kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Hlutverk kirkjukóranna · Heim · Um kirkjutónlistina »

Grundvallarreglur um kirkjutónlist

Kristján Valur @ 21.36 29/10/02

Svo sem fyrr er minnst á bæði á þessum síðum annálsins eins og í kennslu sálmafræðinnar (Liturgisk fræði I. Hymnologia) hef ég sett fram tillögu til umræðu að grundvallarreglum um kirkjutónlist fyrir Þjóðkirkjuna. Tillaga þessi hljóðar sem hér segir:

Kirkjutónlist í Þjóðkirkjunni.

Grundvallarreglur.

Það er stefna Þjóðkirkjunnar:

 1. - að helgihald safnaðanna sé stutt og prýtt með söng og tónlist kirkjunnar
 2. - að á samkomum safnaðanna sé almenn þátttaka safnaðarins í söng við helgiathafnir ríkjandi og einkennandi.
 3. - að hinn almenni söngur safnaðarins sé leiddur af þjálfuðum og sérmenntuðum forsöngvurum safnaðarins.
 4. - að orgel eða harmonium sé hljóðfæri kirkjutónlistarinnar og að forsöngvarar safnaðarins hafi stuðning af því við guðsþjónustusönginn.
 5. - að söngur kirkjunnar geti tekið á sig listrænt form með þátttöku kirkjukóra, bæði barnakóra og kóra fullorðinna.
 6. - að hverskyns kórastarf og orgelleikur þjóni hinni almennu þátttöku safnaðarins en komi ekki í stað hennar.
 7. -að enginn fái leiðandi hlutverk í tónlistariðkun hennar, né sé öðrum ætlað að leiða hina sungnu lofgjörð hennar en þeim sem hefur kirkjutónlistarmenntun sem hún hefur viðurkennt.
 8. - að organistar og forsöngvarar sem ráðnir eru til starfa í söfnuðum hennar hafi auk tónlistarmenntunar þekkingu á grundvelli Þjóðkirkjunnar og boðskap hennar og séu fús til að starfa á þeim grunni.
 9. - að helgihald safnaðanna á hverjum stað sé með þeim hætti sem fellur að kringumstæðum þeirra og að hvorki skortur á organista né kórsöng megi hindra eðlilegt guðsþjónustulíf.
 10. - að vægi og umfang tónlistarstarfs safnaðanna taki mið af stærð og fjárhagsumsvifum þeirra og fari aldrei yfir tiltekinn prósenthluta af tekjum safnaðarins. (Dæmi til umræðu: 30%). Kirkjuþing samþykki viðmiðunarreglur þar um.

Afleiðingar af þessum grundvallarreglum eru sem hér segir:

 1. Þjóðkirkjan sér til þess að fyrir hendi sé möguleiki á þeirri menntun kirkjutónlistarfólks sem hún ætlast til að það hafi til þess að fá starf hjá henni.
 2. Þjóðkirkjan starfræki Tónskóla Þjóðkirkjunnar, samkvæmt starfsreglum þar um, þar sem boðið er upp á fullnægjandi kirkjutónlistarmenntun fyrir alla organista við venjulegar aðstæður í Þjóðkirkjunni. Skólastjóri Tónskólans stýri því starfi í umboði Biskups og Kirkjuráðs og í samstarfi við stjórn skólans.
 3. Þjóðkirkjan ráði söngmálastjóra til þess að framfylgja stefnu Þjóðkirkjunnar í kirkjutónlistarmálum, til þess að vera ráðgefandi um kirkjutónlistarmál við biskupsembættið, til þess að hafa umsjón með tónlistarstarfi safnaðanna og veita því leiðsögn þegar eftir henni er kallað og til að tengja yfirstjórn kirkjunnar og menntun kirkjutónlistarfólks. Stjórn Tónskólans sé jafnframt fagráð að baki embættis söngmálastjóra.
 4. Verkefnisstjórn helgisiða og kirkjutónlistar á Biskupsstofu sé sameinuð embætti söngmálastjóra.
 5. Söngmálastjóri hafi aðstöðu á Biskupsstofu og heyri stjórnunarlega beint undir biskup og kirkjuráð.
 6. Samhliða embætti söngmálastjóra og undir stjórn hans starfi ( í mismunandi stóru hlutastarfi) í sérverkefnum, einstaklingar sem bera ábyrgð á
  1. þjálfun og starfi hinna hefðbundnu kirkjukóra og leiðsögn kórstjóra,
  2. þjálfun og starfi barnakóra við kirkjur og leiðsögn kórstjóra,
  3. símenntun organista,
  4. útgáfu tónlistarefnis,
  5. endurskoðun og viðhaldi sálmabókar kirkjunnar.
  6. Í samvinnu við söngmálstjóra og með þátttöku hans starfi orgelnefnd Þjóðkirkjunnar sem er ráðgefandi um orgelkaup og endurgerð eða stækkun orgela.

Söngmálastjóri í sínu nýja embætti hafi með höndum umsjón með tónlistarhlið færniþáttarins í undirbúningi verðandi presta í samfylgd kirkjunnar, sem og söng og taltækni þeirra og presta í endurmenntun.

url: http://kvi.annall.is/2002-10-29/21.36.22/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli