kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Stefna í kirkjutónlistarmálum · Heim · Kirkjan, listin og trúin »

Meðhjálparanámskeið Reykjavíkurprófastdæma 2002

Kristján Valur @ 22.36 8/11/02

Þessa dagana (8.og 9. nóv.) er haldið námskeið fyrir meðhjálpara og kirkjuverði í Reykjavíkurprófastdæmunum í Bústaðakirkju. Enn á ný kemur sér vel að eiga aðgang á annálnum fyrir efni til kennslu.

Mér finnst stundum að sem meðhjálparasonur eigi ég öllum meðhjálpurum skuld að gjalda. Ég man að vísu aldrei eftir því að pabbi minn eyddi orðum að því hvað fælist í þjónustu hans í kirkjunni. En ég fylgdist með honum. Og það sem ég sá og skynjaði kenndi mér meira um hið helga rými og hina heilögu þjónustu en margar bækur.

Mér þykir vænt um að fá að kenna á þessum námskeiðum og er stoltur af því að hafa sjálfur gegnt embætti meðhjálpara um hartnær fjögurra ára skeið í Skálholti.

Það er nokkuð snúið þegar maður hefur verið sóknarprestur um nokkuð langa hríð, og hefur í raun aldrei ætlað sér að vera eitthvað annað en það, að finna sjálfum sér nýjan farveg helgiþjónustunnar þegar kallað er eftir nýrri þjónustu í kirkjunni. Þessvegna er ég mjög þakklátur sr. Guðmundi Óla Ólafssyni, dómkirkjupresti í Skálholti fyrir að fela mér þjónustu meðhjálpara síns og safnaðarins, helft þess tíma sem ég var rektor Skálholtsskóla.

Ég fann einhverntíma í bókum mínum reglur um meðhjálparaþjónustuna sem þýski biskupinn Wurm setti saman einhverntíma á öldinni sem leið. Ég hef notað þær á námskeiðum sem þessu til leiðbeiningar fyrir meðhjálparana.

Verkefni og verksvið meðhjálpara og kirkjuvarða skarast margvíslega. Mjög er mismunandi hvernig störf þeirra eru skilgreind í söfnuðunum. Þessvegna er heitið meðhjálpari notað sem ríkjandi hugtak. Innan þess rúmast hin margvíslega þjónusta sem þau veita sem eru til aðstoðar í kirkjunni og tryggja það að söfnuðurinn geti komið saman ótruflaður til helgihalds og finni helgidóminn skrýddan og prýddan hvern helgan dag og hvert sinn sem klukkan kallar.

Reglur fyrir meðhjálpara

Tileinkunarorð:

Ég var glaður er menn sögðu við mig: Göngum í hús Drottins”.

Kæri meðhjálpari:

1. Meðhjálparaembættið er heilög þjónusta. Meðhjálpari sem annast embætti sitt réttilega getur sagt í hjarta sínu: ,,Drottinn ég elska bústað húss þíns, og staðinn þar sem dýrð þín býr“. (Sálm. 26.8).

2. Sinntu embætti þínu af hjarta eins og þú værir að þjóna Drottni. Þjónaðu honum í samviskusemi og trúmennsku í öllum skyldum þínum. Hugleiddu að þú ert meðhjálpari bæði prests og safnaðar og þar með Jesú Krists.

3. Kirkjan þín er helgidómur Guðs sem nálægð hans fyllir dýrð. Hún á að vera virðuleg og aðlaðandi fyrir alla. Hún er staðurinn þar sem Guð á stefnumót við söfnuð sinn. Helgasti staður hennar er altari Guðs og borð Drottins.

4. Láttu það vera umfram allt þína heilögu skyldu að hús Guðs sé að innan skreytt og prýtt og ekki óhreint og rykugt. Okkur þykir gott að búa á heimili þar sem er regla og hreinlæti. Hvernig gæti Guðs dýrð búið þar sem vanrækslan og afskiptaleysið sitja í heiðurssæti?

5. Sinntu störfum þínum með gleði, en ekki með nauðung. Horfðu til Guðs og lofaðu hann með störfum þínum.

6. Drottinn sem launar tryggum þjónum vakir yfir þér,

- þegar þú undirbýrð hús hans til guðsþjónustu í lotningu,
- þegar þú undirbýrð altari, predikunastól og skírnarsá af kærleika til Guðs Orðs, og leyndardóma hans í sakramentum skírnar og kvöldmáltíðar.
- þegar þú gleðst yfir ljóðum Guðs er þú festir upp sálmanúmerin,
- þegar þú biður í hjarta þínu um leið og þú hringir klukkunum að Guð blessi kall þeirra til safnaðarins og boðið til guðsþjónustu.

7. Vertu söfnuðinum til fyrirmyndar í hegðun og atferli í Guðs húsi. Vertu í öllu sem þú gjörir viljugur þjónn til hjálpar þeim sem til kirkju koma, og þar með þjónn Guðs. Vingjarnlegt tillit þitt og sýnileg starfsgleði sé stöðugt vitni um að þú þjónar Drottni ,,sem er góður, og miskunn hans varir að eilífu”.

8. Minnstu þess að hlutverk meðhjálparans er heilagt embætti og heilög er þjónusta hans, því að það er þjónusta að hinu heilaga. Helgust er þjónustan við hin heilögu sakramenti; við heilaga skírn að sækja vatnið og ganga frá skírnarsánum á eftir, og við heilaga kvöldmáltíð, – að tilreiða efni og áhöld og ganga frá ásamt prestinum, eða í umboði hans.

9. Kirkjuklukkan er raust Guðs engils sem kallar söfnuð hans saman til helgra tíða. Hún er einnig rödd sorgar og rödd virðingar og þakklætis þegar útför er gerð, og hún syngur gleðiljóð þegar brúðhjón bera framtíð sína og hjúskap fram fyrir Guð.
Hringjarinn er þjónn Guðs og kallari hans.

url: http://kvi.annall.is/2002-11-08/22.36.27/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Kristján Valur @ 9/11/2002 15.49

Fyrir þau sem vilja vita meira þá er höfundur að reglum þessum Theophil Wurm (1868-1953) guðfræðikennari og síðar biskup evangelisku kirkjunnar í Wurtemberg, frá 1933. Hann var sá sem hafði orð fyrir þeim sem börðust gegn tilraunum nasistastjórnarinnar til að hafa áhrif á stjórn kirkjunnar. (KIrchenkampf). Ráðsformaður EKD 1945-1949.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli