kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Bæn í árdegismessu · Heim · Tíu (til)boð »

Predikun við óvenjulegar aðstæður

Kristján Valur @ 16.33 19/8/03

Ég var staddur heima á Grenivík þar sem móðir mín er á litlu heimili fyrir aldraða. sr.Pétur í Laufási bað mig að predika í guðsþjónustu þarna á heimilinu. Það var í senn spennandi og mjög erfitt verkefni. Ég þekki þetta fólk allt (nema tvö) jafnlengi og mig rekur minni til. Þau eru hluti af mér og ég af þeim. Enginn getur verið sjálfum sér prestur.

Hugleiðing á Grenilundi á Grenivík 9.sd.e.trinitatis. Hólahátíð.
Guðspjallið er Lk.12.42-48

Við skulum fara saman með versið:

Vaktu minn Jesú, vaktu í mér
vaka láttu mig eins í þér
sálin vaki, þá sofnar líf
sé hún ætíð í þinni hlíf.
Amen.

Lífið er fullt af litlum ævintýrum.

Fyrir fjórum dögum vissi ég ekkert um að ég fengi að messa hér með Pétri í dag. Ég er eiginlega þeim mun þakklátari sem fyrirvarinn var skemmri.

Hversu langt sem maður fer
og hversu oft sem maður sest að á nýjum stað
og hversu víða er hægt að segja: heima,
er bara eitt sem er óumbreytanlegt,
þar sem ilmur jarðar og andblær sjávar eru eins og faðmlag og koss.

Og hver heimsókn er eins og stefnumót.

Það er stefnumót við Höfðann og Bárðartjörnina og Reiðsundið og Hvammsána
og Hólana og Bungurnar,-
við húsin og bæina, við fólkið og við sjálfan sig.
Og það er stefnumót minninganna.

Ég kem heim.

Það er auðvitað sjálfsagt að taka með sér eitthvað þegar maður kemur heim, – fisk í soðið, skyr og rúsínur, – en ekki predikun.
Ég kem heim. Ég fer veginn.

Leiðin út á vík er full af minningum. Vegurinn er annar og öðruvísi en leiðin er söm og á undan fóru Gráni í Kolgerði og Bláa kussa á Bakka og Lómatjarnarjeppinn og Stúddinn og Draugalestin og Nollarjeppinn og traktorinn á Svínárnesi.

Stefnumót minninganna.

Og af hólunum sé ég kirkjuna. Um leið sé ég heim í Dal.
Í kirkjunni er hlið himinsins.
Kirkjan sem stendur þarna enn – ein – er eins og eilíf predikun.
Í skjóli hennar man ég að ég átti ekki að koma með neitt annað en það sem ég kann.

Ég átti að vera búinn að læra að lesa fyrir sumarmál.
Ég man ekki hvort það tókst, en ég kann að lesa.

Ég kann að opna bókina á altarinu og lesa:

Drottinn mælti: Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?
Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.
Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar
. (Lk 12. 42-48)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall þessa dags er ein af þeim dæmisögum Jesú sem beina athyglinni að því hvernig við stöndum okkur gagnvart þeim verkefnum sem okkur eru fengin til fást við.
Það geta verið öll hugsanleg verkefni. Allt frá því að fara út með ruslið, fara með bréf í póst, ala upp börn eða upp í það að hafa stjórn á öllu lífi sínu.

Vertu trúr yfir litlu, yfir mikið mun ég setja þig.

Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

Það fer ekki hjá því að þegar árunum fjölgar vakni fleiri spurningar um það hvernig ég hef varið lífi mínu. Hafa draumar mínir ræst og ef ekki, er enn von um að þeir rætist?
Og hvernig hef ég farið með það sem mér var trúað fyrir?

Pabbi var einhvern tíma að velta fyrir sér þessum spurningum.

Hvað skil ég eftir þegar ég fer? (Svo sagði hann:)
Ég get ekki séð að það sé mjög merkilegt.
Jæja! (sagði ég) Hvað með börnin þín?. Ertu að segja að þau séu ekki merkileg?
Þá sagði hann:
Ja, það er allavega ekki mér að þakka hvernig þau eru…..

Það skyldi nú vera.

Hvernig á maður að fara að því að meta það hvað maður gefur börnum sínum í veganesti?
Það er ekki hægt.
Og það er gott að það er ekki hægt.
Maður gerir bara sitt besta og bíður svo átekta eftir uppskerunni.

Hvað varð um garðinn sem ég ræktaði?
Hvað var það nákvæmlega sem var mitt verk?
Það er ekki hægt að mæla það, né heldur skilja það frá. Ekki frekar en hægt er að finna út hvaða regndropi það er sem fyllir mælinn.
Öll mannanna verk eru háð tímanum.
Þau verða til, þau standa í blóma, þau sölna, – og þau vakna þegar vorar. Ef þau fá að lifa.
Það eru kannski bara trén sem standa eftir í garðinum. Þangað til þau falla líka.

Ekkert verk mannanna er svo fullkomið að það sé ekki hægt að finna á því einhverja hnökra.
Við þekkjum líka áreiðanlega fólk sem hefur það helst að skemmtan sinni að finna gallana á verkum mannanna
Það er hægt að verjast því.
En erfiðast er þegar maður sjálfur byrjar að efast um ágæti þess sem gert hefur verið og teigir og togar hugsun og tilfinningar í beiskri sjálfsgagnrýni.
Þá stenst ekkert fyrir.

Heilbrigð sjálfsgagnrýni er holl og kallar fram það besta sem maður á að gefa.
Sjúk sjálfsgagnrýni er eyðandi eldur sem hlífir engu, eyrir engu.
Hún hafnar því góða og velheppnaða sem hún sér. Hún er hættuleg og hún er röng.
Því að hún hafnar miskunn Guðs og hafnar gjöfum hans.

Að vera ánægður yfir því sem maður á – er ekki rangt.
Að vera stoltur og ánægður af börnunum sínum og garðinum sínum og tala ekki um annað – ekki einu sinni á bæjum, – það er ekki rangt, – þá er bara dáltítið þreytandi til lengdar.

Að vera glaður yfir gjöfum þeim sem maður hefur þegið – svo glaður að maður noti þær og nýti þær til hins ýtrasta er ekki mont, – það er sjálfsögð skylda við Guð sem gefur gjafir og gefur hæfileika.
Það er rangt að nýta þær ekki.

Hver er ráðsmaðurinn í guðspjallinu?
Ef ráðsmaðurinn er ég, – þá er ekki hægt annað en að syngja sálminn sem við sungum áðan. Ó, skapari, hvað skulda ég? (Sb.187).

En það er ekki bara einn ráðsmaður heldur er það samfélag. Ráðsmennska guðsríkisins er ekki falin einstaklingunum einum heldur samfélagi kirkjunnar.

Í kirkjunni er enginn skilinn einn eftir. Það er ekki verið að benda á einstaklinga heldur samfélag þeirra sem í lífi sínu vilja vera kirkja.
Ráðsmaðurinn í dæmisögunni. Það er kirkjan, – það er kirkjan sem Jesús hefur kallað til starfa frá hinni fyrstu hvítasunnu til hinnar síðustu þegar hann kemur sjálfur eins og sólin.

Því að megin inntak guðspjallsins er ekki spurningin: Hvernig ferst þér ráðsmennskan? Megin inntakið er þetta:
Hann kemur að vitja þín.
Ekki bara til einhverskonar lokauppgjörs þegar ráðsmennskunni er skilað:
Hann kemur og vitjar manns í hvert sinn sem maður spennir greipar og fer með bænirnar sínar. Hann kemur og tekur þær að sér.
Hann kemur í hvert sinn og við heyrum lesið úr helgri bók eða gerum það sjálf og lýkur upp eyrunum svo að við heyrum með hjartanu.
Hann kemur og knýr á svo að hann megi koma inn,
og finni hann ekki allt tilbúið til að taka á móti gestum, sópar hann sjálfur.
Hann kemur þegar degi hallar og lífsdagur er liðinn.
Hann kemur og réttir fram höndina og leiðir mann í gegn um dyr lífs og dauða, – því að :
jafnvel þótt ég fari um myrkan dal dauðans óttast ég ekkert ill því að þú ert hjá mér.
Hann kemur við endi aldanna þegar allt verður gjört nýtt og myrkur og kvíði, grátur og sorg eru ekki framar til.
Og þegar hann kemur verður bjart, – svo bjart að ég sé allt. Ég sé líka það sem ég vildi ekki sjá og vildi ekki láta sjá. Ég verð að biðja hann um hlíf og skjól.
Og hann leggur yfir það kyrtilinn sinn hvíta. Þann sem heitir fyrirgefning.

Í pistli dagsins skrifar Páll postuli skrifar Tímoteusi lærisveini sínum þar sem hann situr í fangelsinu og bíður þess að yfirvöldunum þóknist að drepa hann.
Hann skrifar:

Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.
Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.
Mér er geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi.

Þetta segir hann.
Hversvegna?
Hlauparar í kapphlaupi fá sveig í verðlaun, – hinir sigursælu fá lárviðarsveig á höfuðið.

Páll segist munu fá meira en það. Hann fái sveig réttlætisins úr hönd Drottins Jesú Krists .

Fyrir hvað fær hann verðlaun?

Fyrir að varðveita trúna.

Ekkert annað skiptir máli. Stórir sigrar lífsins eð verstu töp þess, – þegar ég stóð mig best, og þegar ég brást algjörlega – tvö ólík atvik sem haldast í hendur og brosa, því það voru ekki þau sem breyttu uppskerudeginum. Það er trúin ein. Þessi stundum litla, veika, trú sem samt geymir kraft eilífs lífs, sigurkraft lífsins.

Litla bænin sem hvísluð var í eyra hálfsofandi barns í vöggu reyndust verða áhrifamestu orðin á langri lífsgöngu.

Vaktu minn Jesú, vaktu í mér
vaka láttu mig eins í þér
sálin vaki þá sofnar líf
sé hún ætíð í þinni hlíf.
Amen.

url: http://kvi.annall.is/2003-08-19/16.33.37/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

@ 21/8/2003 09.42

Hjartans þakkir, undursamleg, seitlandi tær predikun, eins og andlegur bunulækur úr norðlensku himinfjalli.

Lena Rós Matthíasdóttir @ 2/9/2003 15.43

Eitt alsherjar andans ljóðaverk…lætur mann langa til þess að fara á handahlaupum um grundir og engjar og finna um leið fyrir guðdómlegu kitli á yljum og lófum. Leggjast svo í grasið og hugsa: ,,Takk fyrir að vaka í mér Guð!” ,,Viltu hjálpa mér að vaka í þér Guð!” Uppgötva smæð sína í sköpuninni og fyllast lotningu sem á sér ekki takmörk. Vera kominn heim.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli