kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Kirkjan, listin og trúin · Heim · Yfirlit »

Kirkjan -hús og söfnuður.

Kristján Valur @ 23.04 10/11/02

Á námskeiði fyrir meðhjálpara og kirkjuverði í Bústaðakirkju 8.-9.nóvember var því lofað að hér á annálnum myndi smám saman birtast til lestrar efni það sem lá til grundvallar kennslunni. Hér er fjallað um kirkjuhúsið.

Hús og söfnuður.

Í eftirfarandi pistli hefi ég hugsað mér að ræða nokkuð um hið ytra umhverfi meðhjálpara og kirkjuvarðar. Ég geri það með því að lýsa kirkjuhúsinu og þeim hlutum og áhöldum sem þar eru með tilliti til þeirra þarfa fyrir þau sem kirkjustarfið kallar á.

Um kirkjuhúsið.

Kirkja er hús safnaðarins. Kirkja er heilagur staður, frátekinn til þjónustunnar við Guð.

* Þar inni er altari. Það er aðalhluti kirkjuhúss, tákn um nærveru Guðs, borð Drottins og merkissteinn milli himins og jarðar. Það stendur hærra en venjulegur gólfflötur, skal ekki standa upp við vegg og ekki vera lokað alveg af með altarisgrindum.

* Þar er skírnarlaug, þar sem börn og fullorðnir eru helguð Kristi og tekin inn í söfnuð hans. Altari og skírnarsár skulu vera úr náttúrulegu efni.

* Þar er predikunarstóll, þar sem orð Guðs er kunngjört og útlagt.

* Þar er hljóðfæri, og rými fyrir söngstjóra (forsöngvara) og lítinn kór í hlutverki forsöngvara til að leiða sungna lofgjörð safnaðarins.

* Þar er rými fyrir áætlaðan fjölda sóknarbarna og skyldi þess minnst að ekki eru allir jafn frískir eða jafn færir til hreyfinga.

* Byggingin sjálf skal vera hluti þeirrar lofgjörðar í tali og tónum sem guðsþjónusta safnaðarins er. Þar gengur söfnuðurinn til fundar við frelsara sinn og Drottin Jesú Krist, sem mætir honum í lifandi nærveru upprisunnar, í orði sínu og máltíð. Byggingin er umgjörð þessa atburðar. Hún er framar öðru staður tilbeiðslunnar.

* Annað húsnæði safnaðarins er mismunandi, sem kunnugt er, stundum er það ekkert. Þar sem það er til er það oft í tvennu lagi. Hluti þess er á mörkum kirkju og safnaðarheimilis og hluti er hið eiginlega safnaðarheimili, með skrifstofum prests og annarra starfsmanna, viðtalsherbergi og geymslum, aðstöðu fyrir kirkjukór og organista, kirkjuvörð og starfsmenn kirkjugarðs, fundarherbergi, fundar og samkomusal, eldhúsi og snyrtingum.

* Á mörkum beggja eru auk snyrtinga, skrúðageymsla og áhaldageymsla og hið eiginlega skrúðhús, þar sem prestur og þau önnur sem þjóna að messunni undirbúa sig og koma saman fyrir og eftir messu. Tengt skrúðhúsi eða aðskilið getur verið herbergi fyrir skírnarfólk og brúðhjón, hljóðfæraleikara og aðra.

* Við frágang á útliti og umhverfi er æskilegt að hafa í huga merkingu kirkjunnar í heiminum. Meðal tákna hennar eru skipið og tjaldið – skipið sem treysta má í öldugangi og óveðrum lífsins, og tjaldið sem minnir á að Guð “tjaldar” meðal mannanna, – þ.e. gjörir sér bústað mitt á meðal þeirra, sem þó er ekki varanlegur eða endanlegur. Samt er þar að finna skjól og von og framtíð.

Bæði táknin minna því á skjól og hlé, sem er þó ekki varanlegt hæli. Kirkja er ekki staður til að láta fyrirberast varanlega, heldur til að sækja næringu og styrk til leiðarinnar framundan, – leiðar lífsins – til lífsins. Þess vegna er bjargið, – táknið um klett hjálpræðisins og minning um fiskimanninn Pétur, einnig tákn ef það tengist hinum: “Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum”. Styrkur hans birtist þó ekki í hörkunni, heldur í lægingunni. “Sá Guð er ræður himni háum, hann hvílir nú í dýrastalli lágum”. Guð er. Guð kemur. Guð kallar.

Kirkja, sem hús, er aðgreindur staður. Útlit hennar getur verið með ýmsu móti, eins og líka umhverfi hennar. Þegar þess er kostur skyldi þess þó gætt að það sé að – laðandi í umhverfinu.

Sá félagsskapur sem við köllum kirkju, ber einnig ýmis önnur nöfn. Þessi nöfn eru lýsandi um hlutverk og starf að mati hinna áhugasömustu í hópnum, en kunna að vera leyndardómur fyrir öðrum. Þannig er ekki ljóst nema fáum að í heitinu : Söfnuður Jesú Krists og líkami hans á jörðu, felist kynning á eðli safnaðar og starfsaðferðum.

Einfaldasta útskýring á hugtakinu kirkja er því þessi:

Kirkja er samfélag. Eðli þess samfélags er að koma saman og tilbiðja Guð sameiginlega í stærri og smærri hópum.

Hér á Íslandi búum við hinsvegar við þær kringumstæður, sem reyndar einkenna Vesturlönd yfirleitt, að ekki nema lítið brot þeirra sem þó tilheyra söfnuðinum sækja samkomur hans reglubundið. Einkenni safnaðarstarfsins er, að mjög mikill munur getur verið á milli mesta og minnsta fjölda sóknarbarna sem viðstödd eru hina almennu guðsþjónustu safnaðarins eða aðrar samkomur hans.

Þetta eru engin ný sannindi. Á þau skal þó minnt vegna þess að einmitt þessar staðreyndir: “Það er eðli safnaðarins að koma saman” og “ekki hlýða nema fáir kalli kirkjunnar hverju sinni”, er grundvallandi hvert sinn sem einhver af söfnuðum Þjóðkirkjunnar á Íslandi byggir yfir starfsemi sína.

Vegna þess eðlis safnaðarins að vera í heild ábyrgur gagnvart skapara sínum og frelsara og um leið gagnvart hverjum einstaklingi safnaðarins, eru allar athafnir í sameiginlegu lífi safnaðar, sem og einstakir atburðir í lífi einstakra safnaðarmanna, ævinlega opinberir atburðir. Þó er munur á, vegna þess að ekki er alltaf allur söfnuðurinn kallaður til þótt eitthvað fari fram með opinberum hætti, eins og útför, skírn, eða hjónavígsla.

Við þetta opinbera samkomuhald bætast svo litlar athafnir,tengdar sálgæsluhlutverki kirkjunnar, eins og til dæmis einkaskriftir og sérstakar bænastundir. Þessum flokki helgihaldsins tilheyrir einnig undirbúningur prests og annars aðstoðarfólks fyrir og eftir athafnir, sem og á öðrum tímum.

Kirkjuhúsin eru vettvangur fyrir eftirtaldar athafnir:

A: Samkomur og athafnir boðaðar fyrir allan söfnuðinn: B: Samkomur ýmist boðar öllum eða aðeins fáum: C: Samkomur sem ekki eru boðaðar:

A: Samkomur og athafnir boðaðar fyrir allan söfnuðinn:

1. Almenn og venjubundin guðsþjónusta safnaðarins. 2. Barna- og fjölskylduguðsþjónusta. 3. Hátíðarguðsþjónusta. 4. Bænastundir.

5. Aðrar samkomur.

B: Samkomur ýmist boðar öllum eða aðeins fáum:

1. Útför, 2. Skírn, 3. Ferming, 4. Hjónavígsla,5. Aðrar helgiathafnir.6 . Samkomur til undirbúnings öðrum samkomum:

Æfingar þátttakenda í athöfnum. Kóræfingar. – Aðrar hljómlistaræfingar.

C: Samkomur sem ekki eru boðaðar:

1. Útfarir í kyrrþey, 2. Skriftir.3. Aðrar athafnir bundnar sálgæslu; Fyrirbænir, Þakkargjörð fyrir bata, – fyrir fæðingu, – fyrir lausn frá þrautum. Endurnýjun hjúskaparheits.

Húsnæði og umhverfi A og B.

Vegna þeirra aðstæðna sem ríkja á Íslandi, þar sem meðalkirkjusókn í þéttbýli er 2 – 5% yfir árið og hæstu toppar (jól og páskar) ná þegar mest er 10 – 15%, hefur verið talið að eðlilegur hámarks sætafjöldi í kirkjuskipi (kirkjusal) sé (miðað við a.m.k. 90% aðild að kirkju) 10% íbúafjölda. Venjuleg tala sóknarbarna á venjulegum sunnudegi á Íslandi er um 50 til 100 manns. Þótt ótrúlegt sé, sýnir reynslan að þessi tala gildir óháð því hversu kirkjan er stór eða söfnuðurinn fjölmennur.

Af þessari ástæðu hefur í vaxandi mæli verið reynt að byggja þannig yfir söfnuði landsins að:
a) hlýlegt sé í kringum þau sem koma hverju sinni, og
b) auðveldlega megi hýsa þau sem koma þegar fjölmennast er.

Þetta er oftast gert með því að hafa hið venjulega kirkjuskip hlutfallslega fremur lítið miðað við heildarflatarmál byggingarinnar (bygginganna) en opnanlegt inn í hliðarsal eða stórt anddyri. Hægt er þó einnig að gera stórt kirkjuskip svo úr garði að auðu sætin megni ekki að ráða yfirbragði guðsþjónustunnar á venjulegum sunnudegi þegar fáir koma til kirkju. Ein leiðin til þess er að gera altarið og umbúnað þess að svo augljósu aðalatriði í kirkjunni að það, ásamt athöfninni sem fram fer, “haldi utan um” söfnuðinn. Til þess að svo megi vera þurfa allir “hlutir” viðkomandi athöfninni að vera sem næst altarisrými: skírnarfontur, predikunarstóll, forsöngvarar og hljóðfæri.

Um altarið og kórinn.

Fyrir kemur að altari stendur í miðju kirkjuhúsinu. Það er þó næsta sjaldgæft og ekki endilega heppileg staðsetning. Altarið og umbúnaður þess er hinsvegar ávalt hin eiginlega miðja kirkjuhússins, þótt það sé ekki í bókstaflegum skilningi í húsinu miðju. Áherslan á hið miðlæga byggir á því að altarið er merkissteinn á mærum himins og jarðar. Það stendur á mörkum hins sýnilega og ósýnilega.

Þegar söfnuðurinn horfir til altarisins horfir hann í austurátt – á móti rísandi sól, á móti hinum upprisna Kristi páskamorgunsins, á móti dómara heimsins við endi aldanna. Þau dæmi sem til eru um að kirkjur snúi í aðra átt, eða að altarið sé ekki í austurenda kirkju eru undantekningar, venjulega tilkomnar vegna landslags eða annarra ytri ástæðna. Þessi venja, að kirkja snúi austur og vestur, var ekki sjálfsögð lengi framan af, heldur er yngri venja. Enda þótt grundvalla megi hana guðfræðilegum rökum er ekki ástæða til að amast við frávikum.

Altari er til meðal ýmissa trúarbragða. Þess vegna þarf að undirstrika sérstöðu hins kristna altaris með sýnilegum hætti .

Hið forna, gyðinglega altari er fórnaraltari. Það má orða svo, að frá því stigi fórnin (fórnarilmurinn) upp til Guðs. Hið kristna altari er fyrst og fremst borð. Borð Drottins, þar sem máltíð hans er framreidd. Áherslan hvílir á því að Guð steig niður til jarðarinnar og gjörðist maður. “Fórnin” steig niður og varð veruleiki á jörð.

Altarið er miðja guðsþjónustunnar. Guðsþjónustan hefur ávalt tvær víddir: Guð varð maður: Hann er bróðir minn á jörð, jafn nærri og jafn áþreifanlegur í efnum kvöldmáltíðarinnar, brauði og víni, eins og samfélagið sem verður til í kirkju hans þegar söfnuðurinn kemur saman. Um leið er hann sá sem býr í ljósi “sem enginn maður leit, né litið getur. Þetta eðli Guðs, -fjarlægð og nálægð- sameinar Jesús Kristur. Eins og samkoman í nafni hans sameinar hvort tveggja , skyldi kirkjuhúsið einnig gjöra það. Altarið er staður þessarar sameiningar.

Það stendur, samkvæmt hefðinni ofar gólfi, venjulega þremur þrepum ofar. Prestur þarf að geta staðið jafnt fyrir innan það sem fyrir framan, vegna þess að þegar hann leiðir bæn safnaðarins snýr hann að altari með söfnuði, og stendur því fyrir framan það, en þegar hann leiðir máltíð Drottins stendur hann fyrir innan, eins og gestgjafi í stað Jesú sjálfs, við enda borðs.

Hlutverk altarisgrindanna er að minna á að ekki hafa allir aðgang að kvöldmáltíðinni (”Hið heilaga hinum heilögu!”, sbr. gríska upphrópunin gamla.) Ef altarisgrindur eru skal þess gætt að fyrir miðju altaris sé opið fram í kirkjuna. Þegar fortjald musterisins rifnaði ofanfrá og niður úr (sbr. Matt.27.51) eignaðist söfnuðurinn allur, þ.e. þau öll sem játa trú á Jesú Krist, aðgang að hinu allra helgasta.

Altarisgrindum má alveg sleppa. Þó skal séð til þess að auðvelt sé að krjúpa. Vel má hugsa sér að kirkjan eigi lausar grindur sem hægt sé að færa til eftir þörfum og nota sem stuðning þeirra sem krjúpa. Hugsa þarf fyrir því að fatlaðir í hjólastól eigi óhindraðan aðgang að Guðs borði.

Rýmið umhverfis altarið þarf að vera gott. “Skápakórarnir” sem víða urðu til við lengingu íslenskra sveitakirkna, eru neyðarúrræði og í fullkomnu ósamræmi við hlutverk altarisins.

Utan Reykjavíkur fara útfarir ætíð fram frá sóknarkirkjunni. Venja er að við útför standi kistan beint framan við altari. Ekki má vera þröngt um kistuna. Hvorki má rýmið frá fótagafli kistu að altari vera of lítið, svo að þröngt verði um prestinn, né sé kórinn of nálægt kistunni eða nánustu aðstandendum, ef staður kórs og orgels er í nánd altarisins.

Enda þótt leyfilegt sé samkvæmt handbók að snúa kistu ekki fyrr en komið er út úr kirkju er fullkomlega ástæðulaust að leggja þenna sið af. Kista er ávalt borin þannig að fótagafl snýr á þá átt sem gengið er og þannig snýr hún við altari. Hinn látni horfir mót austri. Kistunni er snúið þegar gengið er úr kirkju. Þegar kirkja er byggð skal því gera ráð fyrir þessum sið. Rafmagnsknúinn snúningsfótur undir kistu er sjálfsagt þægilegur, en í raun óþarfur, og jafn ónáttúrulegur og lyftubúnaður í gröfinni. Líkmönnum er það vorkunnarlaust að lyfta kistunni og snúa henni sjálfir.

Gera þarf ráð fyrir því að pláss sé fyrir kransa beggja vegna við kistuna, og eins að moldunaráhöld hafi pláss við enda kistu norðanvert (og einnig þótt prestur sé örvhentur!).

“Hver fær stigið upp á fjall Guðs” ?. Altarið og umhverfi þess er “fjall Guðs”. Fjall Guðs er líka Golgatahæðin, þar sem krossarnir standa.

Altarið er fyrst og fremst borð. Það er ekki bókahilla, og alls ekki útstillingarskápur fyrir minningargjafir til kirkjunnar. Á altari mega standa, að öllu jöfnu, tveir kertastjakar og biblía. Þó má vel hugsa sér að altarisljósin standi alls ekki á því heldur á háum súlum við hlið þess. Sömuleiðis þarf ekki að standa á því róðukross, heldur getur hann hangið fyrir ofan það. Eins er með blómin, sem vel eiga heima í guðsþjónustunni, – þau eiga oftast betur heima í gólfvösum við hlið altaris en á því sjálfu. Sé blóm á altari, þá í smáum stíl, (og yfirleitt í stíl!). Altarisgripirnir, kvöldmáltíðaráhöldin, standa ekki á altari nema þau séu í notkun. Góð venja er því að hafa í nálægð altaris( gjarna við suðurvegg, en annars skrúðhússmegin) lítið borð (”kredenzborð”) þar sem efni og áhöld eru látin standa þangað til þau eru borin að altari áður en altarisgangan hefst. Tilheyrandi kvöldmáltíðaráhöldunum er læstur skápur til að varðveita þau. Altarið skal ekki vera sá skápur, þótt nauðsyn lítilla kirkna krefjist þess. Best er að skápur þessi sé í skrúðhúsi, en hugsanlegt er að haganlega megi koma honum fyrir í kórnum, líkt og áður tíðkaðist að fella hann inn í múrinn. Dúkar, þurrkur og klæði sem áhöldunum fylgja þurfa hinsvegar hirslu í skrúðhúsi ásamt altarisklæði og altarisdúk, og má vel sameina hana skrúðaskáp eða geymslu. Þegar svo hagar til kann að vera best að kredenzborðið sé í skrúðhúsinu sjálfu. Þá undirbúa meðhjálpari og prestur kvöldmáltíðina þar og reiða til það sem þarf skömmu fyrir messu. Rétt er að minna á það hér að skrúðhúsið þarf að hafa sér inngang að utan ef það á að rísa undir nafni.

Altarið er staður tilbeiðslunnar. Það er staðurinn sem tilbeiðslan beinist að og oftast er tilbeiðslunni einnig stjórnað þaðan. Vegna þessa hlutverks síns þarf það meira fyrir augað en borðið eitt getur veitt með útliti sínu. Meðan kaþólska kirkjan hefur styttur og myndir sem augað dvelur við, hefur hin lútherska venjulega altarið eitt og umbúnað þess. Þetta gerir miklar kröfur til þess sem velur altarinu útlit og umgjörð.

Um orgel og kór:

Tilhneiging hefur verið til þess á síðari árum að færa orgel og kór fram fyrir söfnuðinn. Hugsunin að baki er sú að brjóta upp það guðsþjónustuatferli sem fyrrum var gagnrýnt og kallað “boltaleikur milli prests og kórs”, þar sem presturinn tónaði og las og kórinn svaraði fyrir hönd safnaðarins og söng líka alla sálmana, á meðan að söfnuðurinn sat óvirkur í miðjunni. (og – ef líkingunni er haldið áfram- festi aldrei hönd á boltanum.)

Reyndar er þessi staðsetning miklu eldri, og var í gildi allt þar til orgel urðu svo stór að ekki var rými fyrir þau í kór, eða fremst í kirkjunni.

Reynslan af því að færa kórinn og orgelið fram fyrir söfnuðinn er nokkuð góð, miðað við að hafa hann falinn uppi á sönglofti. Hinsvegar er hún ekki svo góð að hægt sé að velja hana eina. Í sumum tilfellum er beinlínis búið að þröngva kórnum inn undir altari í pláss sem er of lítið og veldur vanlíðan jafnt kórfélaga og þeirra sem á horfa.

En megingalli þessa fyrirkomulags er sá að þar með er kórinn ekki lengur hluti safnaðarins, heldur með þeim hætti aðgreindur frá honum að hann stendur andspænis honum. Slík uppstilling er röng út frá kirkjulegu sjónarmiði:

Í miðju guðsþjónustunnar er altarið; staðurinn sem táknar nærveru hins lifandi Drottins. Guðsþjónustuatferlið stefnir að altarinu. Hið eina sem stefnir frá altarinu er orð Guðs þegar það er flutt úr helgri bók, eða útlegging þess í predikuninni.

Tilbeiðslan öll er andsvar safnaðarins við því orði sem honum er boðað. Hlutverk kórs er að leiða þá tilbeiðslu. Það er andstætt eðli tilbeiðslunnar að kórinn, sem með söng sínum leiðir sungna tilbeiðslu safnaðarins, snúi á móti söfnuðinum og þar með í þveröfuga átt við þá stefnu sem tilbeiðslan hefur. Með staðsetningu sinni vísar hann frá þeim stað sem tilbeiðslan beinist að, sem er altarið.

Reglan ætti að vera sú að þar sem því verður viðkomið eigi að geta verið lítill kór, eða lítill hópur forsöngvara, við lítið orgel til hliðar við kór og söfnuð, en aðalorgel kirkjunnar verði þar sem meira rými er, eins og t.d. á sönglofti, enda sé þar einnig rými fyrir stærri kór.

Þessi regla kemur til móts við það guðsþjónustuatferli sem við þekkjum best:

1. Orgel og kór eru framarlega niðri í kirkjuskipi.

Venjulega daga er fátt fólk í kirkju; kórinn getur verið fámennur (ekki þurfa alltaf allir að mæta) og leiðir almennan söng. Auðveldast er fyrir organistann að gegna hlutverki sínu sem hinn eiginlegi forsöngvari í kirkjunni ef hann situr við lítið orgel fremst í hópi safnaðarins.

2. Orgel og kór eru á sönglofti.

Á hátíðum er margt fólk. Þá er líka margt í kórnum, enda gjarnan sungin viðameiri söngverk en venjulegir sálmar, söngverk sem kalla á stærri kór og stærra hljóðfæri.
Hið sama gildir um útfarir, sérstaklega þær fjölmennu. (Sé kórnum nauðsyn að vera niðri einnig við útfarir, verður að sjá honum fyrir góðu plássi til þess.)

3. Samspil beggja.

Þegar flutt eru stærri verk tónbókmenntanna með kór og hljómsveit nýtist lítið orgel niðri vel. Þá stendur kórinn fyrir framan áheyrendur.
Þessi uppstilling á aðeins heima á sjálfstæðum tónleikum, eða því helgihaldi sem hefur tónlistina sem aðalatriðið. Við annað helgihald safnaðarins á ekki að skyggja á altarið.

4. Annað um orgel:

Í flestum tilfellum er af fjárhagsástæðum ekki hægt að gera ráð fyrir stóru orgeli í nýrri kirkju fyrr en eftir nokkuð mörg ár. Því er eðlilegt að litlu hljóðfæri sé fyrirhugaður staður í kirkjuskipi, en annar staður sé ætlaður fyrir stærra hljóðfæri síðar.

Staður fyrir stórt orgel er ekki í nánd altaris, vegna þess að það mun alltaf skyggja á altarið og umbúnað þess. Þess eru þó dæmi í kirkjum erlendis að orgel eru á austurvegg yfir altari, stundum á sérstökum svölum yfir altari. Þá er “prospekt” orgelsins um leið altarismynd. (Þetta er hliðstætt fyrirkomulagi Langholtskirkju).

Miklum vandkvæðum er bundið að leysa þau vandamál sem óhjákvæmilega skapast við þessa tilhögun, þar sem bæði verður að finna orgelleikaranum stað og tryggja um leið altarinu þann sess og þá virðingu sem því ber. Mjög erfitt er fyrir söfnuðinn þegar svo virðist, séð úr kirkjuskipi, að organistinn sitji á altarinu. Þetta er þá víða leyst með því að færa altarið nær söfnuði og framar í kirkjuskipi.

Um skírnarsá og predikunarstól:

Venja er að skírnarsár og predikunarstóll séu í kór, eða nálægt altari.

Skírnarsár getur auðvitað verið við inngang eins og áður tíðkaðist, til að undirstrika að þar eru nýir safnaðarmeðlimir teknir inn í kirkjuna, og predikunarstóll getur verið, eins og var, í miðri kirkju. Þetta tvennt er þó óalgengt hér, vegna þess að þessi áhersla skírnarinnar sem nú var nefnd er lítil í okkar kirkju, og að vegna nútíma tæknibúnaðar er engin þörf á því að færa predikunarstólinn nær söfnuði.

Enda þótt rétt sé að hugsa fyrir föstum stað fyrir skírnarsáinn og alveg sérstaklega fyrir predikunarstólinn, getur þó skírnarsárinn verið hreyfanlegur ef húsnæðið krefst þess. Raunar er einungis einn hlutur í kirkju sem verður að vera fastur, en það er altarið.

Ef hinsvegar skírnarsárinn er fastur þarf að hugsa fyrir þægilegu rými umhverfis hann, svo að þar megi með auðveldum hætti koma fyrir skírnarfólkinu öllu, þ.e. foreldrum, guðforeldrum (sem mest geta verið fimm manns), yngri systkinum og prestinum, og snúi sem flestir móti söfnuði. Að sjálfsögðu verður ekki gerð krafa um rými fyrir þennan mannsöfnuð allan með hverju skírnarbarni þegar mörg börn eru skírð í sömu athöfn.

Skírnarskál má vera laus, til þess að auðvelda losun og hreinsun hennar, en sé hún föst má þó ekki vera í henni niðurfall, þótt það sé að sjálfsögðu tæknilega mögulegt. Ástæða þess er sú að skírnarvatni er helst ekki helt í venjulegt frárennsli, heldur látið í vígða jörð, t.d. kirkjugrunn, – eða kirkjublómin vökvuð með því!

Skírnarsár má gjarna vera þannig byggður að í honum, eða á honum, sé sírennandi vatn.

Predikunarstóll er ekki ræðupúlt. Vel má hugsa sér að í kirkju sé ræðupúlt, eða lektari þar sem sá eða sú stendur sem les ritningarlestra guðsþjónustunnar eða tilkynnir eitt og annað. Þar standa og tala einnig þau sem ekki predika, þótt þau flytji ræðu.

Predikunarstóllinn er staðurinn þar sem Orð Guðs er kunngjört og útlagt og má gjarna undirstrika það hlutverk hans.

Umhverfi guðsþjónustunnar.

a) Hér hefur að framan verið tiltekið það af innanstokksmunum sem nauðsynlegir eru hverri kirkju til þess að guðsþjónusta megi fara fram. Raunar vantar ekkert nema sæti.

Í því sambandi er nauðsynlegt að benda á að mjög er þægilegt fyrir allt starf í kirkjunni ef fremstu sæti í kirkjuskipi – í það minnsta – séu laus og færanleg. Slíkt auðveldar t.d. starf með börnum og er nauðsynlegt við tónlistarflutning sem kallar á marga hljóðfæraleikara eða mjög stóran kór, nema hvorttveggja sé.

Sömuleiðis er nauðsynlegt að árétta að ekki þarf aðeins að sjá fyrir aðgengi fyrir fatlaða, heldur einnig rými fyrir hjólastóla í kirkjuskipinu sjálfu. Mjög þægilegt er í því sambandi að hafa auka inngang frá hlið, þar sem komið er beint inn í rýmið milli kórs og fremstu sætaraða. (Þannig má einnig uppfylla kröfur eldvarnaeftirlitsins!).

Annað umhverfi guðsþjónustunnar felst í eftirtöldum þremur þáttum sem kalla eftir sérstöku húsnæði:

1) Aðstæður prestsins : Skrúðhús
2) Aðstæður kórs og organista: Nótnageymsla, kaffistofa, sími, ljósritun, hvíld.
3) Aðstæður safnaðarins: Snyrtingar, fatahengi, inngangur fatlaðra.
b) Sérákvæði vegna breytilegra athafna:

A:. 2. Barna- og fjölskylduguðsþjónusta.

Barnaguðsþjónustur geta farið fram í samskonar rými og hin almenna messa sunnudagsins. Þó er æskilegt að fremsti hluti kirkjuskips a.m.k sé með hreyfanlegum sætum. Hugsa þarf fyrir rými fyrir t.d. loðmyndatöflu, sýningartjald og möguleika á leikrænni tjáningu.

Gera má ráð fyrir að sá háttur breiðist frekar út að barnaguðsþjónustur fari fram samtímis hinni almennu messu. Þá þarf að vera hægt að fara með þau yngri í annan sal hluta af messunni. Best er að geta skipt barnahópnum í tvennt eftir aldri og eiga kost á tveimur vistarverum til þess.

A. 3. Hátíðaguðsþjónusta.

Ekkert aðgreinir hátíðarguðsþjónustuna frá öðrum guðsþjónustum nema fjöldi kirkjugesta. Ekki er fráleitt að hugsa sér að við slík tækifæri megi tengja kirkjusalinn safnaðarsal þar sem komið er fyrir viðbótarsætum.

A. 4. Bænastundir.

Bænastundir í kirkjum eru venjulega frekar fámennar. Gott er ef kirkjubyggingin sjálf kemur til móts við fámennan hóp með einhverjum hætti eins og minnst er á á öðrum stað.

Stundum getur kórinn og eða altarisrýmið yfirleitt nýst fyrir sæti fyrir t.d. 20 manns.

A. 5. Aðrar samkomur.

Aðrar samkomur á vegum kirkjunnar verða að laga sig að aðstæðum. Sé fyrirhugað að halda samkomur með mörgum flytjendum efnis eða tónleika þarf að vera svo um hnútana búið að ekki þurfi að þrengja óeðlilega að altari. Sé þess nokkur kostur, þarf altarið alltaf að vera sýnilegt, sem tákn um nálægð Guðs, hvað svo sem fer fram í kirkjunni. Þetta er undirstrikað með því að hafa lifandi ljós á altarinu í hvert sinn sem þar fer eitthvað fram annað en undirbúningur undir athöfn eða ræstingar. Lifandi ljós minnir best á nærveru hins lifandi Drottins. Ef talið er að ekki hæfi að láta loga ljós á altari við einhverja athöfn í kirkju, á sú athöfn ekki heima í kirkju.

B. 6. Útför .

Eins og fyrr er greint kallar útförin eftir sérstöku rými framan við altarið, (sjá að framan 1.3.2.) auk þess að þá gilda sömu athugasemdir um fjölda kirkjugesta eins og í hátíðarguðsþjónustunni hér að framan.

B. 7. Skírn.

Þegar þess er kostur er mjög til bóta að skírnasá sé þannig fyrir komið í kirkjurýminu að þegar sérstakar skírnarguðsþjónustur eru haldnar, sem oft eru mjög fámennar, komi ekki neinskonar berangurskennd yfir skírnarfólkið. Það er því ávallt betra ef skírnarsárinn stendur ekki á miðju gólfi, heldur til hliðar.

B. 8. Ferming.

Hér kemur aftur að nauðsyn þess að hafa hreyfanleg sæti fremst í kirkju. Með því geta fermingarbörn setið á afmörkuðu svæði sem þeim er ætlað. Ekki er nauðsynlegt að það sé í kór. Fermingin kallar á knéfall við altarið. Mjög er æskilegt að öll fermingarbörnin geti kropið í einu, enda sé fjöldi þeirra innan teljanlegra marka.

Margt fólk sækir fermingar og því gildir þar hið sama og um hátíðir.

B. 9. Hjónavígsla.

Fyrir hjónavígslu þarf kirkjan að eiga brúðarstóla 2- 4 . Einnig knéfall, annað hvort fast eða sérstakt fyrir hjón.

B. 10. Aðrar helgiathafnir. (Geymt til síðari tíma!)

B. 11. Samkomur til undirbúnings öðrum samkomum:
Æfingar þátttakenda í athöfnum.Kóræfingar.Aðrar hljómlistaræfingar.
Um allt þetta gildir að það verður að laga sig að aðstæðum. Mjög erfitt er að gera sérstakar ráðstafanir vegna þessa.

C.1 Útfarir í kyrrþey.

Ekki hægt að gera kröfu um sérstakt húsnæði, eða sérstakar kringumstæður.

C .2. Skriftir.

Fara fram að hluta í eða að öllu leyti í skrúðhúsi. Þar þarf að vera lítið altari og knéfall.

C. 3. Endurnýjun hjúskaparheits.

Kalla ekki á sérstakt húsnæði.

C. 4. Aðrar athafnir bundnar sálgæslunni.

Sama og í C 3.

Niðurlag:

Á árum áður var stundum gripið til þess ráðs þegar vænta mátti mikils munar á fjölda kirkjugesta að gera ráð fyrir því að sitja mætti í rúmgóðu anddyri þegar flestir kæmu til kirkju. Þetta var fyrst reynt á Íslandi á Háloglandshæð í Reykjavík, þegar þar var fyrst byggt safnaðarheimili en síðar kirkja. (Langholtskirkja). Þau mál öll heyrðu þá undir hreina framúrstefnu, eins og margt það sem þeim stað tengdist. Vissulega var líka yfir því nokkur “sjarmi” að sitja í troðfullu anddyri á páskamorgni, en við aðrar athafnir eins og útfarir var það bara kalt og hart og drungalegt.

Anddyri er sem kunnugt er staður þar sem fólk er einungis þegar það er að koma eða fara. Það er staður gegnumstreymis en ekki viðveru. Það er á mörkum “þess sem er fyrir utan” og “þess sem er fyrir innan”.

Guðsþjónusta safnaðarins “gerist” í heiminum miðjum. Í henni á allt það sem gerist og ekki er gert í heiminum samastað og þess er minnst í fyrirbæninni og þakkargjörðinni. Samt útilokar guðsþjónustan heiminn, með því að hún snýr baki við því sem sundrar og sundurdreifir og snýr sér til Guðs sem sameinar og græðir. Guðsþjónustan gerist í heiminum, en samt er hún ekki af þessum heimi. Anddyrið, þröskuldurinn milli forkirkju og kirkjuskips er táknrænn fyrir þessi skil á milli veraldarinnar fyrir innan og utan. Guðsþjónustan er staðurinn þar sem söfnuðurinn uppbyggist til þjónustunnar úti á meðal hinna þurfandi. Sú þjónusta er kölluð sönn og rétt guðsdýrkun / guðsþjónusta.

Hvorug þjónustan , helgiþjónustan fyrir augliti Guðs í húsi hans, eða safnaðarþjónustan úti á meðal fólks þar sem “náungi minn” bíður, getur verið án hinnar.

Anddyri kirkju er ekki staður til að sitja og uppbyggjast í þjónustunni til þjónustunnar, – anddyri er staðurinn þar sem þær mætast, og á þeim stað, á mótum hinnar helgu þjónustu í kirkjunni og þjónustunnar við náungann þar fyrir utan, þar er staður meðhjálpara og kirkjuvarðar.

url: http://kvi.annall.is/2002-11-10/23.04.57/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli