kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Djáknafræði og embættisgjörð · Heim · Dagur kærleiksþjónustu kirkjunnar »

Yfir moldum Kristjáns H. Benediktssonar

Kristján Valur @ 16.28 13/9/03

Í gær talaði ég yfir moldum Kristjáns föðurbróður míns í Akureyrarkirkju. Hljóðkerfið skilaði sínu dálítið misjafnlega eftir því hvar setið var. Sumir heyrðu ekki neitt. Einkum þeirra vegna fylgja hér þessi minningarorð.

Akureyrarkirkja 12. september 2003
Útför Kristjáns Helga Benediktssonar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa! 1M.3.19

Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið. Opb,21.4

Tveir textar. Annar um hið jarðneska, hinn um hið eilífa.
Þeir kallast á. Þeir bergmála í himninum.
Sá sem tengir þá saman er Guð.
Hann sem hefur ráð á lífi og dauða og veitir svör þeim sem spyrja í Jesú Kristi. Í boðskap hans, í lífi hans og starfi.

Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. – segir Predikarinn. (Pred.3.1.).

Við nafni minn vorum ekki alltaf sammála um Guð. Þó þótti honum ekki nema gott að ég væri þar í vinnu og honum þótti vissara að ég talaði yfir moldum hans, eins og ég hefði verið glaður með að hann talaði yfir mínum ef þess hefði verið kostur.
Hann setti fram spurningar og leitaði svara. – Hann krafðist svara.
Oft fór honum sem predikaranum. Hann fann það eitt sem honum þótti hégómi.

Einhverju sinni setti hann spurningar sínar fram með þessum hætti:

Spurn

Hvaðan komstu, hvert er ferðinni heitið?
Hvað ætlarðu að sjá fyrir handan leitið?
Er leiðin valin, er vegurinn betri en áður?
Vegna hvers ertu troðningum fjöldans háður?

Af hverju er vegur lífsins villusöm gata?
Vegna hvers er svona erfitt að rata?
Hvers vegna er æskumaður iðandi af kæti?
Af hverju er gamall maður lotinn í sæti?

Hversvegna er lífið ekki með öðru móti?
Af hverju er rennslið svo hratt í tímans fljóti?
Er ekki léttast að láta berast með straumi?
Er lífsfyllingin aðeins í trylltasta glaumi?

Hvers vegna er jörðin alltaf svo ung á vorin?
Af hverju verður þá mönnunum létt um sporin?
Hvar er að finna uppsprettu ástar og gleði?
Af hverju bera sumir leiða í geði?

Hvað er það sem gefur lífinu gildi?
Er það guðdómurinn, sem ég þó aldrei skildi?
Hin eilífa spurn er alltaf í geði mínu.
Er nokkurt svar að finna í hugskoti þínu?
Kristján H. Benediktsson

Predikarinn segir:

Og mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum,
áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um:
Mér líka þau ekki
áður en sólin myrkvast og ljósið og tunglið og stjörnurnar,
og áður en skýin koma aftur eftir regnið
þá er þeir skjálfa, sem hússins geyma,
og sterku mennirnir verða bognir
og kvarnarstúlkurnar hafast ekki að, af því að þær eru orðnar fáar,
og dimmt er orðið hjá þeim, sem líta út um gluggana,
og dyrunum út að götunni er lokað,
og hávaðinn í kvörninni minnkar,
og menn fara á fætur við fuglskvak,
en allir söngvarnir verða lágværir,
þá menn eru hræddir við hæðir
og sjá skelfingar á veginum,
og þegar möndlutréð stendur í blóma
og engispretturnar dragast áfram
og kaper-ber hrífa ekki lengur,
því að maðurinn fer burt til síns eilífðar-húss
og grátendurnir ganga um strætið
áður en silfurþráðurinn slitnar og gullskálin brotnar
og skjólan mölvast við lindina og hjólið brotnar við brunninn
og moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var,
og andinn til Guðs, sem gaf hann. (Pred. 12.1-14).

Í ljóðum Kristjáns er þetta að finna:

Það daprast minn hugur er dagurinn hverfur
og dimman á veginn fellur,
er hrímið leggst yfir lönd og voga
og Líkaböng tímans gellur
og herðir á göngunni götuna auða,
göngu frá lífi að dauða.
Kristján H. Benediktsson

Lífið manns hratt fram hleypur
hafandi öngva bið. (Sb.273. Hallgrímur Pétursson)

Öllu er afmörkuð stund. (Pred.3.1)

Dag nokkurn er runnið upp endadægur. Moldin kallar og himna lúðurinn gellur.

Í gegn um móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur.
(Sb. 143. Davíð Stefánsson)

Ég hef beint til yðar þessum orðum er vér komum nú saman til þess að heiðra minningu látins bróður.

Kristján Helgi Benediktsson sem hér er kvaddur var fæddur á Jarlsstöðum í Höfðahverfi hinn 23.október 1923. Hann var sonur hjónanna Steinlaugar Guðmundsdóttur og Benedikts Sigurbjörnssonar er þar bjuggu frá árinu 1916. Hann var sjötti og yngsti sonur þeirra hjóna.
Fyrir voru Bjössi, Siggi, Ingi, og Bjarni, og á Jarlsstöðum fæddust Jói og Stjáni.
Yngstu bræðurnir voru mjög samrýmdir og samhentir bræður. Í gær vantaði einn mánuð upp á eitt ár síðan við bárum Jóa til moldar.

Þeir voru venjulegir strákar. Þeir voru dálítið duglegir að vera venjulegir strákar.
Þeir bjuggu til hnífa úr ljáblöðum og geymdu í felum til að nota þegar þeir voru að stela rófum.
Þeir fóru í tjörnina þegar þeir máttu það ekki og kunnu ekki að synda, en áttu að vera að snúa heyi.
Þeir stálust til að taka hestana, Þyt og Brúnku og þeysa þar til annar datt af baki og hættu með því setholdi sínu í tvennum skilningi.
Og þeir lærðu saman lexíurnar hans Jóa, og þannig nýttist Stjána enn betur hve hann var bráðger.
Hann var náttúrubarn.
Honum þótti alltaf vænt um sveitina sína.

Úr hillu minninganna.

Ég minnist unaðs og æskustunda
er út á túni ég var að dunda
og vorið sindraði í sólareldi
á kyrru kveldi
í Höfðahverfi.

Þar leið æska mín eins og gengur
unaðsreit átti lítill drengur
þar margur átti að baki bróður
og grænn var gróður
í Höfðahverfi

Ennþá hugurinn er þar stundum
með æskufólki í leik á grundum
og birtan leikur um bjarta daga
og holt og haga
í Höfðahverfi.

Enda er sveitin mín öðrum betri
alltaf fögur á sumri og vetri
og þegar árin mig gugginn gera
þá vildi ég vera
Í Höfðahverfi.
Kristján H. Benediktsson

Benedikt á Jarlsstöðum var metnaðargjarn fyrir sína menn.
Synir mínir allir í röð, sagði hann.

Hann var dálítið montinn af þeim. Hann var eiginlega mjög montinn af þeim. Og hann átti drauma um framtíð þeirra, svona eins og margir feður eiga, og ekki alla jafn nærri raunveruleikanum.
Hann hafði skarpan skilning á því hvað í sonunum bjó. Þess vegna átti hann þann draum um yngsta soninn að hann leggði fyrir sig langskólanám og vildi helst að hann yrði prestur.
Það var dálítið gaman að heyra Stjána lýsa þessum draumum og tilraununum til að gera þá að veruleika. Samt var nú ekki laust við kaldhæðni í þeim frásögnum.
Samkvæmt gamla Örsted-einkunnakerfinu vantaði hann 0.03 uppá að vera metinn tækur til lengri skólagöngu á inntökuprófi hér á Akureyri. Ekki var það nú samt eingöngu neikvæð niðurstaða.

Því að það er upphaf þessa máls að Perikles hét maður í Grikklandi,og kvaddi þennan heim fyrir 1.500 árum. Hann var mesti kjaftaskur sinnar tíðar og spillti lýðræðinu, en átti marga vini meðal heimspekinga og skálda sem bjuggu til hugtakið ,,Periklesartíminn”, en það var meðan þeir voru sjálfir í sem mestu fjöri.

,,Þú átt að segja mér af Periklesi”, sagði Steindór Steindórsson frá Hlöðum við frekar pasturslítinn pilt frá Jarlsstöðum, ,,því að þekking á honum opnar þér hliðin til æðri menntunar”.

Stjáni vissi ekki neitt um Perikles, enda hefur aldrei nokkur af okkar fólki nokkurn tíma vitað nokkuð um þann mann utan kannski einn sem ekkert vill af honum vita.

Samt hefur nafni hans verið haldið á lofti og bæði í virðingu og þakklæti. Stjáni mun einhverntíma hafa sagt lærisveinum sínum í málaraiðn þessa sögu um munnlega prófið hjá Steindóri. Það varð þeim tilefni til að gangast fyrir sérstakri Periklesarhátíð í ævinlegu þakklæti fyrir það að Stjáni skyldi einmitt ekki fara aðra leið í lífinu en þá sem leiddi þá til hans.

Í stað náms við menntaskólann hér lá leiðin að Hvanneyri og þaðan útskrifaðist hann sem búfræðingur 1944. Við tóku ýmis störf og skemmtilegheit, við harmonikkuspil og mótorhjólaskelli.
Síðan fór hann í Iðnskólann og í læri hjá Jóni Arasyni málara. Skólanum lauk hann 1950, og tók sveinspróf 1952.

Á þessum árum gerðust ýmiss lítil og falleg ævintýri, og eitt þeirra varð ævintýri lífsins.
Þau Steinunn Helga Björnsdóttir (f.23.09.1930 ) gengu í hjónaband á nýársdag 1950. Hún var dóttir hjónanna Oddnýjar Jónsdóttur og Björns Erlendar Einarssonar sem áttu heimili sitt hér á Akureyri.
Þau voru ung og falleg og ástfangin og lífið brosti, en sýndi þó snemma aðrar hliðar.
Þau eignuðust dóttur sem fæddist andvana, – þau eignuðust aðra, sem lifði í hálft ár. Ragnheiður hét hún , fædd í október 1954 og dáin í apríl 1955.
Þau hjónin tóku sig þá upp frá Akureyri og fluttu að Litlagerði í Dalsminni (í Höfðahverfi) þar sem þau áttu heima í fimm ár og stunduðu búskap með kindur og kýr og kartöflur.

Litlagerðistíminn var merkilegur millikafli í æfi þeirra. Í minningunni er alltaf sól og logn, langir hlátrar í eldhúsinu, nýborin lömb á túninu og hundurinn að éta sigtisbotna.

Nú er hljótt þar á hlaðinu og Fnjóskáin niðar fyrir daufum eyrum.

Í Litlagerði fæddust þeim tvö börn og önnur tvö eftir að til Akureyrar kom að nýju.

Oddný Ragnheiður er fædd 1956 , maður hennar er Pétur Guðjónsson, hún á einn son, Helga Gunnlaugsson, unnusta hans er Þórunn Ágústa Garðarsdóttir, og á von á sér eftir rúmar þrjár vikur.
Næstur er Einar Birgir fæddur 1959, kona hans er Ásdís Sigurvinsdóttir, þau eiga Kára og Gígju.
Steinlaug er fædd 1962 maður hennar er Steingrímur Helgi Steingrímsson, þau eiga Gunnhildi, Ísak og Steinunni,
Eygló er fædd 1965, maður hennar er Hafsteinn Sigfússon, þau eiga Kristján Helga, Hákon, Hlyn og Guðrúnu Erlu.

Þegar Litlagerðistímanum lauk tók Stjáni upp málaraiðn að nýju og fékk meistarabréf sitt árið 1962. Eftir það vann hann sjálfstætt. Hann hafði samtals sex eða þó sjö lærisveina. Um margt eiga þeir mikið að þakka þeim báðum Kristjáni Ben og Periklesi, þó að í veruleikanum væru það nú reyndar þau saman Stjáni og Lilla sem í vissum skilningi gerðu heimili sitt að einskonar félagsmiðstöð þess hóps. Um þetta þarf ekkert að fara fleiri orðum.

Þau hjón höfðu yndi af að taka á móti gestum og það var yndi að sækja þau heim.
Lilla, eða Steinunn Helga, andaðist 28.12.2000.

Stjáni helgaði líf sitt starfi sínu meðan hann mátti og dró saman seglin alveg þykkjulaust þegar aldurinn færðist yfir. Eitt af því sem gerði honum það auðveldara var sá félagsskapur sem hann hafði í sundlauginni. Hann byrjaði þar með því að fara í kallatíma á sunnudögum en svo á hverjum morgni allt síðan 1968, eða í 35 ár.

Við kölluðum hann alltaf Kristján Ben eða bara Stjána. Honum tókst að gera þá heldur kjánalegu styttingu nafns að virðingarheiti.
Hann var af þeirri gerð hagyrðinga sem verður allt að vísu. Hún kemur fyrirvaralaust og fljótt. Enginn veit enn hvað hann orti mikið um dagana en vísna- og ljóðasafn hans er ótrúlega mikið að vöxtum. Meðan hann mátti hina síðustu ævidaga sína orti hann eina vísu á dag, því að hver dagur var gjöf.

Vísur hans er vissulega misjafnar. Sumar henta betur í gangnakofum en á kvenfélagsfundum – þótt áhöld séu um á hvorum staðnum þær vektu meiri kátínu. En þegar hann var bestur, þá var hann ótrúlega góður, og gat tekið sér sæti með meisturum ljóðlistarinnar, eins og hér má heyra dæmi um.
Þá átti hann til að segja að hann hlyti að hafa stolið þessu einhversstaðar.
Eða hann sagði:
,,Þetta er nú bara eins og sálmur”.

Holtasóley.

Í brekkunni sunnan við bæinn
hún brosir við morgunsól
svo fögur í geislagliti
sem gimsteinn á konungsstól,
holtasóleyjan hýra
á hvítum og gulum kjól.
Kristján H. Benediktsson

Mjög mikið af ljóðum hans var gert til þess eins að grípa augnablikið, og halda því uppi og vekja með því bros, eða hlátur.
Það er til fólk sem telur að það sé ekki djúpur tilgangur.
Það má líka velta fyrir sér hvað sé djúpur tilgangur.
En að skilja eftir sig óendanlega langt bros, – er það ekki djúpur tilgangur?

Stjáni var vinamargur og hann var góður vinur vina sinna. Þeir verða auðvitað ekki allir taldir upp, þó að Stjáni hafi reyndar beðið sérstaklega um að þessi ræða yrði mjög löng. En hann taldi líka að hún myndi verða leiðinleg, en það skilyrði er miklu erfiðara að uppfylla, svo lengi sem hún fjallar um hann.

Einn vina hans má þó nefna sérstaklega , en það var Sigurbjörn Kristjánsson sem byggði með honum húsið í Norðurbyggð 3 þegar þeir höfðu áður hjálpast að með hans. Það var mjög náið samband þar á milli sem börnin minnst sérstaklega og var gefandi á báða vegu.

Ýmsir gátu ekki komið í dag en hugsa hingað í þakklæti og söknuði, eins og Pétur gullsmiður, og Björn málari og Jón og Jóna í Holti, Kristján (Gói) á Bakka , Ruth mágkona hans, og Ólafur Þór Kristjánsson, sem er úti á sjó.

Um langa hríð sótti Stjáni heim vini sína og frændur, sem við kenndum á þeim tíma við Víðimýri 10, þótt nú séu aðrir frændur þar.
Þau sakna nú vinar í stað. Benedikt í Hollandi, Sigurður á Egilsstöðum og Rut í Keflavík sem og fjölskyldur þeirra. Rut skrifar í kveðju sinni: ,,Lífsgleðin sem einkenndi hann og bræður hans er eitthvað sem allir ættu að læra af.”

Og Siggi skrifar:

Þú gafst mér af gleði þinni,
þú gafst mér af sjálfum þér,
eitt það sem alltaf lifir
og einstöku maður sér.

Það sefur í söngvum barna,
það syngur í leik af því
það vakir í vonum manna
og veitir þeim líf á ný.

Þá gjöf sem þú gafst mér besta,
ég geymi með sjálfum mér
og geti ég gefið öðrum
er Guð enn að leika sér.
Sigurður Ingólfsson

Kristján Ben er allur og þó er hann enn að vekja okkur gleði og kátínu. Og fólkið hans getur lengi lengi, ekki bara ornað sér við arin minninganna , eins og það heitir svo fallega í bókum, heldur rekið upp langar og innilegar hlátursrokur yfir sögum hans og ljóðum.

Hann var dálítill glanni að eðlisfari, og alveg sérstaklega í munninum.

Hann var mikill faðir barna sinna, og mest af því að hann var þeim vinur og félagi. Hann vildi allt fyrir sitt fólk gera.
Hann átti auðugt og skemtilegt líf – og hann átti örðugt stríð sína síðustu daga. Það var gott að það var ekki lengra. Síðasta spölinn átti hann öruggt skjól hjá Steinlaugu og Helga og ég veit að hann vildi þakka það sérstaklega..

Ég veit ekki hvort þið munið eftir því hvað það var gott að skríða upp í til mömmu og pabba, eða hvort þið munið eftir hlýju holunni sem var í undirsænginni þegar þau voru farin á fætur.
Á þeim stað er öryggið mest og hlýjan mýkst.
Þannig holu fann Stjáni hjá þeim Steinlaugu og Helga. – Þá bestu á jörð.
Og við treystum því að nú hafi hann fundið aðra ennþá betri í lófa Guðs.

Yrkisefni hans á síðustu vikum benda sum með óbeinum hætti til þessa dags og þessarar samkomu við vegamót.
Þeir Björn frændi hans, Ingólfsson, ortust oft á af ýmsum tilefnum. Nú hefur Björn gert sonnettu sem Stjáni hefur þegar svarað með lífi sínu:

Um sumarlok er hlöður fyllast heyi
og haustnótt blá er sest um víðan geim
er einn að ganga frá og halda heim
sem hefur lokið ærnum vinnudegi.

Hver á nú að yrkja besta braginn
bæta okkur leiða og gleðiskort,
gera vísu í gestabók og kort
og gefa okkur snafs á réttardaginn?

Og gleðin verður hógvær, daufur hlátur
í heitum potti og skrafið tregt um stund
er gamlir jaxlar mæta í morgunsund
og megna ekki að ráða lífsins gátur.

En glaðbeitt haustið heilsar degi nýjum
með heiði blátt og pensilför í skýjum.
Björn Ingólfsson

Kristján Helgi Benediktsson horfði til baka á líf sitt og var þakklátur fyrir það, sérstaklega fyrir samfylgdina við konu sína og börn, lærisveina og vinnufélaga, félagana úr morgunsundinu, ættmenni og tengdafólk. Hann átti mjög marga ,,gamla” vini og hann var enn að eignast nýja. Og hann var þakklátur þeim sem veittu honum umönnum af ýmsu tagi hin síðustu ár. Hann var meira að segja búinn að gera upp við krabbann.

Hann elskaði lífið og jörðina sem brauðfæddi hannn og vildi standa vörð um hana meðan stætt var. Hann fann til skyldleika við blóm jarðar eins og allir sem þekkja tengsl sín við moldina sem hverfur aftur þangað sem hún áður var, þegar andinn fer til Guðs sem gaf hann.
Þess vegna þótti honum vænt um erindin úr Hulduljóðum Jónasar sem stundum eru sungin:

Smávinir fagrir,foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley! vér mættum margt
muna hvurt öðru að segja frá;

Faðir og vinur alls sem er!
annastu þennan græna reit;
blessaðu, faðir! blómin hér,
blessaðu þau í hvurri sveit.
Vesalings sóley! sérðu mig,
sofðu nú vært og byrgðu þig;
hægur er dúr á daggarnótt,
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.
Jónas Hallgrímsson

Far þú í friði, Kristján Helgi Benediktsson,
friður Guðs þig blessi
og hafðu þökk fyrir allt og allt.

En Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.

url: http://kvi.annall.is/2003-09-13/16.28.09/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli