kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Um kirkjutónlistina · Heim · Stefna í kirkjutónlistarmálum »

Um kirkjutónlistina. Síðari hluti

Kristján Valur @ 17.42 30/10/02

Með hinum fyrri hluta stefnumörkunar um kirkjutónlist fylgja leiðbeinandi reglur.

Leiðbeinandi reglur

1. Guðsþjónusta safnaðarins getur verið sönglaus með öllu, en það form sem best er í samræmi við sögu hennar og siði, er þegar hún er haldin hátíðleg með söng þar sem bæði hinir vígðu þjónar sem og söfnuðurinn allur er virkur þátttakandi.

2. Kirkjan á mikinn fjársjóð þar sem kirkjutónlistin er. Með því að leggja áherslu á að varðveita og nýta þá fjársjóði með iðkun og með þjálfun, má auðga og fegra helgihald kirkjunnnar.

3. Það er þessvegna sem ekki er aðeins sungið í almennum söng heldur að starfandi eru söngkórar við allflestar kirkjur landsins. Þar er um að ræða hefðbundna kirkjukóra, sem eiga rætur sínar í uppbyggingu kirkjukóranna snemma á 20. öldinni, en einnig barna- og unglingakóra við kirkjur sem komu til sögu eftir miðja öldina og einkum undir lok hennar. Stuðningur við söngkórana í starfi þeirra hvarvetna, en ekki síst við stærri kirkjurnar, og þá jafnt barna- og unglingakóra, sem kóra fullorðinna byggir á þörfum helgihaldsins. Nauðsynlegt er að prestarnir og þau sem gegna ábyrgðarstöðum í kirkjunni gæti að því að tryggt sé að í hverri sunginni messu og á hverri samkomu safnaðanna sé söfnuðurinn fær um þá þátttöku sem af honum er vænst og að í þeim tilgangi sé til staðar forsöngvari og/eða organisti sem leiði svar safnaðarins í hinni sungnu lofgjörð og bænagjörð.

4. Til þess að halda uppi kirkjutónlistarstefnu þarf ekki aðeins að leggja rækt við tónlistarþáttinn í menntun þeirra sem honum stýra, eins og organista og kórstjóra, heldur einnig presta og djákna og annarra þeirra sem koma að tónlistariðkun í kirkjunni. Í þeim tilgangi þarf sérstaklega vanda menntun og undirbúning kennara við þær stofnanir sem mennta starfsfólk kirkjunnar og gera miklar kröfur um hæfni þeirra og færni.

5. Kirkjan getur þó ekki vænst þess að aðrar menntastofnanir en þær sem hún ber sjálf ábyrgð á, fullnægi kröfum hennar um menntun síns fólks.

6. Til þess að veita þessa menntun á og rekur Þjóðkirkjan þá stofnun sem ber heitið Tónskóli Þjóðkirkjunnar. Tilvist hans er tryggð með starfsreglum um söngmál og tónlistarfræðslu á vegum þjóðkirkjunnar nr. 2000825/ – en þar segir í 3.gr: Til að sinna verkefnum samkvæmt 1. og 2. gr. skal starfrækja sérstaka stofnun á vegum þjóðkirkjunnar er nefnist Tónskóli þjóðkirkjunnar, sem heyrir undir kirkjuráð. [1]

7. Stefna þarf að því að sú menntun sem Tónskólinn veitir, megi í samvinnu við Listaháskólann og Guðfræðideild Háskóla Íslands verða sambærileg við þá menntun sem veitt er við kirkjutónlistarstofnanir á háskólastigi hjá nágrannakirkjunum.

8. Allt kirkjutónlistarfólk, hvort sem það leikur á hljóðfæri eða syngur, eitt eða í kór, þarf að fá liturgiska þjálfun og menntun sem hæfir hlutverki þeirra. Sérstaklega þarf að leggja rækt við menntun og undirbúning organista og presta til þess að þeir geti sinnt leiðtogahlutverki sínu við messusönginn eins og sómi er að.

9. Vinna þarf útfrá víðum skilningi á kirkjutónlistinni og aðkomu tónlistarfólks að henni. Þótt orgelið sé hið hefðbundna hljóðfæri kirkjutónlistarinnar, og menntun organista fyrir kirkjuna sé fyrsta skylda hennar, er kirkjutónlistin og söngur safnaðarins miklu víðara svið en það sem takmarkast af orgelleik og leiðsögn organista.

Nánar um messusönginn.

Um gregorssöng.

10. Þjóðkirkjan, eins og systurkirkjur hennar á Vesturlöndum yfirleitt, lítur svo á að grundvöllur kirkjusöngsins sé tónsöngurinn sem kallaður er gregorssöngur. Þessi söngur er stundum kallaður Grallarasöngur hér hjá okkur, vegna þess að hann sem var arfur kynslóðanna frá kristnitöku, var einn sunginn í þá tvær og hálfa öld sem Grallarinn frá 1594 var aðal messusöngsbók á Íslandi. Þegar þessi söngur hefur hið fyrsta sæti í sunginni liturgiu, eða helgihaldi safnaðarins hér á Íslandi, er það alveg í samhljóðan við hefð systurkirknanna á Norðurlöndum, í Evrópu og Ameríku.

11. Við varðveislu og rækt hins gregorska söngs sé þess gætt að nýta þarf og iðka stærri hluta hins fjölbreytta arfs en hinn allra einfaldasta. Vel má gera það án þess að grípa þurfi til flókinnar útfærslu sem kallar á æfða söngvara. Messusönginn, þ.e. tónsönginn sjálfan, ætti að miða við hinn venjulega söfnuð sem ekki á aðgang að sérstökum faghópum kirkjusöngsins.

Um kórsöng.

12. Aðrar tegundir kirkjusöngs, sérstaklega fjölradda kórsöngur er mjög æskilegur enda er hlutverk hans ekki að hindra hina almennu þátttöku safnaðarins heldur að hvetja til meiri söngs. [2] Góður kór eykur með list sinni á fegurð og fjölbreytni kirkjusöngsins.

13. Það má telja sér- íslenska venju að við guðsþjónustu safnaðarins geti fjórradda kirkjukór verið allt að- og jafnvel meira en- helmingur þeirra sem sækja messu sunnudagsins. Æskilegt er að taka tillit til þessa í stefnumörkun um kirkjusönginn og í kirkjustarfinu í heild. Virkir þáttakendur í söngkórum kirknanna eru vel á þriðja þúsund á öllu landinu. Þetta er ekki lítil hluti hinnar starfandi kirkju, og sannarlega í mörgun tilvikum einmitt sá hópur sem er leiðandi í starfi viðkomandi safnaðar. Kirkjutónlistarstefna þjóðkirkjunnar þarf að fela í sér aukna fræðslu kirkjukóranna um hlutverk þeirra og ábyrgð í víðara samhengi en söngurinn einn gefur til kynna.

Um annan tónsöng og kórsöng.

14. Auk hins gregorska söngs syngur kirkjan á Íslandi fleiri tónlög. Tónlagið kennt við Sigfús Einarsson, sem frá hans hendi er útsett fyrir kór, hentar ágætlega þar sem kórinn er verulegur hluti safnaðarins og safnaðarsvörin eru sungin fjórradda, en hentar miður þegar messa er sungin einradda.

15. Hátíðasöngvar sr. Bjarna Þorsteinssonar eru í huga margra ómissandi þáttur helgihalds á hátíðum. Svo mun verða áfram víða. Þeir eru, ekki aðeins vegna höfundarins heldur vegna uppbyggingar sinnar og útfærslu, íslenskur söngur og vissulega barn síns tíma. Þeir henta þó enn ágætlega íslenskum aðstæðum á hátíðum þegar margt fólk sækir kirkju sem annars er þar ekki og janfvel ókirkjuvant. Hátíðasöngvarnir verða ekki sungnir í safnaðarsöng einradda svo vel sé. Þegar þeir eru sungir þarf að sjá til þess að stutt sé sérstaklega við almenna þátttöku safnaðarins í sálmasöngnum.

Um almennan söng.

16. Til þess að söfnuðurinn eigi þess kost að geta tekið undir söngva við guðsþjónustur og annað samkomuhald sitt og gert það að föstum lið í trúariðkun sinni þarf að leggja sérstaka rækt við hinn almenna söng í kirkjunni. Sérstaklega ber nauðsyn til að styðja almennan söng við athafnir kirkjunnar: útfarir, hjónavígslur, skírnir og fermingar.

17. Gæta má að því í auknum mæli að kristnin í heiminum á heimkynni sitt í ólíkum menningarheimum. Þetta kemur skýrt fram í mismunandi sönghefð og tónlistarhefð kirknanna. Ekki er sjálfgefið að áherslur framandi menningarheima eigi fyrirvaralaust aðgang að helgihaldinu hvar sem er. Þrátt fyrir það þarf að opna helgihald safnaðanna hér á Íslandi fyrir nýrri sýn á kirkjuna um allan heim og gefa söfnuðunum hlutdeild í fjölbreytileika sönghefðarinnar. Gæta þarf jafnframt að því að leggja rækt við eigin hefðir og brúa bilið milli þjóðlegra hefða og kirkjulegra. Það ætti því einnig að vera stefna þjóðkirkjunnar að styðja ávallt eftir mætti nýsköpun í kirkjusöng, bæði texta og tóns.

Um hljóðfæri helgihaldsins.

18. Hið hefðbundna hljóðfæri helgihaldsins er orgelið. Þótt saga þess við íslenskar aðstæður sé skemri en víða annarsstaðar, þá nýtur það mikillar virðingar umfram önnur hljóðfæri. Hljómur orgelsins eykur með sérstökum hætti við fegurð kirkjuathafnanna og prýðir umgjörð þeirra. Það er ekki ofmælt þó sagt sé að orgelið lyfti hjörtum safnaðarins í mætti til Guðs á hæðum.

19. Önnur hljóðfæri eru þó einnig boðin velkomin til að þjóna að helgihaldi safnaðanna í öðrum tilfellum, eftir því sem þau teljast hæf til hinnar helgu þjónustu og hinu heilaga húsi og ef þau þjóna til uppbyggingar í söfnuðinum. Eðilegt er að undirstrika einnig að mannsröddin sjálf er fegursta hljóðfæri tilbeiðslunnar.

Um kirkjutónlistarfólk.

20. Kirkjan gerir ráð fyrir því að kirkjutónlistarfólk sé sér þess meðvitað að það er köllun þess að rækja og iðka kirkjutónlistina og auka ríkdóm hennar og virðingu. Þess er vænst að þau sem starfa undir merkjum hennar leiti eftir endurnýjun í kirkjutónlistinni sem beri á sér merki hennar bæði í textum og í uppruna. Þar er ekki aðeins þörf á því sem hentar stórum og framúrskarandi kórum heldur einnig litlum kórum og almennum söng og þess sem þjónar almennri þátttöku alls safnaðarins.

Um texta við tónlist kirkjunnar.

21. Textar við tónlist kirkjunnar þurfa að vera í samhljóðan við kenningu kirkjunnar. Grundvöllur þeirra er boðskapur Heilagrar ritningar eins og hann er tjáður í nafni Jesú Krists. Þeir byggja á liturgiskum uppsprettum sem þjónað hafa kynslóðunum til þess að mega horfa fram til hins verðandi, bæði á jörðu og á himni.

Um samspil tónlistar og atferlis safnaðarins.

22. Sérstaka rækt skal leggja við hina sungnu þátttöku safnaðarins þegar hún fer saman við hreyfingu í kirkjurýminu. Þar er byggt á elstu samfelldu hefð kirkjusöngsins. Annarsvegar er þar átt við inngönguna til helgihaldsins í upphafi guðsþjónustunnar, og hinsvegar við gönguna til Guðs borðs.

23. Kirkjutónlistarfólk er hvatt til þess að hefja að nýju til vegs hinn forna introitus, eða inngöngusálm safnaðarins, til þess að undirstrika með honum, að eins og skrúðfylkingin gengur inn til altarisins og til fundar við Guð í upphafi messunnar þannig kemur hinn heilagi til móts við söfnuð sinn. Inngangan er táknuð annarsvegar í inngöngu þeirra sem þjóna að messunni, en hinsvegar í því þegar söfnuðurinn rís úr sætum, beinir sjónum sínum að altari Guðs og tekur undir inngöngusönginn.

24. Með sálmum og söngvum gengur söfnuðurinn inn til hins heilaga við máltíð Drottins. Gangan til Guðs borðs og almennur söngur safnaðarins við þá göngu var frá upphafi einkennandi í kirkjunni og mætti þessvegna kalla hann eitt kennimark kirkjunnar eða nota ecclesia. Hvetja þarf til þess að allur söfnuðurinn eigi kost á að syngja þekkta söngva um leið og hann gengur innar. Hljóðfæraleikur eða kórsöngur fyrir þau sem innar ganga eða sitja í sætum sínum meðan altarisganga fer fram, þjónar síður þessari megináherslu tilbeiðslunnar en hin almenna þátttaka.

25. Kirkjan gengur inn til fundar við Drottin sem kemur á móti henni og mætir henni í orði sínu og við borð sitt, til þess að láta senda sig út til þjónustu við náungann. Það er frumskylda kirkjutónlistarinnar að þjóna þessu erindi hennar fyrst og fremst.

Um tónlist kirkjunnar

26. Í fornum texta er tónlistinni lýst með þessum orðum: Musica praeludium vitae aeterna.

Forsendur þessa texta eru óbreyttar: Tónlistin er forspil eilífðarinnar.

-0-0-0-0-0-0-0-0-0-0-0-0-0-0-0-0-0-

[1] Starfsreglur þessar eru til endurskoðunar á Kirkjuþingi 2002. Hliðstætt ákvæði er breytingartillögunum 4.gr.

[2] Því er stundum haldið fram að kórsöngur í þjóðkirkjunni hafi kveðið í kútinn hinn almenna safnaðarsöng sem áður hafi ráðið ríkjum. Satt er að þegar kórsöngurinn var orðinn ráðandi var hann mjög letjandi til almenns söngs, en forsenda stofnunar sönghópa við kirkjur var upphaflega að styðja við almennan söng en ekki til aðleggja hann niður. Þetta kemur vel fram í grein sr. Bjarna Þorsteinssonar frá árinu 1908 og birtist í Nýju Kirkjublaði (bls. 172-178), undir heitinu: ,,Um kirkjusönginn hjá oss og hin helztu ráð til að bæta hann.” sr. Bjarni skrifar: ,,Menn syngja alltof fáir hjá oss, og með alltof litlum áhuga;þeir fáu sem syngja, syngja frekar af því að þeir þurfa að gjöra það eða verða að gjöra það. Og þegar presturinn segir Drottinn sé með yður, þá er það venjulega einn, tveir eða þrír sem svara: Og með þínum anda, í stað þess að allur söfnuðurinn ætti að gjöra það. Söfnuðurinn á ekki að koma til kirkju með þeirri hugsun, að hann eigi að sitja og hlýða á, en forsöngvarinn og presturinn eigi að syngja og tala. … Það sem mest að öllu ríður á í þessu máli er það, að söfnuðurnir sjálfir finni til þess að hér þarf endurbóta við … Söngfélag þyrfti að stofna í hverjum söfnuði og æfa sálmalögin, fyrst aðeins einrödduð, meðan litlir söngkraftar eru og menn eru óvanir að syngja; síðar má fara feti lengra

url: http://kvi.annall.is/2002-10-30/17.42.52/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli