kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Tíu (til)boð · Heim · Kennsla á haustmisseri »

Guð,móðir mín, guðmóðir mín og Guð móðir mín.

Kristján Valur @ 00.52 1/9/03

Í dag fékk ég að skíra barn. Ég fékk að standa við dyr himnaríkis og vera verkfæri Guðsríkisins. Ég hef heyrt nið eilífðarinnar og gutl í lindum lífsins vatns.

Þegar ég horfði á þennan fallega dreng sem í dag var borinn til skírnar (hann heitir Haraldur Helgi) í ástríkum örmum föður og móður, þá sá ég allt í einu fyrir mér mína eigin móður þar sem hún sat þegar ég var að messa hjá henni fyrir tveim vikum.
Móðir mín er á lífi. En lífið er eins og farið frá henni.
Hún er starfandi líkami, en sjálf er hún varla lengur hér nema endrum og sinnum.
Hvar er hún þá?

Móðir og barn.
Ég hélt ég þekkti það ekki nema sem faðir.
Ég hafði gleymt því að ég var sjálfur barn móður. Ég á hina huldu reynslu hins ófædda.
Á meðan ég talaði við skírnarfólkið var ég sjálfur þátttakandi í þessu undri lífs með alveg nýjum hætti:

Kæru foreldrar og guðfeðgin og kæri söfnuður, til hamingju með þennan dag þegar við horfum fram á veg þessa litla barns og felum það Jesú Kristi í heilagri skírn.Um leið skulum við horfa við til baka í þakklæti fyrir lífið.

Þótt vel sé að öllu staðið í fæðingarhjálp nútímans og kringumstæður fæðingar séu byggðar upp af öryggi, þekkingu, kærleika og tækni, – þá er það nú samt ævinlega kraftaverk þegar fæðist heilbrigt barn – og móður og barni heilsast vel og meðgangan var áfallalaus.
Fyrir það viljum við líka þakka á þessum degi.

Maður getur auðvitað sem lítil manneskja líka þurft að glíma við daglegt líf og líkamsstarfsemin þarf að aðlaga sig breyttum aðstæðum og maður kann svo sem ekkert nema að gráta og að brosa, – og þá snýst lífið um það, – svo að jafnvel þreyta svefnlausrar nætur leysist upp í litlu brosi.

Og það er okkur öllum hollt að hugsa um þá lífgjöf sem við sjálf höfum þegið og um það hverjum við megum þakka okkar jarðnesku tilveru, auk skaparans sjálfs.

Hversu vel sem við okkur er tekið og um okkur hugsað eftir að við komum í þennan heim, er sá hluti ævinnar sem fer fram í móðurkviði líkast til stærsta undur lífsins. Einmitt það eykur enn á ábyrgð þeirra sem síðar koma að, og ekki bara feðra heldur líka mæðra, eftir að skilið hefur verið á milli. Það er þess vegna sem kjörforeldrar geta gengið svo fullkomlega inn í hlutverk foreldra. Tilveran fyrir fæðingu hverfur inn í óminnið. Barnið er fætt.

Við sem erum fullorðin mættum oftar hugsa um þennan hulda þátt lífsins.
Það er verðugt umhugsunarefni að geta sagt við móður sína:
Áður en ég var, var ég þú. Samt var ég ég.
Allt frá minni fyrstu frumu var ég ég.
En ég var hluti af þér og án þín var ég ekki neitt og átti ekkert líf og enga von, án þín.

Og um leið og ég eða þú sérð hversu náinn þú hefur verið móður þinni, þá opnar Guð þér sýn til sín.
Þú skynjar nærveru Guðs í lífi þínu alveg að nýju.
Og þú sérð hvar sérhvert barn er hjá honum.
Og orð Jesú: Leyfið börnunum að koma til mín,
fá nýja vídd við skírnarlaugina.
Lífgjöf fæðingarinnar til daglegs lífs
fullkomnast í lífgjöf skírnarinnar til eilífs lífs.

Móðir mín er þar sem hún áður var,
því að hin síðari fæðing opnar leiðina til hinnar fyrri.

Og hvar er þá ég?

url: http://kvi.annall.is/2003-09-01/00.52.14/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Kristín Þórunn @ 1/9/2003 19.57

Takk fyrir þessa fallegu hugleiðingu um undrið að vera manneskja sem fæðist og fæðist síðan að nýju. Gaman að sjá að veruleiki kjörforeldra og kjörbarna er orðaður. Lífið fyrir ættleiðingu er eitthvað sem allar kjörfjölskyldur þurfa að taka í sátt og integrera í lífið sitt saman. Það getur verið mjög flókið og falið í sér margvíslegar tilfinningar gagnvart því sem við erum og höfum upplifað. Börnin mín eiga sér aðra líffræðilega móður sem er þeim hulin því við vitum ekkert um þær sem fæddu þau í þennan heim. En þær eru mikilvægar samt sem áður í lífi okkar sem kjörfjölskylda og verða alltaf hluti af þeim rótum sem börnin mín eiga.
Núna er þetta ekki aktúellt, því þau eru lítil og hafa mestan áhuga á því sem er hægt að strjúka og knúsa, eins og kettlingum og hestum. En þau eiga þessar rætur og það er mikilvægt að geta gróðursett þær og leyft þeim að dafna í jarðvegi ástar og umhyggju – vitandi að lífgjöf þeirra er frá þessum ókunnugu konum sem ég get aldrei þakkað sjálf.

Arni Svanur @ 1/9/2003 21.30

Takk.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli