kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Um bænaljós · Heim · Brúðkaupsafmæli »

Horft heim að Hólum

Kristján Valur @ 21.30 10/6/03

Nú styttist í stóra viðburði að Hólum. Þau 12 sem skrifuðu undir sem meðmælendur mínir í vígslubiskupskjöri hafa fengið bréf frá mér af því tilefni. Þau eru fulltrúar þeirra sem vildu veita mér brautargengi. Svo nákvæmlega er sem betur fer ekki vitað hver kaus hvern að ég geti sent þeim öllum sem kusu mig persónulegt bréf. En það gæti verið að þau læsu þennan annál. Þess vegna er bréfið líka hér:

Til hinna tólf.

Kæru vinir.
Við horfum fram til mikillar hátíðar á Hólum og á Sauðárkróki þegar vígður verður nýr vígslubiskup og prestar koma saman á Synodus.
Það eru fagnaðardagar í kirkjunni þegar slíkir atburðir eiga sér stað.
Þó að ég hefði sannarlega sjálfur viljað vera í þeim sporum sem Jón Aðalsteinn er nú breytir það engu þar um.
Kirkjan okkar fær nýjan vígslubiskup og þar með nýjan kraft til að axla þunga ábyrgð og það er gott.
Jón Aðalsteinn er góður maður og gegn og við skulum biðja Guð að blessa hann og þjónustu hans fyrir Guðs kristni í landinu og varðveita hann hvert fótmál.

Þið voruð tólf sem ljáðuð mér formlega stuðning í vígslubiskupskjöri og skrifuðuð undir yfirlýsingu þess efnis.
Ég skrifa ykkur þetta bréf á hvítasunnu og bið ykkur að láta efni þess berast til annarra þeirra sem mig studdu og þið vitið um. Þökkum til þeirra sem mig kusu í leyndum bið ég Guð að koma til skila.
Ég hef haft mikla gleði og mikinn styrk af stuðningi ykkar og þykir vænt um að hafa mátt finna hann svo sterkt nú að undanförnu. Það var fjarskalega gott að hann hvarf ekki. Ennþá betra var að enginn hefur til þessa ávítað mig fyrir að hafa klúðrað málinu!

Ég þakka ykkur fyrir heiðarlega og málefnalega umræðu. Mér lærðist snemma að bera mikla virðingu fyrir skoðunum annarra. Þess vegna datt mér aldrei annað í hug en að treysta dómgreind og virða skoðanir þeirra sem kjósa skyldu. Sum þeirra skiptu um skoðun og völdu annað en þau ákváðu fyrst. Þótt það sé aldrei sársaukalaust að missa fylgi eða stuðning, þá er það líka lærdómsríkt. Það væri rangt að segja að ég hefði ekki viljað missa af þeim lærdómi, – en nú hef ég eignast hann.

Athugasemdir mínar við val ráðherra og rökstuðningur ráðuneytisins hafa ekki í öllum greinum fengið ásættanleg svör. Niðurstaðan er hinsvegar fengin og hlýtur að standa. Tilraunir til að hrófla við fenginni niðurstöðu væru einungis heimskulegar og myndu engu skila nema helst sárindum.

Nú höldum við áfram að starfa af fullum krafti fyrir okkar Þjóðkirkju og reynum af mætti að berjast trúarinnar góðu baráttu.

Þau málefni sem ég setti á oddinn og hafði ykkar stuðning við eru jafn dýrmæt nú sem fyrr. Ég treysti því að ég hafi áfram stuðning ykkar við að vinna að þeim þótt nú verði með öðrum hætti um hríð en við vonuðumst eftir.

Ég lét Jón Aðalstein strax vita að ég myndi styðja hann eftir getu og mætti í vígslubiskupsþjónustu hans. Ég myndi óska þess að við gerðum það öll, hvert á sinn hátt.
Hann þarf þess með og kirkjan þarf þess með.
Ég hlakka til að sjá ykkur á prestastefnu og minni á orð Páls í Ef.4.
Þau eru efnislega á þessa leið:

Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.
Ljúflyndi yðar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd.
Verið ekki hugsjúk um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.
Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.

Bestu kveðjur,
ykkar einlægur,
Kristján Valur Ingólfsson

url: http://kvi.annall.is/2003-06-10/21.30.36/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli