kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Sálmar og sálmafræði · Heim · Grundvallarreglur um kirkjutónlist »

Hlutverk kirkjukóranna

Kristján Valur @ 21.18 29/10/02

Í væntanlegri kirkjutónlistarstefnu Þjóðkirkjunnar hlýtur að verða kafli um kirkjukórana. Ég hef gert tillögu um að hann verði eitthvað á þá leið sem hér fylgir:

Hlutverk kirkjukóranna og söngsins almennt í helgihaldi Þjóðkirkjunnar

 1. Kirkjan syngur. Ekki er hægt að hugsa sér samkomuhald, líf og starf kirkjunnar án söngs. Það tilheyrir eðli hennar.
 2. Við, söfnuðurinn, komum til kirkju og syngjum. Með vissum hætti er það kóræfing fyrir himnaríki. Allavega eru hugmyndirnar um dvölina þar, eins og henni er lýst t.d. í Opinberunarbókinni, fullar af söng. (Sjá t.d.Opb.5.9.) Við syngjum messu. – Söfnuðurinn, syngur messu.
 3. Hlutverk söngs og tónlistar kirkjunnar er að þjóna erindi hennar við heiminn, að segja frá elsku Guðs, sköpun Guðs og syni Guðs og frá verki heilags Anda. Í söng og með söng er hið ósegjanlega tjáð, hinum kristnu til uppfræðslu, eftirbreytni, huggunar og gleði, og hinum öllum til vitnisburðar um trúna.
 4. Marteinn Lúther sem mest mótaði þá kirkjudeild sem Þjóðkirkjan telst til, þreyttist ekki á að lofa frú Musica í heiðurssæti við hlið guðfræðinnar. Að hans mati stendur söngurinn í kirkjunni predikuninni næst.
 5. Söngur kirkjunnar er vaxinn af einum meiði. Það er söngur trúarinnar tekinn í arf úr helgihaldi gyðinganna og borinn fram af Jesú sjálfum og kirkju hans frá fyrstu tímum. Enn gætir þessa baksviðs í messusöngnum – í tóni prests og safnaðar.
 6. Lengi framan af var hinn slétti söngur, cantus planus, einkenni kirkjusöngsins, eins og annars söngs. Um nokkurt skeið töldu kirkjuyfirvöld að sá söngur væri hinn eini rétti en frá þeirri stefnu var horfið fyrir mörgum öldum. Í honum fólst grunnur fjölröddunarinnar. Heimildir sýna að íslendingar voru gjarnir á að tripla og tvísyngja í kirkjunni löngu áður en það var talið tilhlýðilegt.
 7. Söngur kirkjunnar hefur alla tíð verið talinn endurómur hins himneska. Eins og Guð steig niður til jarðar, ,,varð hold á jörð og býr með oss”, eins og segir í jólasálmi Valdemars Briem, ómar veruleiki himnanna í jarðneskum söngröddum með sama hætti í kirkjunni, hvort sem er í hátimbruðum musterum eða í aumkunnarverðum moldarkofum.
 8. Það sem einkennir allt helgihald kirkjunnar er samtal – er orð og andsvar. Eitt af megineinkennum andsvars messunnar er að það er tónað, – þ.e. flutt fram með tóni eða með tónum – orð með tóni og tónar án orða.
 9. Að vegsama, að ákalla, að lofa og að biðja Guð í tónum og með tónum í söfnuðinum, það er tónlist safnaðarins, og þar með grunnur kirkjutónlistarinnar.
 10. Nú er það kunnugt að þegar margir svara í einu, er besta leiðin til þess að allir svari samtímis, að svarið sé sungið. Það er ein forsenda tónlistarinnar í messunni, en ekki hin eina: Söfnuðurinn tekur á móti óverðskuldaðri náð Guðs. Hann þakkar þá gjöf í sameiginlegri bæn og tilbeiðslu.
 11. Hið sameiginlega svar safnaðarins við ávarpi Guðs tekur á sig listrænt form – til dæmis fjölraddað – til þess að tjá enn betur og vera enn frekar samboðið mikilvægi svarsins og dýpt tilbeiðslunnar. Þetta er meginforsenda þess að til eru kirkjukórar.
 12. Hugtakið kórsöngur á Íslandi byggir á þeirri hefð að söngurinn í kirkjunni væri leiddur af nokkrum söngvurum sem áttu sæti sitt innst í kór kirkjunnar og sem næst altari hennar. Hinn elsti kórsöngur var því einradda. Hann var þó ef marka má lýsingar hvorki homofon né homogen, og jafnvel stundum meira í ætt við kappsöng milli þeirra er sátu í kór og þeirra sem sátu í kirkjuskipi.
 13. Kórsöngur í kirkjunni á Íslandi í merkingunni fjölradda söngur var því sem næst óþekktur fyrr en við lok 19.aldar. Ekki er að sjá að þriggja radda kirkjusöngsbók Pjeturs Gudjohnsens sem út kom skömmu eftir miðja öldina (1878) hafi haft mikla útbreiðslu framan af, en hún er fyrsti vísir til breytinga. Áherslan á kórsöng hélst í hendur við komu harmoníumhljóðfæra í kirkjurnar. Tími forsöngvaranna og hins einraddaða söngs af Grallaranum var þá liðinn.
 14. Endurskoðun helgisiða kirkjunnar á Íslandi sem fór af stað á síðasta tug 19. aldar og birtist fyrst í tillögu til nýrrar helgisiðabókar 1897 sló á alveg nýja strengi hátíðasöngs kirkjunnar, að frumkvæði sr. Valdimars Briem. Ávöxtur þess birtist í Hátíðasöng sr. Bjarna Þorsteinssonar.
 15. Uppbygging og starfsemi kirkjukóranna í starfi Þjóðkirkjunnar er um það bil aldargömul. Með vissum hætti má fella saman í eitt starfsemi þeirra og söng hátíðasöngva sr. Bjarna. Til þess að einfalda hlutina verulega, mætti því segja að í öllu falli jafnlengi og við syngjum Hátíðasöngvana, þurfum við æfðan kirkjukór.
 16. Hlutverk kirkjukóranna hefur hinsvegar breyst verulega síðan þá, eins og líka allt umhverfi kirkjutónlistarinnar. Hlutverk og staða kóra er mjög með misjöfnum hætti eftir því hvar heimili þeirra er. Reyndar gildir það einnig um heimilisfesti í einstökum söfnuðum í Reykjavík.
 17. Kórstarf á landsbyggðinni hefur í miklum mun meira mæli en á Reykjavíkursvæðinu, skírskotun til hinnar almennu menningarstarfsemi á svæðinu. Með nokkrum sann má halda því fram að starf kirkjukórs í tilteknum héruðum landsins sé afgerandi þáttur í menningarlífi héraðsins og hafi miklu víðtækara hlutverk en aðeins að syngja sálma eða kirkjutónverk við helgiathafnir kirkjunnar. Það má meira að segja halda því fram að stuðningur við kirkjukórinn geti verið áhrifaríkari byggðastefna í raun, en ýmislegt annað ónafngreint.
 18. Eiginlegir kirkjukórar á Reykjavíkursvæðinu í þeirri mynd sem Sigurður Birkis, frumkvöðull að uppbyggingu kirkjukórastarfsins, sá fyrir sér, eru ekki lengur við allar kirkjur, heldur eru í tilteknum tilfellum aðrir kórar með víðtækara starfssvið komnir til sögunnar.
 19. Hvað verður? Á hvaða leið er starf kirkjukóranna og kirkjukórasöngurinn yfirleitt? Þörfin fyrir kórsöng í kirkjunni er enn til staðar og verður áfram nema einhver ný stefna í þeim málum komi fram og njóti stuðnings, rétt eins og önnur þörf fyrir að fegra og bæta helgihald kirkjunnar og umhverfi þess.
 20. Meginstefna kirkjusöngsmála í þjóðkirkjunni virðist vera þessi : – að gera söfnuðinn að lifandi þátttakendum í söng messunnar ( en ekki endilega við aðrar helgiathafnir) og -að gera stuðning fagfólks við helgihaldið eins vel úr garði og mögulegt er. Hvernig virkar það ?
 21. Söngmál þéttbýlisins, ekki síst á Reykjavíkursvæðinu virðast vera í nokkuð góðu lagi. Miklum fjármunum er varið til söngstarfsemi kirkjunnar. Í mörgum tilfellum eru söngmál og kirkjutónlistarmál stærsti pósturinn í starfsemi safnaðar og ekki hægt að segja annað en að þar séu söngmál í góðu lagi. a.m.k hvað varðar tæknilega útfærslu hans.
 22. Fjöldi fastráðinna organista hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum tveim áratugum. Menntun organista er meiri en áður var, en ekki er sjálfgefið að samhengi sé á milli menntunar og reynslu og launa.
 23. Hlutverk kirkjukóranna sem leiðandi afls í söngmálum safnaða hefur þó breyst verulega í stærstu prófastdæmunum, vegna þess að það hafa orðið skil á milli hefðbundinna kirkjukóra og annarra kóra við kirkjur, eða sjálfstætt starfandi kóra sem þjóna við athafnir, sérstaklega við útfarir. Þar má líka greina á milli áhugamannakóra og launaðra kóra.
 24. Víða á landsbyggðinni er þessu hinsvegar þannig farið, að söngmál safnaða eru í tölverðum ólestri. Það er ekki síst vegna þess að : -það vantar fleira hæft fólk til að starfa að söngmálum í kirkjunni, – það vantar áhuga á að starfa í kirkjukórum svo að endurnýja megi í raddir, -það vantar betra skipulag á sumarþjónustuna m.a. vegna þess að víða eru tengsl á milli organistaþjónustu í kirkjunni og tónlistarfræðslu í skólum , söngmálin eru víða svo þungur baggi á sjóðum kirknanna að ekki er hægt að halda uppi æskilegri þjónustu af fjárhagsástæðum. Við þetta bætist veruleg fækkun fólks í mörgum kirkjusóknum.
 25. Kirkjan syngur. Hún syngur með sínu nefi ef hún á ekki á öðru völ, en ef hún getur ,á hún sinn kór. Það er stolt hennar og skrúði, ekki aðeins á stórum stundum í menningarsögunni heldur jafn mikið í litlum og hljóðlátum stundum mannlegrar neyðar og mannlegrar gleði.
 26. Hér fyrr var sagt: Söfnuðurinn syngur messu. Það er ekki hlutverk kórsins að syngja messu fyrir söfnuðinn, – nema þegar kórinn er söfnuðurinn, og enginn annar lýkur upp munni sínum til að syngja.
 27. Því hefur verið haldið fram að kórsöngur hafi kveðið niður almennan kirkjusöng. Það er rangt. Almennur safnaðarsöngur var að hljóðna um það bil sem söngflokkar voru myndaðir við kirkjur til þess að viðhalda söngnum. Önnur athugasemd fjallar um það að kórsöngur ef hann er einráður, komi í veg fyrir að almennur söngur verði til. Það má vera rétt. Það er augljóst að vandaður kórsöngur er ekki hvetjandi til almenns söngs.
 28. Almenn þátttaka safnaðarins í messusöngnum er ekki lengur óþekkt í flestum söfnuðum. Það er eðlilegt að söfnuður sem vill taka fullan þátt í helgihaldi sínu eigi kost á því að syngja. Hinn sami söfnuður vill hinsvegar ekki endilega fara á mis við þá upphafningu tilbeiðslunnar sem fagur kórsöngur er. Æskilegasta mynd hinnar sungnu messu geymir þessvegna bæði almenna þátttöku og sérstaklega æfðan kórsöng.
 29. Það var vilji þeirra sem mótuðu kórastarf kirkjunnar á sínum tíma að söngurinn væri sem næstur hinu himneska. Það var hin sama forsenda og fyrir söngnum í kirkjunni yfirleitt, – ekki síður hinum slétta söng, sem var í upphafi og enn er til. Messan átti að vitna um veruleika himinsins til þess að jarðarbörnin gætu hvílst frá sínu daglega amstri og glaðst við annan veruleika enn þann sem þau mættu dag frá degi.
 30. Hér á Íslandi þar sem stórskostlegar byggingar voru fáar, nema helst dómkirkjurnar, var það sem gaf söfnuðinum sýn til hins himneska ekki fyrst og fremst húsið eða skrúðinn, heldur söngurinn.
 31. Þörfin fyrir að mega gægjast upp úr amstri dagsins inn í himininn er enn til staðar. Meðan hún er til þurfum við líka vel æfðan og góðan kirkjukór. En þau sem þar standa og syngja, standa ekki ein. Með þeim eru þau öll sem snortin eru af hinu himneska og tjá það. Draumurinn er sannarlega sá að söfnuðurinn syngi allur og hver syngi með sínu nefi og sinni þekkingu á sönglistinni, – í einni rödd, í fjórum röddum eða í átján röddum

url: http://kvi.annall.is/2002-10-29/21.18.00/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli