kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Orgelvígsla · Heim · Lífshlaup eða Curriculum vitae »

Litanía á virkum dögum

Kristján Valur @ 23.23 22/10/02

Fyrr á tímum var sú gerð almennrar kirkjubænar sem kallast litanía mun algengari en nú. Til þess að minna á þetta form er hér ein litanía fyrir virka daga, – eða ýmisleg tilefni.

Eilifur og almáttugur Guð.

Fyrir kirkju þinni og fyrir þjóðum heims / fyrir góðum og vondum / fyrir réttlátum og óréttlátum / fyrir þeim sem lúta þér í lotningu og fyrir þeim sem ekkert er heilagt, biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss.

Fyrir kristninni sem vanvirðir boðorð Guðs / brýtur brauðið við sundurskilin borð / lætur ljósin dofna og saltið verða bragðlaust / biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir hinum voldugu og miklu þessarar jarðar / sem láta þjóðirnar skelfast og eru þó aðeins duft eitt sem aðrir, biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir hinum ofsóttu / og fyrir þeim sem ofsækja / fyrir hinum píndu / og fyrir þeim sem pína / fyrir öllum sem hæðast að, spotta og lastmæla og fyrir þeim sem verða fyrir áreitni þeirra biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir þeim sem líða hungur og þorsta,/ hungrar eftir brauði, þyrstir í kærleika, þyrstir í frelsi / fyrir heimilislausum og flóttamönnum / fyrir þeim sem tapað hafa virðingu sinni og verið gjörð ærulaus / fyrir þeim sem njóta ekki mannréttinda biðjum vér.

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir öllum þeim sem eru óttaslegin og áhyggjufull / fyrir þeim sem óttast um líf ástvinar / eða sakna látins / fyrir öllum þeim sem sofnuð eru og fyrir oss öllum á hinstu stundu lífs vors biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir hinum ungu í blóma lífs síns / fyrir hinum öldnu sem þroskast til uppskerunnar / fyrir öllum dögum og stundum sem Drottinn gefur oss að vér kunnum að helga honum daga vora og stundir biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir hinum blindu og mállausu / fyrir öllum fötluðum til líkama og sálar / fyrir öllum eyrðarlausum, vegvilltum og sjúkum á sinni / fyrir öllum sem þarfnast sérstakrar umhyggju og um önnunar og þolinmæði / og fyrir öllum þeim sem annast þau biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir þeim sem mikið hafa orðið að reyna / fyrir þeim sem lífið er þraut / fyrir þeim sem áttu draum sem ekki rættist og grófu vonir sínar, / fyrir þeim sem eiga þrá en enga von / að þau verði ekki beisk og harðúðug, biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir hinum sterku / sem hafa stjórn á lífi sínu og ráða örlögum sínum / sem eru heppin og ná árangri / sem eru eitthvað sérstakt / sjálfum sér og öðrum / og fyrir sálu þeirra að hún spillist ekki, biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir öllum þeim sem vinna við flóknar vélar og áhöld / fyrir þeim sem eru á ferðalagi á landi og sjó og í lofti / að óaðgæsla og kæruleysi verði þeim ekki að fjörtjóni, biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir öllum þeim sem starfa að sömu málum og vér / fyrir öllum þeim sem eru á leið til gleðistunda eða sorgar og eru þó alein, því að enginn hirðir um annan í sjálfselsku sinni, biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Fyrir þessari fögru jörð / og fyrir öllum þeim sem á þessari jörð skaða sig eða aðra / hatast og öfundast / og fyrir ótta alls sem lifir, biðjum vér:

Drottinn, miskunna þú oss

Sjá, söfnuður þinn allur horfir til þín og bíður þín / Þín bíða þau öll sem unna návist þinni / er þú kemur. Lát oss eigi spillast né spilla hvert öðru / heldur hjálpa oss í krafti þínum / með styrkum armi þínum /

Fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda frá eilífð til eilífðar.

Amen.

url: http://kvi.annall.is/2002-10-22/23.23.11/

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli