kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Helgihald heimilanna á aðventu · Heim · Fundur kandidata við kjör vígslubiskups á Hólum »

Að syngja messu

Kristján Valur @ 11.02 5/12/02

Á námskeiðum sem ég hef haldið um kirkjusöng, sálmasöng og kirkjutónlist er nánast alltaf einhver sem spyr: Hvað er kirkjutónlist?

Ég hef aldrei getað svarað með viðhlítandi hætti, þótt ég hafi stundum komið með tilgátur – eða tilraunir til svars, eins og hér verður líka gert í niðurlagi þessa texta.

Þessar tilgátur eru fyrst og fremst hugsaðar sem viðbragð frá sjónarhóli trúarinnar. Þaðan séð má kalla þær gilt svar.

Sálmur er listform eins og kirkjutónlistin. Sumt af því sem hér er sagt hef ég því sett fram með áþekkum hætti í öðru samhengi listar og trúar.
Eftirfarandi hugleiðingar hafa þrjá megin áherslupunkta:

Þeir eru: Hlutverk, staðir og flytjendur tónlistar í messu.

1. Hlutverk tónlistarinnar í messunni.

Söng Jesús? Í guðspjöllunum er þess er hvergi getið beinlínis. En hann tók þátt í reglulegu helgihaldi síns fólks og þar var að sjálfsögðu sungið. Nærtækt er að vísa til þess sem hann gerði eftir kvöldmáltíðina, á undan göngunni út í grasgarðinn. (Mt.26.30)

Þar er skrifað:,,Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn”. Á mótum gleðinnar og þjáningarinnar stendur Jesús upp og syngur lofsönginn með lærisveinunum.

Þeir sungu hina svokölluðu Hallelsálma, sem samkvæmt hinni gyðinglegu hefð eru sungnir m.a. við páskamáltíðina. Þetta eru sálmar 113 – 118.

Lýður Guðs á jörð kemur saman til þess að heyra orð Guðs. Það er eðli hans og grundvöllur. Án þess er engin kirkja. Orð Guðs kallar saman söfnuðinn, kirkjuna. Kirkjan er söfnuður einstaklinga sem eru kallaðir til að vera heyrendur orðsins og gjörendur. Gjörendur orðsins eru þau sem fara út og þjóna náunganum og boða orðið með lífi sínu og trú, en það eru einnig þau sem bregðast við orðinu á staðnum þar sem það er kunngjört, með lofgjörð og þakkargjörð og tilbeiðslu. Að syngja messu er því í þeim skilningi, að vera gjörandi orðsins.

Það sem einkennir allt helgihald kirkjunnar er samtal. Það er orð og andsvar.

Eitt af megineinkennum andsvars messunnar er að það er tónað, – þ.e. flutt fram með tóni eða með tónum. Orð með tóni og tónar án orða. Að vegsama, að ákalla, að lofa og að biðja Guð í tónum og með tónum í söfnuðinum, það er tónlist safnaðarins, og þar með grunnur kirkjutónlistarinnar.

Nú er það kunnugt að þegar margir svara í einu er besta leiðin til þess að allir svari samtímis að svarið sé sungið. Það er ein forsenda tónlistarinnar í messunni, en það er ekki hin eina.

Söfnuðurinn tekur á móti óverðskuldaðri náð Guðs. Hann þakkar þá gjöf í sameiginlegri bæn og tilbeiðslu. Hið sameiginlega svar safnaðarins við ávarpi Guðs tekur á sig listrænt form til þess að tjá enn betur og vera enn frekar samboðin mikilvægi svarsins og dýpt tilbeiðslunnar.
Þetta er samhljóma áliti Ottos Brodde í bók hans Musikalische Liturgik. (Edition Merseburger 1980). Otto Brodde vísar til predikunar Martins Luthers um hina tíu líkþráu.

Lúther segir þar : ,,… Þetta er hin rétta guðsþjónusta: að snúa til baka og lofa Guð með hárri raustu (Lk. 17.15). Það er hið stærsta og besta verk sem unnið verður á himni og á jörðu og það eina sem vér getum borið fram fyrir Guð. Að snúa til baka, það er: að vér berum náð og gáfur Guðs sem vér höfum þegið, aftur heim til hans.”
Otto Brodde vísar ennfremur í bréfið til Hebrea 13.15, en þar stendur: ,,Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara er játa nafn hans”.

Þetta kallar Brodde stofnskrá tónlistarinnar í söfnuðinum. Hann bendir á að setja má ,,vegsama” í stað ,,játa”:

,,Svo skulum vér því alla tíð bera lofgjörðarfórnina fram fyrir Guð: það er ávöxt tungu og vara sem vegsama Guð”.

2. Staðir tónlistarinnar í messunni

Allt helgihald kirkjunnar er vettvangur fyrir tónlistina. Hér verður þó einungis fjallað um messuna, hina almennu messu safnaðarins, samkvæmt því formi hennar sem okkur er kunnugt og tamt. Miðað er við messu í merkingunni almenn guðsþjónusta með kvöldmáltíð.

Það er strangt til tekið hægt að syngja messuna alla, frá upphafi til enda, meira að segja predikunina líka. sr. Emil Björnsson, sem látinn er fyrir nokkrum árum og var prestur Óháða safnaðarins um hríð, flutti einhverju sinni predikun í útvarp í bundnu máli og séu prestar færir um það, ætti þeim ekki að vera skotaskuld úr því að semja predikun sína undir þekktum lagboða eða einfaldlega tóna texta sinn rétt eins og hægt er að tóna pistil og guðspjall.

sr. Magnús Magnússon á Skagaströnd flutti predikun í bundnu máli á Kántrí – hátíð sumarið 2002 og söng hana líka.

Venjan er nú samt sú að lesa messuupphafið, lestrana og predikunina og almennu bænina, en syngja annað. Hinir sungnu liðir eru fyrst og fremst hinir fimm föstu liðir, miskunnarbæn, dýrðarsöngur, trúarjátning, heilagur, og lamb Guðs, með þeirri undantekningu þó að trúarjátningin er yfirleitt lesin.

Þessir föstu liðir, sem mynda hrygglengjuna í messunni eru sungnir með því tónlagi sem viðtekin venja safnaðarins býður, eða að sungin er messa tiltekins tónskálds. Aðrir tónlistarliðir messunnar, eru í flestum tilfellum fimm til sjö sálmar úr sálmabók, orgelforspil og eftirspil, og ef til vill tónlist undir útdeilingu og sérstakt stólvers eftir lestur texta eða bænar á undan predikun.

Að öllu jöfnu er flutningur tónlistarinnar falinn organista og kór, forsöngvara og söfnuði, einsöngvara og einleikara, eða einleikurum, að ógleymdum prestinum. Hér á landi , eins og annarsstaðar hafa skapast ákveðnar venjur í verkaskiptingu og hlutverkaskiptingu þessara aðila. Engin ástæða er til að halda þeim venjum óbreyttum vegna hefðarinnar einnar, eða
breyta þeim breytinganna vegna, en vegna eðlis guðsþjónustunnar og kirkjutónlistarinnar sem fyrr er minnst á, er nauðsynlegt að skoða þessa þætti alla í nærmynd, sem og framkvæmd þeirra.

Eiginlegir ,,staðir” tónlistarinnar í messunni aðrir en hinir föstu liðir og hinn eiginlegi tónsöngur eru þessir:
Við messuupphaf, milli lestra, fyrir og eftir predikun, fyrir og eftir kvöldmáltíð, undir útdeilingu, og í messulok.


3. Framkvæmd og flytjendur tónlistar í messunni.

Viðtekin venja er að fylla þessi sæti sem hér voru nefnd með eftirfarandi hætti: Messuupphafið er í tvennu lagi eða þrennu, þ.e. orgelforspil, inngöngu-sálmur úr sálmabók og inngönguvíxlsöngur ritningartexta.

Tónlist milli lexíu og pistils (graduale) er yfirleitt sleppt,- eftir pistil er sunginn Hallelújasálmur, eða ,,sálmur eftir tímans vana”, – undan predikun er sunginn guðspjallssálmur, ef hann er til, ella einhver annar, – eftir predikun fylgir sálmur eða stundum einsöngur eða sérstaklega æfður kórsöngur,- undan altarisgöngu er sunginn sálmur, – undir útdeilingu syngur kórinn sálm eða organistinn leikur einn eða með öðrum einhverja músík, – eftir altarisgöngu er sunginn sálmur -og síðast er lokasálmur og leikið eftirspil á orgelið.

Það skal tekið fram að það er ekkert athugavert við það að hafa fábreytta söngva við helgihaldið. Fyrir því geta verið margar ástæður. Helgihaldið er þeirra sem koma saman hverju sinni og form þess ræðst af þörfum og getu þeirra sem syngja messuna. En það er engin dyggð að hafa helgihaldið fábrotið ef saman er komin hópur sem getur auðgað það list og listsköpun, svo lengi sem það grípur allan söfnuðinn með og gerist innan hans.
Helgihaldið er safnaðarins alls og hlutverk þeirra sem leiða það er að leiða söfnuðinn í því og til þess.
Þegar hefðin er brotin upp til þess að lofgjörðin megi rísa enn hærra og tilbeiðslan verða enn dýpri, þá er hægt að gera það til dæmis með eftirfarandi hætti og af eftirfarandi ástæðum:

Messuupphafið undirstrikar mót manns og Guðs. Söfnuðurinn gengur til fundar við hinn upprisna Drottinn, sem mætir honum. Jesús Kristur kemur sjálfur til fundarins. Hið hefðbundna orgelforspil getur markað það mót og undirstrikað það, en er þó hvorki sjálfsagður né nauðsynlegur þáttur í því stefnumóti og getur reyndar haft þveröfug áhrif. Organisti ,,gefur tóninn”, í bókstaflegum skilningi með orgelforspili sínu.

,,Vald” organistans til þess að hafa áhrif á umrætt stefnumót er því mjög mikið. Oft fer hann vel með þetta vald, vitandi eða óvitandi, en það getur líka verið með allt öðrum hætti.
Orgelforspil getur verið einskonar hugleiðing um fyrsta sálminn sem syngja skal eða hluti af flutningi hans.

Þegar forspili er lokið er fluttur inngöngusálmur úr sálmabók eða úr ritningunni, með þeim hætti sem kantórinn (organistinn/forsöngvarinn/ kórstjórinn) hefur undirbúið.

Í öllu falli er nauðsynlegt að organistinn geri sér góða grein fyrir því hvaða tilgangi forspil hans og hljóðfærisins á að þjóna.

Staðurinn milli lestranna, er eðlilegur staður fyrir það sem áður hét Gradúale, – söngur í tröppunum. Þetta er góður staður fyrir æfðan söng einsöngvara, liturgísks kórs og eða hljóðfæraleikara. Það þarf ekki að leita lengra í tónbókmenntirnar en í íslenskar kóralbækur og samtímahöfunda til að finna efni sem þar á heima, en þetta er líka staður nýsköpunar.

Söngurinn eftir pistil hefur nú um hríð verið kallaður Lofgjörðarvers, eða Halleluja.

Eins og fyrr segir byggist messan öll upp á samtali; ávarpi og svari. Söfnuðurinn svarar ávarpi Guðs. Halleluja er samkvæmt fornri hefð sungið á milli pistils og guðspjalls. Sú messugjörð er nánast ekki til í hinni fjölbreyttu flóru helgihals kristninnar, að ekki sé sungið halleluja.

Halleluja er í eðli sínu ekki endilega svar safnaðarins við pistlinum heldur miklu fremur undirbúningur hans áður en hann tekur á móti guðspjallinu. Enda þótt finna megi mismunandi skilning meðal kirknanna á ýmsum tímum, er óhætt að halda því fram að halleluja sé hluti af guðspjallskynningunni. Eftir pistil má því syngja sálm eða vers sem samsvarar pistilinum, síðan má syngja Halleluja með versi úr ritningunni, samkvæmt tímanum, og hlýða svo á Guðspjallið.

Sálmurinn eftir trúarjátningu er í eðli sínu aðal- sálmur dagsins og jafnvel allrar vikunnar. Það er sálmurinn sem fjallar um efni guðspjallsins.

Trúarjátningin er lofsöngur í eðli sínu. Bæði má syngja hana eins og hún kemur fyrir, en einnig má syngja trúarjátningarsálma.

Þegar játningin er sungin, er ekki sunginn guðspjallssálmur, en þó má syngja sálmsvers eftir játninguna. Það er góður siður, og gefur prestinum tækifæri til að afskrýðast og stíga í stólinn.

Prestur yfirgefur ekki altarið meðan játningin er flutt, ekki heldur þegar hún er sungin.
Auðvitað er þetta líka góður staður fyrir organistann að leika af fingrum fram eða annað æft. Að síðustu er þetta staður fyrir guðspjallsmótettu, eins og að eftir pistil má flytja pistilsmótettu, þegar söngkraftar leyfa og tiltækir eru textar á tungu innfæddra.

Stólversið sem svo er nefnt í handbók, er staður fyrir sérstaklega æft atriði: einsöng, einleik, kórsöng. Algengt er að þessi möguleiki sé nýttur en mjög með mismunandi hætti. Bæði er skortur á efni til flutnings á þessum stað í messunni og hugmyndaauðgi getur verið takmörkuð.
Þar við bætast ýmsar séríslenskar venjur. Ég nefni tvennt: Annað er sérkennilega mikið dálæti á Maríubænum, en hitt er sá skilningur að Barokk- tónlist hljóti öll að vera kirkjutónlist, jafnvel þótt textinn gefi tilefni til annars.

Við skulum gjarna hafa Maríu Guðsmóður í hávegum, og þótt það sé auðvitað ekki bannað í okkar kirkju að biðja okkur á dauðastundinni, frekar en við biðjum aðra vini okkar að um hið sama, að þá var það nú samt sonur hennar og bróðir þinn Jesús Kristur, sem sigraði dauðann fyrir þig og er genginn á undan þér inn í himininn og biður fyrir þér.
Þar við bætist að ekki er sjálfgefið að textar allra Maríubæna eiga sama erindi inn í helgihald kirkjunnar, ef þær eru ættaðar úr öðru umhverfi.

Hvað Barokktónlist varðar og einkum tónlist Jóhanns Seb. Bachs, sem af eðlilegum ástæðum er í mestu uppáhaldi, er mjög nauðsynlegt að athuga forsendur og texta tónlistarinnar áður en hún er flutt. Nafn J.S. Bachs tryggir ekki að tónlistin eigi heima sem stólvers.

Tónlistin fyrir altarisgönguna hefur tvíþættan tilgang. Hún gefur prestinum tíma til að tilreiða brauð og vín og hún undirbýr þátttakendur fyrir gönguna til Guðs borðs. Þess skyldi kantorinn gæta. Oft fer vel á því að organistinn leiki af fingrum fram spuna um tiltekið stef.
Sú tónlist sem flutt er meðan kvöldmáltíðin stendur yfir hefur það hlutverk að þjóna boðskap kvöldmáltíðarinnar- fagnaðarerindinu um Jesú Krist og nærveru hans í þessum leyndardómi. Þessi stund messunnar er helgasti leyndardómur hennar.

Nokkuð ber á því að leikin sé undir útdeilingu allskyns tónlist – jafnvel fullkomlega veraldleg dansmúsík fyrir ýmiss hljóðfæri. Vissulega er verið að bera fram máltíð Drottins en þetta er ekki staður fyrir dinner-músík. Það er óhæfa. Tónlist á þessum stað er ekki til að fylla í eyður, ekki til að skapa stemmingu eða til að skemmta þeim sem ekki fara til altaris meðan hinir ganga innar.
Best er því að syngja á þessum stað sálma eins og sálminn ,,Jesús Kristur lífsins ljómi”,(Sb 237) og aðra þá sem getið er í leiðbeiningum í sálmabókinni.

Oft má sleppa sálmi eftir bergingu, en ef sungið er þarf það helst að vera með þeim hætti að söfnuðurinn geti allur tekið undir. Hið sama gildir um lokasálm messunnar. Það er sameiginleg lofgjörð alls safnaðarins. En að sjálfsögðu getur flutningurinn verið með þeim hætti að þáttur safnaðarins sé sá að syngja einskonar viðlag á móti kór og hljóðfærum sem
hafa með höndum aðalhlutverk.

Messunni lýkur samkvæmt hefð á eftirspili. Organistanum er nauðsynlegt að hafa í huga tvennt. Annað er spurningin: Eftirspil við hvað? – Hitt er sú staðreynd að guðsþjónustan, hvort sem hún er messa eða ekki, endar ekki. Hún er eilíf þjónusta Guðs og manns, en breytist við kirkjudyr í þjónustuna við náungann og við heiminn og finnur þess vegna aftur til kirkju næst þegar klukkan kallar.

Hér hefur verið gengið útfrá því að tónsöngur hinna föstu liða sé sunginn samkvæmt venju safnaðarins. Þegar kostur er á er þó sjálfsagt að flytja þessa þætti í þeim búningi sem tónskáld hafa búið þeim. Messur meistaranna eru líka messusöngur. Hér ekki tóm til þess að ræða það menningarsögulega og kirkjusögulega slys þegar kirkjutónlistinni var að mestu vísað út úr kirkjunni og inn í tónleikasalina. En það var sannarlega slys og okkar er að reyna að bæta úr eftir mætti.

4. Niðurlag

Það er eðli safnaðarins að koma saman í nafni Jesú Krists. Það að söfnuður kemur saman í nafni Jesú Krists, það er guðsþjónusta. Þegar kvöldmáltíðarsakramenntið er borið fram á þessari samkomu, þá er messa. Það mætti því segja sem svo að hlutverk safnaðarins sé að vera kirkjan, sem heyrir orð Guðs og lofar Guð og ákallar hann. Guð er Guð reglunnar, sá
sem kemur reglu á óregluna. Guðsþjónustan er reglubundin þjónusta. Til þess að samkoman fari skipulega fram og samkvæmt settri reglu, þá skiptir söfnuðurinn með sér verkum og felur sérstök verkefni og embætti ákveðnum einstaklingum, sem leiða helgihaldið og stjórna því og annast einstaka liði í umboði safnaðarins. Þar er fyrst að nefna prestinn, síðan forsöngvarann, meðhjálparann og djáknann, kórinn og hljóðfæraleikarana og fleiri og fleiri ef þarf.
Með öðrum orðum: Til þess að orð Guðs sé kunngjört og útlagt í söfnuðinum og að sakramentin séu framborin er stofnsett predikunarembætti.
Að svara orðinu í lofgjörð og söng og bænargjörð er embætti safnaðarins.Til þess að leiða söfnuðinn þegar hann svarar er stofnsett forsöngvaraembætti: Embætti kirkjutónlistarinnar. Þetta embætti kemur reglu á þjónustu safnaðarins þegar hann ákallar og vegsamar Guð í tónum og með tónum. Sá, eða sú sem hefur þetta embætti á hendi stýrir því sem
söfnuðurinn sjálfur getur annast, en til sérstakra verkefna kallar söfnuðurinn einstaklinga til starfa: kórsöngvara, einsöngvara, orgelleikara og aðra hljóðfæraleikara. Þar hefur hver sitt sérsvið sem þó geta skarast. Kórinn getur annast hlutverk forsöngvara í söfnuðinum auk sérstakra kórverkefna, einsöngvarinn getur bæði verið forsöngvari og leitt hina sungnu bæn, og einleikarinn og aðrir hljóðfæraleikarar geta ásamt orgelinu annast hina orð-lausu tilbeiðslu, auk þess að styðja orð-bundna tilbeiðslu safnaðarins.
Þannig gerist tónlistin í messunni í söfnuðinum, en aldrei nema að litlum hluta fyrir söfnuðinn.

Hér er hinsvegar vandratað meðalhófið.

Það er hægt að fegra svo og fullkomna þennan þátt helgihaldsins að söfnuðurinn sé skilinn eftir útundan.

Það er hægt að fegra svo og fullkomna þennan þátt helgihaldsins að söfnuðinum finnist hann vera fremur á himnum en á jörðu.

Báðar þessar setningar eru í fullu gildi.

Helgihald sem er verk fárra listamanna getur orðið að uppfærslu þeirra einna. Slíkt helgihald er ævinlega ófullkomið og í eðli sínu ,,falskt”, þótt það nálgist tónlistarlega fullkomnun og engan tónn sé þar að heyra nema þann sem er hreinn.

Það er ekki hægt ,,að færa upp” guðsþjónustu safnaðar. Það er hinsvegar hægt að flytja tónlist með þeim hætti frammi fyrir söfnuði að úr verði sönn helgistund.

Hinn hreini tónn helgihaldsins er hinsvegar í eðli sínu óhreinn af því að hann er fluttur með óhreinum vörum syndaranna.

Guð einn getur stillt þann hljóm í kærleika sínum, sem réttlætir syndaranna.

Þá tónlist heyra þau, flytja þau, semja þau, sem snortin eru af elsku Guðs.

Og það er kirkjutónlist.

url: http://kvi.annall.is/2002-12-05/11.02.25/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli