kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Almenn bæn á mæðradaginn · Heim · Áramótasálmur »

Skírnarsálmur

Kristján Valur @ 20.45 19/5/03

Það stóð alltaf til að bæta við sálmum og sögum af þeim. Þetta er sagan um skírnasálminn hennar Andreu.

Það var haustið 1979. Við hjónin bjuggum í Leimen sunnan við Heidelberg í Þýskalandi. Það er, eins og sumum er kunnugt, heimabær tennisstjörnunnar Boris Becker, sem reyndar á að baki glæsilegri feril á tennisvellinum en í einkalífinu.

Við hjónin höfðum sungið Jóhannesarpassíu J.S.Bach á föstunni þetta ár í Studentenkantorei Heidelberg undir stjórn Peter Schumann. Hann var kórstjóri og organisti við stærstu kirkjuna í Heidelberg, Heilig-Geist kirkjuna.

Mér var alltaf mjög hugleikinn kórallinn sem er eins og í miðju passíunnar:

Durch dein Gefängnis Gottes Sohn,
muß uns die Freiheit kommen;
Dein Kerker ist der Gnadenthron
die Freistatt aller Frommen;
Denn gingst du nicht die Knechschaft ein
müßt unsre Knechtschaft ewig sein.

Það útleggst á þessa lund: Fyrir það að Guðs sonur var tekinn til fanga höfum við fengið frelsi. Fangaklefi Krists er náðarhásæti og fríborg hinna frómu. Því að ef þú, Kristur, hefðir ekki gengið undir þrældómsok værum við í eilífri ánauð.
Þetta orð : fríborg, – er tekið úr barnaleikjum í skotbolta og skyldum leikjum. Maður kemst í borg, eða í höfn og þar hefur maður frið.
En þessi hugsun sem Bach málar svo meistaralega með tónum minnir vissulega á skírnina.

Mágkona mín Ólöf Valgerður átti von á barni á haustmánuðum 1979. Við ætluðum heim um jólin og þá átti að skíra barnið. Daginn sem barnið fæddist lauk ég við sálm handa henni til að syngja í fjórum röddum eins og hefð er fyrir í ýmsum sveitum og fjölskyldum.
Við sungum hann við þennan Bach-kóral. Síðan hefur hann verið sunginn við margar skírnir þessarar fjölskyldu.
Barnið heitir Andrea Bóel Bæringsdóttir.
Fyrr á þessu ári eignaðist hún son sem heitir Börkur Darri Hafsteinsson. Þá sungum við þennan sálm, – en í tilefni af því – og þó með alveg óskyldum hætti, bar svo við að tónskáldið Hugi Guðmundsson fékk sálminn til að gera við hann nýtt lag. Nú er það á leiðinni, – og kannski verður hægt að birta það hér á annálnum síðar. En sálmurinn er svona:

Skírnarsálmur Andreu.

Þú, Drottinn Guð, sem lífið ljær
oss litlum börnum þínum,
ver fyrir stafni stjarna skær
sem stýrir vegum mínum.
Nú skírnarsáinn signdu þinn
þú sonur Guðs og bróðir minn.

Ó, þú sem hékkst á hörðum kross
svo heimur lifað gæti,
gef líka mér og öllum oss
í eilífð þinni sæti,
er teiknar nú þín heilög hönd
þitt helga tákn, á líf og önd.

Ég bið þig, Jesú, blessa þú
hvert barnið smátt í heimi,
að vaxi þeirra von og trú.
Þín verndin mild svo geymi
þau alla tíð í heimi hér.
Ó, heyr þá bæn er biðjum vér.

Heidelberg í nóvember 1979

url: http://kvi.annall.is/2003-05-19/20.45.19/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli