kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Viðbrögð við tillögum að Kirkjutónlistarstefnu · Heim · Um bænaljós »

Texti Gissurar biskups Einarssonar um myndverk í kirkjum

Kristján Valur @ 23.45 31/5/03

Hin evangelisk-lútherska þjóðkirkja á Íslandi hefur verið frekar spör á yfirlýsingar um myndverk í kirkjum og hlutverk þeirra gagnvart hinu heilaga. Það er því svo að grundvallartexti þjóðkirkjunnar um þetta efni er ennþá það sem fyrsti lútherski biskupinn í landinu sendi frá sér. Ég lofaði því fyrr á árinu að birta þennan texta (sem annars er að finna í Fornbréfasafninu) og hér er hann:

11. janúar 1547 í Skálholti. Umburðarbréf Gissurar biskups um líkneski og heilagra manna myndir,
sérlega róðukross-mynd þá ,,sem hér er í Kaldaðarnesi”.

Bréf Herra Gissurar Einarssonar af likneskjum, sent um stiftið.[1]

Gissur Einarsson, superintendens Skálholtsstiftis óskar sérhverjum góðfúsum lesara og heyrara þessa síns bréfs, náðar og friðar af Guði föður fyrir hans elskulegan son vorn Herra Jesum Christum.

Sakir þess að ég formerki fyllilega að sá blindleiki og hjátrúa fer enn nú ekki svo mjög minnkandi sem vera skyldi, að fávíst fólk hér í stiftinu leitar sinnar velferðar hjá svo auðvirðilegum hlutum sem er hjá einum og öðrum líkneskjum, – sérlega hjá þeirri róðukrossmynd sem að hér er í Kaldaðarnesi með áheitum og fórnfæringum og heitgöngum, þvert á móti Guð boðorðum og vorum trúar articulum.

Því Guð segir svo í annarri bók Móses 20. kapitula:
Eigi skaltu þér skurðgoð gjöra eftir líkingu þeirri er á himni er, á jörðu eða undir jörðinni. Ei skaltu þau dýrka né vegsama.

Hér þvert á móti gjöra menn, að þeir bæði dýrka þau og vegsama. Og sem postulinn vottar (í bréfinu) til Rómverja í 1. kap. að þeir umsnúa dýrð óforgengilegs Guðs í forgengilegar líkneskjur, dýrka meir og þjóna skepnunni en skaparanum. Hvar fyrir að Guð hann yfirgefur þvílíka menn í fráleitt sinni skakksamlegrar girndar og ýmislegar ódáðir, svo þeir meðtaka verðkaup síns villudóms og eru þeir dauða verðir sem þvílíkt gjöra svo og þeir einnig sem samsinnaðir eru þeim sem það gjöra.

Þar fyrir áminni ég og viðvara kristið fólk upp á Guðs vegna að fyrir sakir sinnar sáluhjálpar og eilífrar velferðar afláti allir og forðist slíkan hégóma og afskaplega hjátrú að veita soddan dýrkan og vegsemd nokkurri skepnu að heldur feysknum og fyrirfaranlegum líkneskjum, sem vér skyldumst að veita alleinasta vorum skapara, óaflátanlega hann að heiðra (og) vegsama í sínum signuðum syni Jesú Christo. Hverjar fyrir ég hefi látið uppskrifa og setja hér eftir nokkrar stuttlegar greinar, bjóðandi undir skylda hlýðni á hverri krossmessu þær upp að lesa í kristilegum söfnuði, hverjar að hlýða um þetta efni, svo að menn fái hér um sannan skilning og leiðist á réttan heilsuveg af þvílíkum háskasamlegum hjástigum er menn hafa helst til lengi villir ráfað, viljandi gjarna í fleiru öðru því sem kristinna manna sáluhjálp til kemur þeim gagnast og þjónustu að veita eftir því sem Guð gefur efni á nær sem þörf gjörist.

Bífalandi yður öll samt Guði Drottni. Hann virðist með sínum heilögum anda, sinni náð og styrku trausti með yður að vera alla tíma og yður að þessu liðnu lífi að gefa eilíft líf. Amen.

Skrifað í Skálholti mánudaginn næstan eftir þrettánda 1547

-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-o-

1. spurning

Mega vera líkneski eða myndir af dýrlingum í kirkjunni?

Svar.

Í 20 kafla 2.Mósebókar er bannað að gera líkneski eða skurðgoð sem menn skuli dýrka eða tilbiðja. Að tilbiðja myndir er opinber skurðgoða villa og er brot á fyrsta boðorðinu. Margir hafa talið að myndin sjálf, einkum krossmynd Krists, eða myndir af helgum mönnum, geymi í sér einhvern mátt guðdómsins og tigna hann. Þessvegna má ekki hafa neinar myndir eða líkneski í því skyni í kirkjunni.

En það er í sjálfu sér frjálst að hafa í kirkjunni líkneski eða myndir enda fari engin slík tilbeiðsla fram.

2. spurning.

Hvað skal gjöra ef fólk dýrkar og heiðrar líkneskjur?

Svar.

Ef að í nokkrum stað er það líkneski sem fávís og hjátrúaður almúgi hleypur til og heiðrar, og leitar sér hjá því hjálpar, þá skal hin veraldlega valdstjórn í þeim sama stað taka það burt svo eigi sé þar framin skurðgoðavilla. Fara skal að dæmi Hiskía konungs sem í sundur braut eirorminn sem Móses gjörði[2] vegna þess að heimskufullur lýðurinn tók að veita honum guðlega dýrkun og tilbiðja hann.

3. spurning.

Á þá ekki að heiðra líkneski?

Svar:

Klemens sagði við Jakob bróður Drottins vors: Ef að þér viljið réttilega heiðra Guðs líkneski, þá sýnið manninum velgjörð sem gjörður er eftir Guðs mynd. Veitið honum heiður og virðingu, hungruðum fæðu, þyrstum drykk, nöktum klæðnað, hinum þurfandi þjónustu, ferðamönnum gistingu, nauðsynjar þeim sem eru í fangelsi. Og enn segir hann: Hvaða Guðs heiður er það að hlaupa fyrir líkneskjur gjörðar af steinum og stokkum og hégómlegar myndir svo sem guðdómlegt veldi, en fyrirlíta manninn, sem er sannarleg Guðs mynd?

Enn segir hann svo: Hvað er óguðrækilegra og óþakklátlegra en að öðlast velgerð frá Guði og þakka svo steinum og stokkum ?

Ef engin kemur til föðurins nema fyrir Krist þá rænum við Guð dýrðinni og tileinkum hana málverks – myndum og líkneskjum eins og að þær myndu veita oss einhverja hjálp.

4. spurning:

Þó kallar Gregorius líkneskin leikmanna bækur?

Andsvar:

Vel mega kristnir menn hafa vors Herra líkneski, sællrar Maríu, höfuðfeðranna og postulanna svo sem til minnis eða áminningar, því að þar til stoða þau að áminna oss. Því þá vér lútum mynd krossins eða upprisu mynd Krists þá kallast oss til minnis um leið hinn sáluhjálplegi dauði Krists og hans dýrðlega upprisa, hverra hluta minning er mjög nytsamleg og nauðsynleg. Undir þeirri grein segir Gregiorius: Það sem lesendum er skriftin það er ólærðum málverksmyndirnar. Enn því eru kristnir menn ei aðeins skyldugir að læra af myndanna bókum, heldur einnig af bók Guðs sjálfs sem eru Ritningarnar, og hver sem þráir að þekkja Guð, leiti þess ekki aðeins af líkneskjum eða málverksmyndum. Rannsaki hann þá heldur ritningarnar, eftir boðorði Krists. En þeir sem ekki kunna að lesa, þeir hlusti á Guðs orð því að trúin kemur af predikunni.

5. spurning.

Hvað skal þá halda af helgum dómum heilagra?

Responsum. (Svar).

Líkamir heilagra eru Guðs híbýli og heilags anda herbergi, og bein þeirra voru í fyrstu týnd saman og geymd af góðviljuðum mönnum til minningar. En síðan gjörðist þar af vantrú, sem varð tilefni skemmilegra og glæpalegra svika, sem uppsett voru til ávinnings svo að þeir skipuðu svo fyrir að vegsama skyldi sérhver bein sem helgidóm heilagra. Því að ágirnd kennilýðsins hefur ei aðeins höndlað tilefni sinar ágirndar út af stokkum og steinum heldur og einnig hefur hún gjört af dauðra manna beinum verkfæri ránskapar síns þar sem að það sem þeir kalla upptöku heilagra manna beina eru ekkert nema táhrein svik rómverskra biskupa og eru líkamir margra þeirra heiðraðir hér á jarðríki hverra sálir eru greftraðar í helvíti. Þess höfum vér dæmi um þann illvirkja sem dýrkaður var sem píslarvottur, hvers altari að hinn heilagi Martinus (Marteinn) niðurbraut sem lesa má í hans lífssögu.

6. spurning.

Hverjir eru þá hinir réttu helgidómar heilagra?

Svar.

Að vér eftirfylgjum trú þeirra, kærleika, staðfestu og þolinmæði og höfum þá oss til eftirdæmis, af því að þeir fyrir einskæra náð Guðs trúðu á Krist, elskuðu náungann með glóandi ást, stóðu staðfastir í trúnni, og játningu trúarinnar og þoldu dauða í þolinmæði fyrir sakir Jesú Krists og eru meðteknir í Guðs ríki. Einnig skulum vér sem hvattir erum með þessum dæmum biðja Guð auðmjúklega að hann gefi oss sem enn stríður í þessu veraldar lífi einnig að hlutskipti slíka trú, kærleika, stöðuglyndi og þolinmæði og gæti vor með náð sinni, svo að eins og þeir eru geymdir í öruggum stað megum vér fylgja á eftir vorum bræðrum um síðir er vér skulum vissulega deyja. Amen.


[1] Skrifað upp samkvæmt texta Fornbréfasafnsins Bd.11, bls 531-535. en fært að nokkru til nútíma stafsetningar og nútímamáls, – til nota fyrst í námskeiðinu Islenskt trúarlíf, vorið 2001 og síðan í námskeiðinu Liturgisk fræði II.

[2] Sjá hér um í 2. Kon. 18.4.

url: http://kvi.annall.is/2003-05-31/23.45.22/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

torfi stefánsson @ 3/6/2003 09.36

Athyglisverð lesning. Ég vil meina að hér sé að finna fyrsta vísinn að galdraofsóknum 17. aldar. Gissur biskup segir beint út að þeir sem dýrka skurðgoð séu “dauða verðir” og einnig þeir sem styðja slíkt. Ekki vissi ég að kirkjan hafði dauðarefsingar á valdi sínu á þessum tíma. Refsiákvæði Kristjáns IV frá 1617 (lögtekinn á alþingi 1630) gegn “göldrum” voru bein aðför að leifum kaþólskunnar. Þar voru m.a. signingar bannaðar og kallaðar “fyrsta stafróf” alls galdrafólks!

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli