kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Skírnarsálmur · Heim · Vorpróf og hugsun um sálma »

Áramótasálmur

Kristján Valur @ 21.07 19/5/03

Hér kemur sagan um áramótasálminn frá 1969

Við Jón Stefánsson , kantor og organisti, höfðum ásamt tveim (þrem) öðrum verið saman í hljómsveit á Héraðskólanum að Laugum í Reykjadal veturinn 1962-1963. Hann lék þar á píanó, en greip einnig í trompet. Ég lék á trommur. Ég var reyndar aldrei góður trommuleikari, en aðrir hljómsveitarmeðlimir voru svo góðir að það gerði minna til.

Ég hélt alltaf sambandi við Jón eftir að hann var fluttur til Reykjavíkur og ég var í Menntaskólanum á Laugarvatni.

Þá þegar var hann orðinn organisti í Langholtskirkju. Við sömu kirkju var líka fermingarfaðir minn sr. Sigurður Haukur Guðjónsson, og þegar ég var í heimsókn í Reykjavík sótti ég kirkju þangað.

Það var þá líka sjálfgefið þegar ég hóf nám við Guðfræðideild Háskólans haustið 1968 að ég sótti um inngöngu í Kirkjukór Langholtskirkju, eins og hann hét þá.

Ég var tíður gestur á Langholtsvegi 165, heimili Ólafar Kolbrúnar og Jóns. Við Jón reyktum pípu og hlustuðum á tónlist, – þar á meðal hlustuðum við á plötu með Vínardrengjakórnum sem söng jóla- og áramótatónlist . Okkur fannst þetta unaðslegt.

Á þessari plötu var sérstaklega eitt lag sem okkur langaði að syngja. Og af því að Jón var svo heppinn að fá flensu og þurfti ekki að fara og kenna tónmennt í Árbæjarskólanum í nokkra daga, sem annars var dagleg iðja hans – þá skrifaði hann lagið upp eftir plötunni meðan hann var veikur.

Ég fékk enga flensu, en ég hnoðaði samt saman hálfgildings þýðingu á sálminum. Þar með var formlega hafin handavinna mín hjá frú Hymnologíu. Við sungum sálminn um áramótin. 1969/1970.

Þessi sálmur hefur aldrei komið í sálmabók, og hefur mér vitanlega ekki verið sunginn nema í Langholtskirkju og í Raufarhafnarkirkju árin sem við hjónin þjónuðum saman að messusöng þar. Þegar sálmurinn nálgaðist þrítugsaldurinn var hann tekinn inn í söngbók fyrir fjórar blandaðar raddir. Það er Söngvasveigur nr. 8. Dýrð vald virðing. Skálholtsútgáfan 1996.Ég veit ekki um neinn sem hefur fundið hann þar.

Lag: Felix Mendelssohn.Op.88.nr.1. Frumtexti J.P.Hebel.

Þessi sálmur er svohljóðandi:

Ljóssins herra, lof sé þér,
líkn í hverju tári.
Gef oss styrk að vaka, vinna,
vorri trú og köllun sinna,
nú á nýju ári.

Styrk þú vora veiku trú,
veit oss þrek í stríði.
Gef þú hverju glöðu barni
gleði trúar, lífs á hjarni.
Sannan frið í friði.

Þar sem grátnir ganga frá
gröfum vina sinna
munu spretta rósarunnar:
Raunabætur náttúrunnar
Guðs á gæsku minna.

Himnafaðir heyr þá bæn,
hjálp oss villtum vega.
Gef þeim styrk sem gráta, kvíða,
gleðibros sem þrautir líða.
Í ár, og ævinlega

url: http://kvi.annall.is/2003-05-19/21.07.11/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Þorgils Hlynur Þorbergsson @ 3/6/2003 11.47

Þetta er afar skemmtileg saga og fallegur sálmur. Ef til vill koma einhverjir sálmar frá mér með tíð og tíma, hver veit?
Kveðja, Þorgils Hlynur.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli