sem varða allan þingheim og alla kjósendur. Þó að fólk sé ef til vill ekki ánægt með Davíð og ríkisstjórnina þá er það væntanlega ánægt með þau sem sýna honum og þeim í tvo heimana og sýna þeim samstöðu, – eða þá það er ánægt og sýnir samstöðu með ríkisstjórninni.

Nú bregður svo við að þegar horft er yfir þingsalinn á þessu kvöldi þá eru mörg sæti auð. Ekki færri en fimmtán sýndist mér.

Hvað kaus ég marga ósýnilega þingmenn í vor? Eða kaus ég álfa, sem samkvæmt dernier cri þess hluta hins frönskumælandi kvikmyndaheims sem snertir Ísland, eru ríkjandi þáttur í okkar menningu. Þeir ku vera ósýnilegir.

Nú má ef til vill álykta að einhverjir mæti ekki af því að þeim líkar ekki við Davíð. En líkar þeim þá ekki heldur við flokkssystkini sín sem ætla að standa uppi í hárinu á honum?

Eða, er þeim bara alveg sama.
Ef svo er þá eru þau að skrópa.

Ég veit ekki um þig, en ég kaus ekki fólk á þing til þess að skrópa þar. Þau eru að vísu ekki hýrudregin fyrir að mæta ekki í þingsal þegar eru eldhúsdagsumræður. Það er ekki launahvetjandi yfirleitt að mæta þar. Og þau missa ekki úr, vegna þess að það er ekkert lokapróf. Fjarvistir skipta engu máli fyrir þau. En fjarvistir skipta mjög miklu máli fyrir börnin okkar sem eru að læra að verða manneskjur með ábyrgðartilfinningu.Höfum við ekki valið fyrirmyndarfólk til Alþingis? Eða er það úrelt viðhorf?

Ég á tvo syni. Þeir horfa á sjónvarpið og spyrja: Hvar er fólkið sem vantar?

Annar þeirra er með lungabólgu.

Kannski eru fimmtán þingmenn með lungnabólgu.

Hún datt yfir þá í nótt, því að í gær var hún ekki.

url: http://kvi.annall.is/2003-10-02/20.45.32/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Árni Svanur @ 2/10/2003 20.59

Ef þingmenn á annað borð telja þessar umræður einhvers virði þá eiga þeir auðvitað að mæta. Ef þeir telja þessar umræður óþarfar þá er best að leggja þær bara af. Mér finnst þeir ekki hafa neina afsökun. Ef þeir eru allir með lungnabólgu þá vona ég að hún batni sem fyrst. og vonandi batnar menntskælingnum líka sem fyrst.

Óli Jói @ 12/10/2003 23.31

Já, þetta er góðar “pælingar”. Ég er sammála þér. Reyndar eru þingmennirnir víst með beina útsendingu frá þingsalnum á skrifstofum sínum, ég veit reyndar ekki hversu vel það er nýtt. Eitt er þó víst, þingmenn þessa lands komast upp með alltof mikið – hver man t.d. ekki eftir því þegar Össur var ritstjóri DV og þingmaður á sama tíma og auðvitað má finna mörg önnur dæmi um slíkt. Þegar ég kýs þingmenn vil ég hafa þá í vinnu – í fullri vinnu!!!
Vona að menntskælingnum sé batnað.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli