kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Grundvallarreglur um kirkjutónlist · Heim · Um kirkjutónlistina. Síðari hluti »

Um kirkjutónlistina

Kristján Valur @ 16.02 30/10/02

Að baki þeirra texta um grundvöll kirkjutónlistarinnar og um hlutverk kirkjukóranna sem birst hafa hér á annálnum liggur grundvallartexti um kirkjutónlistina.

Tillagan að kirkjutónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar er unnin í samráði við stjórn Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hún er hin fyrsta sinnar tegundar í Þjóðkirkjunni og hefur því engar eiginlegar fyrirmyndir. En að sjálfsögðu hefur verið til efni og samþykktir kirkjunnar frá liðinni tíð sem mynda uppistöðu stefnunnar. Annað efni til stefnunnar var sótt í ýmsar áttir til nágrannakirkna og systurkirkna og einnig til rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Vandaðasta efnið sem völ er á er einmitt stefna þeirra sem samþykkt var á Vatican II þinginu.

Kirkjutónlistarstefnan er langur lestur og þessvegna birtist hún hér á annálnum í nokkrum hlutum.

Grundvöllur kirkjutónlistarinnar

1. Kristin kirkja um allan heim býr að ríkulegum og ómetanlegum tónlistararfi kynslóðanna. Þjóðkirkjan á Íslandi á aðild að þessari arfleifð. Hún nýtur hennar, varðveitir hana og iðkar hana hvarvetna þar sem söfnuður kemur saman til samkomuhalds í nafni Jesú Krists.

2. Kirkjan kallar eftir samstarfi við listina til þess að vera færari um að tjá hið ósegjanlega. Tónlist kirkjunnar hefur ákveðna sérstöðu meðal annarra lista og listforma og listrænnar tjáningar í kirkjunni yfirleitt, vegna þess að hún tengist í meira mæli en aðrar listgreinar, hinni sungnu helgiþjónustu safnaðarins, sem tekur á sig nýjar myndir frá sunnudegi til sunnudags og frá einni stund til annarrar.

3. Í Heilagri ritningu og hjá hinum vísu kirkjufeðrum er rætt um guðsþjónustusönginn og borið lof á hann. Í Ef. 5.18b –19. segir svo:

,,Fyllist heldur andanum og ávarpið hver annan (hvert annað) með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottni í hjörtum yðar”.

Í Kol.3.16 er ritað:

,,Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hver annan (hvert annað) með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar.”

4. Bæði eldri og yngri guðfræðingar og kirkjuleiðtogar hafa undirstrikað hið þjónandi hlutverk kirkjutónlistarinnar í guðsþjónustunni. Þar má vísa til orða Marteins Luthers á mörgum stöðum í ritum hans, þegar hann lofar ,,Frú Músíka” og setur hana næst guðfræðinni og predikuninni. Til dæmis segir hann í borðræðum sínum:

,,Tónlistin er besta gjöf Guðs. Hún hefur oft hreyft þannig við mér og gefið mér kraft, að mig hefur langað að predika. Heilagur Águstín var hinsvegar svo samviskusamur að hann gerði gleðina yfir að syngja að synd[1]

Í skissu undir heitinu Peri tes mousikes frá árinu 1530[2] skrifar Luther um tónlistina og segir þar m.a. (í lauslegri þýðingu)

,,Primum locum do Musicae post Theologiam. (Ég set tónlistina í fyrsta sæti á eftir guðfræðinni). Á friðartímum er það hún sem ræður. Hún er gjöf Guðs en ekki manna. Hún gleður sálirnar. Hún hrekur burt fjandann. Hún vekur saklausa gleði, en hrekur burt reiðiköst, girndir og hroka. … Ég lofa sérstaklega furstana í Bayern því að þeir iðka tónlist. En hjá okkur í Sachsen eru vopn og valslöngvarar látin predika.”

5. Vísa má einnig til orða Guðbrands Hólabiskups í formála Sálmabókarinnar 1589 og til formála Odds biskups Einarssonar Skálholtsbiskups að Grallaranum 1594. Guðbrandur segir:

,,… Sú góða Músíka, þegar hún er réttilega framin þá er hún ein sérleg Guðs gáfa, til margra hluta góð og nytsamleg. Því að í fyrstu hefur Guð gefið hana þar til uppá það að hans orð megi lærast þess fljótara og iðkast þess betur og varðveitast. Því að svo er náttúran sköpuð að hún hefur lysting til að syngja og verður þar með mjög hrærð og uppvakin. Því næst verður fyrir sönginn Guð almáttugur lofaður og prísaður þegar menn syngja andlegar vísur og sálma. Þá verða ogsvo mennirnir Guðs englum samlíkir hvörjir eð daglega syngjandi lofa og prísa Guð almáttugan. Hér að auk uppvekur söngurinn með sínu fegurðarhljóði mannsins hjarta til sérlegrar hræringar við Guð, burt drífur djöflana og laðar að oss Guðs góða engla, burt rekur hryggð, sorg og hjartans angist og gjörir erfiði mannsins létt, sem hvör og einn skal þjóna og vitna í sínu kalli og embætti.” [3]

6. Í formála Grallarans 1594 segir Oddur biskup:

,, Fjórða. Að menn hafi ekki meir við sönginn en hóflegt er og sýni þar í ei sína fordild með margslungnum hljóðum, klinkunótum og annarri hljóðanna umbreytni, af hverju það kemur að hinir aðrir sem hjá standa og til hlýða geta orðin ekki skilið þó gjarna vildu vegna þess hreims sem verður af slíkum hljóðum og missöng. Nóturnar og tónarnir eiga að þéna orðunum en orðin eru ekki gjörð fyrir tónana. Því er það vel sagt af þeim gömlu:

Non Vox, sed Votum,
Non Cordula Musica,
Sed Vox, Non Clamans,
sed Amans,
Cantat in Aure Dei.

Það er nær þessarar meiningar:
Sönglist alls kann enginn,
óhjartgróinn skarta,
Eða gjörast Guði,
Geðþekkt lof á meðan,
Ástlaus ert þó Christó,
unnir hljóðs af munni,
Lát hug beint óbágan,
brjállaust fylgja máli. [4]

7. Í fornum textum er kirkjutónlistin talin þeim mun helgari sem hún er nær leyndardómum trúarinnar. Það er þegar hún er tengd samtali Guðs og biðjandans í hinni liturgisku þjónustu. Hún umlykur þá og styður hið heilaga atferli og siði og gefur þeim sérstakan hátíðleika.

8. Samspil trúar og listar, kirkju og listar hefur verið með ýmsum hætti alla tíð. Þegar samspilið hefur verið best, hefur kirkjan leyft og stutt hin ólíku form listarinnar og aðeins gert þá kröfu að :

eins og tilbeiðslan beinist alltaf til Guðs, á listin í kirkjunni með sínum hætti ávallt að þjóna hinu heilaga og leita stefnumóts við það í helgiþjónustunni.

Eftirfarandi leiðbeinandi reglur eru settar fram með tilliti til hinnar sögulegu arfleifðar kirkjunnar. Þær taka mið af því sem á öllum tímum hefur verið stefnumark kirkjutónlistarinnar :

Dýrð og vegsemd Guðs og helgun hinna trúuðu.

[1] Borðræðurnar. Nr.4441. Hér vísar Luther í það þegar Ágústínus lýsir því að það hafi hent hann að verða svo glaður þegar hann söng að hann óttaðist að gleðin væri bara yfir söngnum sjálfum en ekki yfir hinu sungna orði, og þá er segir hann: ,,ég játa það refsiverða synd af minni hálfu og ég vil þá helst ekki heyra nokkurn söng”. (Játningar Ágústínusar). Hér, segir Luther, var nú Ágústínus óþarflega samviskusamur. Þjóðkirkjan fylgir Luther að málum fremur en Ágústínusi!.

[2] WA 30 II,696.

[3] Formáli að Hólabókinni 1589. Stafsetning færð til nútímans.

[4] Grallarinn 1594. Formáli. Stafsetning færð til nútímans.

url: http://kvi.annall.is/2002-10-30/16.02.59/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli