kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Meðhjálparanámskeið Reykjavíkurprófastdæma 2002 · Heim · Kirkjan -hús og söfnuður. »

Kirkjan, listin og trúin

Kristján Valur @ 22.32 10/11/02

Hér fara á eftir nokkrar hugleiðingar um samspil kirkju, listar og trúar. Þær eru settar fram að þessu sinni fyrir nemendur í Embættisgjörð á haustmisseri 2002. Sem yfirskrift þessara hugleiðinga set ég tilvitnun í 1.kafla Jóhannesarguðspjalls:

“Jóhannes svaraði og sagði:

“Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni. Þér getið sjálfir vitnað um að ég sagði.”Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum”. Sá er brúðguminn sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa, en ég að minnka“. (Jh.3.27-30)

I. Samspil listar og trúar.

Samspil listarinnar og kirkjunnar er auðvitað ekkert annað en samvinna milli karla og kvenna sem eru annarsvegar listafólk og hinsvegar kirkjufólk sem fer fyrir í málum kirkjunnar og / eða einstaklingar sem tengja í persónu sinni hvorttveggja. Og þar sem um manneskjur er að ræða getur auðvitað vel verið að listafólkið vilji alls ekki láta kirkjufólkið setja á sig einhvern kirkjustimpil, eða láta lesa inn í verk sín einhverja trú sem það hefur ekki. Sömuleiðis getur kirkjufólkið eðlilega haft allt aðra skoðun á verkum listafólks en það sjálft.

Það er ekki meiningin að fjalla hér um þessi tilteknu vandamál. Þessa er aðeins getið til þess að benda á vandann og viðurkenna tilvist hans án þess að glíma við hann.

Samspil listarinnar og kirkjunnar, eða sambúð listar og kirkju hefur sem kunnugt er verið með ýmsu móti á öllum tímum,. Sú saga verður ekki rakin hér né heldur mun hér reynt að finna út hvernig sé háttað sambúð þeirra nú.

Þó er nauðsynlegt að draga upp í svipleiftri fáeina drætti heildarmyndarinnar og minnast þessa samspils, allt frá hinum fyrstu táknmyndum kristninnar til þessa dags, – eins og líka banns Gamla Testamentisins í hinu upphaflega öðru boðorði (Ex.20.4) við að gjöra myndir, og afleiðingum þess banns allt til þessa.

Það er ekkert talað um myndverk í N.T. og enginn veit hvað það var sem Jesús skrifaði í sandinn, en strax á fyrstu árum kristninnar urðu til einföld myndverk sem öll áttu það sameiginlegt að þau sögðu eitthvað fleira en nákvæmlega það sem útlit og form gaf til kynna. Sú gerð kirkjumyndlistar varð og ríkjandi, aðeins greindi menn á um skilninginn á tákninu, þ.e. að hversu miklu leyti táknið geymir þann veruleika sem það gefur í skyn eða tjáir beinlínis.

Með því að einfalda söguna um samspil listar og kirkju óleyfilega mikið, er hægt að slá því fram að allt fram á síðustu öld hafi það listafólk sem skapaði kirkjulist litið á sig í þjónustu þess erindis sem kirkjan átti að flytja í heiminum. Á síðustu öld og einkum á þessari, hljóðnaði þetta samspil, eða varð falskt.

Með því að einfalda aftur óleyfilega mikið má halda því fram að það sem olli hafi verið langtímaþróun í þá veru að í stað þess að þjóna boðskap kirkjunnar beint, hafi listafólk, að mati kirkjuleiðtoga, átt að þjóna þeim, þ.e. leiðtogunum og túlkun þeirra á boðskapnum og mati þeirra á því sem út kom úr huga og hönd listamanna. Í þesskonar fjötrum deyr listin og öll skapandi hugsun.

Um þetta efni skal vísað til listasögunnar.

Hið eiginlega viðfangsefni þessa erindis er sú samvinna listar og trúar sem fæðir af sér kirkjulist, frá guðfræðilegum sjónarhóli. Hann kann að vera of lágur einn sér, eins og síðar verður bent á, þegar um samvinnu er að ræða.

II. Hlutverk listarinnar í trúarlegu samhengi.

Kirkjan hefur um langan aldur falið listamönnum verkefni og jafnvel á stundum framfleytt ýmsum þeirra um lengri og skemmri tíma. Það byggir ekki á tilviljun eða duttlungum einstakra kirkjuleiðtoga. Það liggur í eðli þeirrar kirkju sem stendur traustum fótum á grundvelli heilagrar ritningar.

Upphaf þessarar kirkju er það sem við heyrum, í það minnsta á hverjum jólum og Biblían og játningarnar og sálmar sálmabókanna orða með sama hætti: Orðið varð hold. Guð varð maður. Guð steig inn í hinn mannlega veruleika. Kraftur Guðs varð sýnilegur. Orðið, hið skapandi, lífgefandi orð Guðs, varð sýnilegt, lifandi og þekkjanlegt í Jesú Kristi. Í honum varð orð Guðs maður eins og við.

Þessi atburður sem við syngjum um á jólunum er einstakur og þarfnast ekki endurtekningar. En vegna hans vill boðskapur Biblíunnar um Guð og mann, um kærleika Guðs og fyrirgefningu, fá að taka á sig mynd til þess að við eigum auðveldara með að meðtaka þann boðskap. Hann vill verða lifandi veruleiki á jörð, lifandi veruleiki í lífi mannanna. Þessvegna þrýstir hann á um að taka á sig form og mynd. Það má orða það svo að boðskapurinn vilji taka á sig hold eins og Guðs sonur.

Listin, getur verið einn farvegur hans til þess með hliðstæðum hætti og maður sem gjörir vilja Guðs.

Sá sem heyrir og tileinkar sér orð Jesú Krists um kærleiksþjónustuna við náungann leggur af stað til að líkna þeim sem liggur við veginn. Þegar hann bindur um sárin þá eru hendur hans holdtekning orða Jesú og lifandi eftirfylgd við hann.

Bent hefur verið á í fræðiritum að ef kirkjan hætti að styðja listafólk til starfa og hætti að nota túlkunaraðferðir listarinnar, yrði hún að treysta á það eitt að koma boðskap sínum til skila eftir leiðum hins orðbundna skilnings eingöngu. Tilraunir í þá veru voru og merkjanlegar meðal ýmissa þeirra sem fylltu hóp siðbótarmanna 16.aldar, en ber að aðgreina frá öðrum vegna þess að fjöldi þeirra var einkum myndbrjótar og listaverkaþjófar.

Með því að nota einungis leiðir orðsins eru ekki aðeins vanrækt mjög stór svið þess hins manneskjulega í lífi og boðskap kristinnar kirkju, heldur eru með því stíflaðir þeir farvegir sem gefa manneskjunni færi á að nálgast boðskapinn eftir tilfinningum sínum við hlið hins vitræna.

Með ýmsu móti raskaðist hin eðlilega víxlverkun listar og guðfræði sem kirkjan hafði kynslóð eftir kynslóð byggt á boðskap sínum og túlkun. Listamenn voru yfirleitt ekki og eru sjaldnast guðfræðingar og fæstir guðfræðingar eru listamenn, en innbyrðis tengsl hafa ávallt sýnt sig að hafa áhrif til góðs í báðar áttir.

Gagnvart guðfræðinni er listin tjáningarform safnaðarins – tjáning “leikmanna” á trúarlegum sannindum og á vissan hátt ný holdtekja: Kristur verður raunverulegur. Kristur stígur svo fullkomlega inn í mannlega veröld að hann þjáist. Kristur þjáist. Ég sé það með augum mínum.

Með ótalmörgum öðrum dæmum má sýna fram á það hvernig listamenn miðla söfnuðinum þeim boðskap sem í raun er ósegjanlegur, eins og þetta.: Orðið varð hold.

Þegar víxlverkun listar og guðfræði raskast er oftast gengið út frá of þröngum mannskilningi. Við – skynsömustu skepnur jarðar að sögn, erum jú ekki bara skynsemdarverur heldur tilfinningaverur sem oftar en ekki látum tilfinningarnar ráða fremur en skynsemina. Enda hjálpa tilfinningarnar skynseminni oft og einatt. Með sama hætti hjálpar listin kirkjunni til að kunngjöra það erindi sem henni er fengið: Guð varð maður. Jesús Kristur steig fullkomlega inn í mannlega tilveru. Þjáning hans var þjáning eins og mín og því er sigur hans einnig minn.

Enn getur hlutverk listarinnar verið hið sama: að færa hinn guðdómlega veruleik í mannlegan búning, gera hann betur skiljanlegan mönnum og færa hann nær manninum í neyð hans. Myndin af Kristi sem þjáist á krossinum hjálpar honum meir en myndin af hinum sigrandi Kristi, sem stendur þráðbeinn og skartklæddur á krossinum og virðist ekki þekkja neyðina. Sú mynd er hinsvegar nauðsynleg á öðrum stað í því ferli sem trúin á Guð er.

III. Hvað er kirkjulist?

Það er engin algild og altæk skilgreining til á hugtakinu kirkjulist.

Kirkjulist er ekki í rauninni heldur það samheiti yfir tengsl allra gerða listarinnar við kirkjuna, eins og það er notað hér. Kirkjulist er hugtak nær eingöngu notað um þá list sem gjörir mynd, sem notið er með augunum. Sé höfðað til heyrnarinnar köllum við það kirkjutónlist. Leiklist á þar engan fastan sess og kirkju-dansinn ekki heldur; því fáum virðist detta annað í hug en dansinn í Hruna þegar minnst er á dans í kirkjunni. Kirkjubyggingalistin er falin bak við hugtakið arkitektúr.

Einfaldast er að halda því fram að sú list sem á vettvang sinn á samkomustað kristinna manna, eða í samkomunum sjálfum sem nauðsynlegur hluti þeirra sé kirkjulist.

Dæmi um hið fyrrnefnda höfða einkum til augans, eins og altarisstöflur og steindir gluggar, en hið síðara, samkomuhaldið sjálft er vettvangur hverskonar listar. Þar er sungið og þar er leikið á hljóðfæri,- þar er skrúði; messuklæði og altarisklæði og þar eru áhöld eins og skírnarfontur, kaleikur og patína.

IV. Vettvangur kirkjulistarinnar.

Kirkjan, þ.e. söfnuðurinn ,verður sýnileg á samkomum sínum. Annars er hún ósýnileg. Þú skynjar nærveru hennar einnig í tómri kirkju, – þú heyrir fótatak genginna kynslóða og hinna komandi. Listin túlkar þessa nærveru og færir þér hana og er hluti af henni.

Þegar þú gengur inn í húsnæði kristinnar kirkju þá er það fyrst og fremst listin sem segir þér hvar þú ert.

En kirkjan er víðar en á samkomum sínum og samkomustað. Kirkjan er einnig með öðrum hætti sýnileg. Að vísu stödd á jörðu, en þó ósýnileg, af því að hún er ekki af þessum heimi. Á hinum óskilgreinda stað á listin einnig heima. Hún er samofin trúnni og trúarlegu atferli frá upphafi. Faðir hennar er Guð. Enginn málar önnur eins listaverk og hann gjörir á himinn og jörð, – enginn semur aðra eins hljómkviðu og hann lætur náttúruna flytja – og enginn annar en hann lýtur niður að manninum og gefur honum af sköpunarsnilli sinni, – sumum ríkulegar en öðrum.

Hin fyrsta mynd á jörðu er maðurinn sjálfur. “Guð skapaði manninn í sinni mynd, hann skapaði hann í Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. (1.Móse 1.27).

Þess vegna heyra listin og trúin saman. Þess vegna er okkar kirkjulist kristin list. Þess vegna er kristin list ekki aðeins list til að nota í og við helgihald kirkjunnar heldur er hún einnig sú list sem sprottin er upp í þeim jarðvegi sem mótaður er af tilvist kirkjunnar á jörðu. Þess vegna er kirkjulistin á Íslandi hluti þjóðmenningarinnar og nær langt út fyrir kirkjuna a sjálfa – ef mæri hennar eru talin þar sem hið eiginlega starf hennar endar.

Þess vegna fæðist kirkjulistin einnig í huga og hjarta þeirra sem telja sig engan styrk hafa af kirkjunni, jafnvel hafna henni og lýsa yfir vantrú sinni. Þess vegna er að finna trúarleg viðfangsefni og áreiti hvert sem litið er og í hvaða listformi sem er.

Í svo stuttu máli sem þessu verður að sleppa því að fjalla um þennan hinn víðari skilning á eðli kirkjulistarinnar. Það bíður síns tíma vonandi. Einmitt þar er vettvangur sem kirkjan verður að sinna, bæði til þess að sjá sjálfa sig með augum annarra og til að skilja betur þau sem hún á erindi við.

Listaverk kirkjunnar eru jú ekki öll fædd innan hennar veggja. Kirkjan sótti fyrr á öldum myndverk og mótív úr listaheiminum utan kirkju, flutti þau inn í kirkjuna og þar með varð til kirkjulist. Um þetta eru mýmörg dæmi sem ekki þarf að rekja.

Hinn eiginlegi og eðlilegi vettvangur kirkjulistarinnar er tilbeiðslan, og að hluta einnig fræðslan. Þó er fræðslan aldrei nákvæm. Enginn getur útskýrt Guð. Mynd Jesú gefur engar upplýsingar um útlit hans, enda beinist lotning okkar ekki að henni. En myndin minnir á nærveru hans og það er nálægð hins lifandi Drottins sem við tilbiðjum. Þannig þjónar myndin tilbeiðslunni með því að beina huga og hjarta til hans, en ekki að sjálfri sér.

Staður hinnar sameiginlegu tilbeiðslu er guðsþjónustan. Ég hefi sagt á öðrum stað:
Guðsþjónustan er staður þar sem þér líður vel, nema þegar þér verður heilsusamlega órótt vegna þess sem Guð segir þér.

Við gætum haldið því fram að óróleiki af annars völdum en Guðs, þjónaði honum ekki, heldur væri ef til vill tilkominn vegna þess að listaverkið væri í eðli sínu sjálfhverft, upptekið af sjálfu sér, ,,l´art pour l´art”, og slíkur óróleiki væri til marks um það hvort listaverkið væri kirkjulist eða ekki. En það er ekki hægt. Einmitt slíka mannlega tilburði óróleikans notar Guð á óteljandi vegu.

Guð skapar manninn í sinni mynd og setur hann til starfa á jörðinni til að gæta sköpunarinnar og vernda hana og til að gæta að bræðrum sínum og systrum. Þannig undirstrikar Guð að allt sem hann gerir hefur tilgang, vegna mannanna, tilgang sem beinist að öðrum mönnum. Án þess að rekja langa guðfræði er hægt að segja að allur sá tilgangur felist í því að elska.

Tengsl þessa við litsina í kirkjunni myndi þá vera þau að að listaverk sem væri sjálfhverft, það er að segja listaverk sem væri aðeins til sín vegna og upptekið af sjálfur sér ætti ekki heima í kirkjunni. Ég tek það fram að mér er ekki kunnugt um að slík listaverk séu í rauninni til – ég set þetta svona upp til þess að nálgast það sem ég tel vera lykil að leyndardóminum um listina í kirkjunni og er fólgin í upphafsorðum þessa erindis: ,,Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni”, segir Jóhannes.

Maðurinn í mynd Guðs, hefur þegið allt frá honum, – lífið sjálft og alla sína hæfileika og þann fremstan að geta svarað þegar Guð ávarpar hann.

Ég hefi á öðrum stað reynt að skilgreina eðli sálmsins og aðgreiningu hans frá öðrum ljóðum með setningunni ,,Sálmur er svar manns við ávarpi Guðs”. Hið sama gildir auðvitað með breyttum hætti hvernig svo sem ort er og einnig þegar ort er í efni.

V . Grundvöllur kirkjulistarinnar.

Hin eina aðgreining sem hugsanleg er innan kirkjulistarinnar felst því ekki í listinni sjálfri, í formi hennar og aðferð heldur í eðli trúarinnar. Kirkjulist verður til þegar Guð snertir listamann. Hún fæðist á mótum listamanns og skapara hans og þjónar þess vegna kirkjunni og höfundi hennar.

Guð safnar kirkjunni saman til þess að senda hana út til þjónustunnar við náungann.

Þar er fólgin spenna milli orða Jesú Krists: ,,Komið til mín allir þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðnir” og ,,Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum”. Ávöxtur þessarar spennu felst síðan í orðum hans: ,,Hvað sem þér gjörið einum þessara minna minnstu bræðra, það gjörið þér mér”.

Einmitt af þessari spennu fæðast enn óteljandi listaverk, vegna þess að í henni felst snerting Guðs og manns, og þar felst einnig reynsla trúarinnar lík því er Samúel vaknaði með andfælum því að Guð kallaði á hann. Niðurstaðan er sú sama: ,,Tala þú Herra, þjónn þinn heyrir.”

Kirkjulistin er því ávöxtur af samtali Guðs og manns, í höndum, fyrir augum og fyrir eyrum þriðja aðila.
Vegna eðlis og hlutverks kristindómsins: Farið og segið frá, farið og kunngjörið dýrð Drottins er kirkjulistin einnig svar við þeim orðum.
Fyrirmælin eru ekki: Kunngjörið neyð heimsins,- nema til að leiða til Guðs, – ekki staðnæmast í neyðinni miðri nema til að líta upp til hans.
Kristin trú skilur manninn aldrei eftir einan í neyð sinni. Kirkjulistin gerir það í rauninni ekki heldur, þótt einstök verk hennar kunni að geyma örvæntinguna eina sem aðalstef.

Boðskapur kristninnar er manneskjulegur í því að hann er ætlaður mönnum og á að vera þeim skiljanlegur. Hann viðurkennir manninn eins og hann er og bendir á neyð hans; ekki til þess að auka vanlíðan hans og örvæntingu heldur til að sýna fram á þörf hans fyrir fyrirgefningu og leiða hann til Guðs.

Kirkjulistin stefnir manninum til Guðs, – jafnvel með því að sýna honum neyðina svo átakanlega að hann hljóti að horfa fram hjá, og geti alls ekki horft á óskapnað þjáningarinnar.

Guð varð maður. Orðið varð hold. Vegna okkar mannanna steig Guð inn í þennan jarðneska heim og engin neyð er dýpri en sú sem hann sá og enginn sigur stærri en sá sem hann vann. Þess vegna skilur trúin heldur engan mann eftir yfirgefinn fyrir framan krossinn heldur beinir sjónum upp að birtu upprisunnar. Það er kjarninn í hrópi Krists á krossinum: ,,Elí , elí, lama sabaktani”- ,,Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig”, – að enginn er síðan þá í trúnni skilinn eftir yfirgefinn af Guði. Það felst í þeim sigri sem hann vann á krossinum og í upprisunni.

Grundvöll kirkjulistarinnar er ekki heldur að finna annarsstaðar. Kirkjan þarfnast hennar, kristnin þarfnast hennar, vegna þess að hún þarf að koma erindi til skila sem orðin ein ná ekki yfir. Því að kirkjulistin er tungutak þess sem Guð hefur lotið niður að og snert í sköpunarmætti sínum svo að hann og hún megi segja frá ósegjanlegum veruleika Guðs.

VI. Horft til framtíðar.

Ef við horfum yfir samvinnu kirkju og listar og byrjum á þeim enda sem við stöndum á, sjáum við að sú breyting er á orðin í kirkjunni hér á Íslandi að með aukum fjárráðum hefur vaxið vilji og geta til að fegra kirkjur enn meir en áður var með listaverkum. Einkum hafa þetta verið glerlistaverk.

Hinsvegar virðist enn ekki ljóst hver hinn eiginlegi vettvangur listarinnar í kirkjunni er. Reyndar er hinn ytri vettvangur einnig vanræktur, því að kirkjubyggingalistarinnar, sem þó er með vissum hætti grundvöllur kirkjulistarinnar, er eins og fyrr var nefnt, sjaldnast getið nema undir hugtakinu ,,arkitektúr” sem dylur listina í byggingarlistinni fyrir almenningi, og getur dregið úr ábyrgð og viðurkenningu arkitekta sem kirkju-listamanna.

Frá sjónahóli hagnýtrar guðfræði verður vettvangur kirkjulistarinnar ekki skilinn frá lífi hins kristna manns. Hann tilheyrir í fyrsta lagi einstaklingum og persónulegu trúarlífi þeirra og tilbeiðslu og hann tilheyrir í öðru lagi samkomum safnaðarins og staðnum þar sem söfnuðurinn kemur saman til helgihalds, þ.e. kirkjuhúsinu.

Vettvangur listarinnar enginn afmarkaður staður í því húsi. Vettvangurinn er í raun einungis afmarkaður með grunnfleti þess húss eins og allt annað sem þar er byggt ofan á.

Guð er Guð reglunnar. Hann gjörir sköpun úr óskapnaði og kemur reglu á óregluna. Samkomur í nafni hans og umbúnaður þeirra er með reglulegum hætti og á reglulegum tímum. Þess vegna er hægt að setja upp óskalista um listaverk fyrir kirkjuhús. En öðru máli gegnir um trúarlíf einstaklings sem vettvang listarinnar, þótt tilbeiðsla einstaklings sé einnig bundin reglu.
Það listaverk sem á trúarlíf einstaklings sem vettvang og heimkynni, eignast gildi sitt á mótum þess sem það gjörði og þess sem það þiggur. Það er samtal tveggja hjartna um elsku Guðs og kannski var annað hjarta Guðs og listaverkið steinn á sjávarströnd.

Húsnæði kirkjunnar, kirkjuhúsin sjálf og í auknum mæli safnaðarheimili býður sig fram sem vettvangur hverskonar kirkjulistar.Við höfum fyrir augunum hina hefðbundnu möguleika en við þurfum að leita nýrra. Hlutverk einstakra listmuna tengist fyrst og fremst tilbeiðslunni og þjónar kirkjuhúsinu sem stað hins heilaga, og það þjónar kirkjugestum einnig með því að höfða til hins sama og þannig þjónar það nálægð hins lifandi Guðs.

Þar hugsum við til þess sem felst að baki samheitanna: skrúði, áhöld og búnaður kirkju. En þar er líka að finna þau myndverk sem minna þau sem hafa sjón á það hvar þau eru stödd þegar þau koma til kirkju. Slík áminning er nauðsynleg strax í forkirkjunni og þó enn frekar í því húsnæði safnaðarins sem ætlað er til almennra nota.

Altaristöflur eru áætar þar sem þær eru, en þær eru fastar og næstum óumbreytanlegar myndir, af því þær eru yfir fastasta og óumbreytanlegasta stað kirkjuhússins, altarinu.

En myndverk geta verið á fleiri stöðum og ekki alltaf þau sömu.

Kirkjan þarf á öllum tímum og alveg sérstaklega nú að vera staður kyrrðar og friðar, staður sem er opinn og hægt að leita til hvenær sem er. Og þótt við sem erum sjáandi og heyrandi kysum að þar mæti okkur eitthvað sem höfðar bæði til sjónar og heyrnar þurfum við líka að finna þögninni stað. Í síbylju orða og tóna verða okkur þau listaverk sem þegja svo dýrmæt:

“Drottinn Jesús Kristur, kenndu mér að leita þagnarinnar og þegja sjálf-ur svo að ég heyri hvað þú segir mér og læri að þekkja vilja þinn”

Orðið fæðist í þögninni. Hið skapandi orð Guðs er hreyfing. Við höfum vanrækt hreyfinguna í þögninni: Dans.

Hinn trúarlegi dans, er annarskonar dans. Hann þarf ekkert hljóðfall sem ertir eyrum og kemur út í fótunum. Hann er tjáning sem kemur innan frá. Taktur hans er hjartsláttur trúarinnar. Hann er fæddur af sama krafti og þeim sem fer af stað í blómlegg og lætur knúppinn springa út. Einmitt í dansinum og í leikrænni tjáningu yfirleitt eru geymdar dýrmætar perlur í fjársjóði kirkjunnar. Hvernig væri að draga þær fram?

Guðsþjónustan, tilbeiðslan er vettvangur kirkjulistar, sem við höfum vannýtt. Meðfram hinni hefðbundnu guðsþjónustu þurfum við að gefa kost á nýjum möguleikum svo að ný listaverk fái að fæðast til að gleðja augu og eyru og þjóna Guði í söfnuði hans.

Hvert er þá inntak þessa langa máls?

Það er aðeins eitt inntak allrar umræðu um listina, kirkjuna og trúna. Jóhannes skírari lagði okkur það til og einhver listamaður fyrri alda túlkaði það á sína vísu í kirkju einni í útlöndum.

Þar er skírnarfonturinn frammi við dyr og yfir honum er heldur lítil óásjáleg tréskurðarmynd af Jóhannesi skírara sem bendir á risastórt Kristslíkneski yfir altarinu.

Því að: “Hann á að vaxa, en ég að minnka”.

url: http://kvi.annall.is/2002-11-10/22.32.13/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Irma Sjöfn @ 13/11/2002 11.44

Þetta er svo gott efni og gjöfult. Langar bara að benda á projektið sem á þessa heimasíðu. Kannski þekkir þú þetta nú þegar en bara til gamans http://www.theolarts.org/

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli