kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Þjónusta kirkjunnar. Eðli hennar og innihald. · Heim · Litanía á virkum dögum »

Orgelvígsla

Kristján Valur @ 11.51 22/10/02

Hin síðari ár hefur færst í vöxt að hlutir til helgiþjónustunnar séu teknir í notkun við sérstaka athöfn. Hér fylgja nokkur inngangsorð um vígslu eða helgun hluta og bænir og lestrar þegar orgel er tekið í notkun.

Inngangsorð um vígslur.

Samkvæmt skilningi okkar kirkju helgast hús og aðrir hlutir fyrir orð Guðs og bæn í sérstakri athöfn, og er ákveðnum embættum innan kirkjunnar falið að annast þá athöfn.

Ástæða er til að ítreka að það er orð Guðs og bænin sem helgar, en ekki sá (sú) sem embættar. Þetta tvennt, Guðs orð og bænin staðfestir og innsiglar að viðkomandi “hlutir” eru teknir frá til þjónustunnar við Guð.

Sem kunnugt er þá er ekki ótvírætt hver (hvaða embætti) framkvæmir og leiðir athöfn af þessu tagi, nema þegar um kirkjuvígslu er að ræða, en telja má það nokkuð fasta reglu að biskupar einir vígi kirkjur. Þó er þess að geta að vegna staðhátta, fjarlægða og/ eða veðurfars, fól biskup próföstum oft að vígja kirkjur fyrr á árum og öldum.

Miðað við nútíma aðstæður er ástæðulaust að hverfa frá þeirri reglu að einungis biskupar vígi kirkjur, enda eru þeir þrír, sem kunnugt er.

Auk kirkna tíðkast einnig að vígja safnaðarheimili, kapellur og kirkjugarða. Þar að auki er í vaxandi mæli farið að taka ákveðna fasta eða lausa hluta kirkjubyggingar, eða kirkjugripi, í notkun í sjálfstæðri vígsluathöfn.

Þessa þróun þarf vitanlega að ræða rækilega, en hér er mælt með þeirri meginreglu að allar vígslur skuli vera biskupsverk. Ástæða þess er sú að aðeins með því móti er hægt að tryggja eftirlits- og umsjónarskyldu biskups í söfnuðinum.

Þó er eðlilegt að aðrar vígslur en kirkjuvígslur megi biskup, ef nauðsyn ber til, fela sérstökum fulltrúum sínum, eða sóknarpresti, á þeirri forsendu að embættið helgar ekki heldur orðið og bænin. Það að biskup þarf að ákveða hver leiðir athöfnina tryggir að engar vígslur eru framkvæmdar án hans vitundar.

Með núgildandi lögum um vígslubiskupa verður hinsvegar að teljast ólíklegt að beita þurfi því undantekningarákvæði að sóknarpresti sé falið hlutverk biskups við vígsluathöfn.

Þau form sem fylgja þessum inngangsorðum, byggja á þeirri forsendu að helga megi hluti. Það er, að hluti megi taka frá til sérstakrar þjónustu við Guð, og að sú helgun móti umgengni safnaðarins við þá.

Í fyrirbæninni er aðaláherslan lögð á þau sem hlutinn nota, (í þessu tilviki sem hér fer á eftir orgelið), og þau sem hans (þess) njóta í söfnuðinum. Þannig er athyglinni beint frá hlutnum sjálfum yfir á söfnuðinn og ætla ég að það sé í fyllsta samræmi við kenningu vorrar lúthersku kirkju, og svari fyrirfram hugsanlegri gagnrýni þeirra sem telja helgun hluta vera einhverskonar kaþólsku.

Með þessu skal einnig undirstrikað að ekki eru aðeins hlutir fráteknir fyrir þjónustuna við Guð, heldur einnig menn (fleiri en prestvígðir menn).

Annarsvegar er söfnuðurinn sem heild frátekinn fyrir heilaga skírn og hinsvegar eru þau sem sinna sérstökum verkefnum eins og að leika á orgel og stjórna söng og syngja ,,frátekin“ til þeirra verkefna.

BÆNIR OG LESTRAR

ÞEGAR ORGEL ER TEKIÐ Í NOTKUN

Í UPPHAFI MESSU

KLUKKNAHRINGING

Þegar klukkum hefur verið hringt ganga biskup, (eða í umboði hans vígslubiskup, prófastur eða annar prestur) sóknarprestur, meðhjálpari, organisti og formaður sóknarnefndar (eða safnaðarfulltrúi, eða annar lesari) inn kirkjugólf. Biskup (prestur) fer fyrir altari, organisti (og aðrir) standa í kór. Þótt hið nýja orgel sé þar nálægt, en ekki á sönglofti, standi viðstaddir í kór en ekki við hljóðfærið.

UPPHAF

B/P: Í nafni Guðs + föður og sonar og heilags anda.
Söfn: Amen.
B/P: Hjálp vor er í nafni Drottins,
Söfn: skapara himins og jarðar.

Sóknarpresturinn gengur að orgeli (ef svo háttar til að það er hægt, – annars stendur hann í kór) og mælir:

ÁVARP SÓKNARPRESTS:

Kæru bræður og systur. Í mikilli gleði og full þakklætis til Guðs, viljum vér nú helga þetta nýja hljóðfæri þjónustunni við Guð og söfnuð hans hér í ( ) -sókn.

Páll postuli kennir að - “allt helgast fyrir orð Guðs og bæn” (1.Tóm.4.5). Vér viljum í trausti til þeirra orða taka þetta hljóðfæri til helgrar þjónustu með því að hlýða á orð Guðs og ákalla hann í bæn.

RITNINGARLESTRAR:

Organistinn les Kol. 3.16-17.

Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki.
Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum
og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar. Hvað sem þér gjörið í orði eða verki,
gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann.

(Þegar svo háttar til að orgel er á sönglofti, má organistinn standa þar þegar hann les. Þá gengur hann ekki inn með hinum í upphafi, heldur rakleitt að orgeli).

Formaður sóknarnefndar, safnaðarfulltrúi, form. kirkjukórs eða annar úr söfnuðinum les Davíðssálm 150:

Hallelúja.
Lofið Guð í helgidómi hans.
Lofið hann í voldugri festingu hans.
Lofið hann fyrir máttarverk hans,
lofið hann fyrir mikilleik hátignar hans!
Lofið hann með lúðurhljómi.
Lofið hann með hörpu og gígju!
Lofið hann með bumbum og gleðidansi,
lofið hann með strengleik og hjarðpípum!
Lofið hann með hljómandi skálabumbum!
Lofið hann með hvellum skálabumbum!
Allt sem andardrátt hefur lofi Drottin!
Halleluja.

BÆN:

Biskup, eða vígslubiskup (prófastur eða sóknarprestur í umboði biskups) snýr að altari og biður eftirfarandi bænar:

Drottinn Guð, himneski faðir,
frá upphafi lofa þig og tilbiðja himneskar hirðsveitir
og með söngvum sínum á himnum vegsama englarnir þig án afláts.
Vér tökum undir þann söng í lofgjörð vorri
og með auðmjúkum bænum vorum á jörðu,
og færum þér þakkir fyrir það
að vér megum í dag helga þér þetta (nýja) hljóðfæri.

Gef að raddir þess, hljómur þess og notkun öll
verði til þess að lofgjörðin til dýrðar nafni þínu dafni og ávaxtist,
og að þau öll sem tilbiðja þig á þessum stað og með þessu hljóðfæri
megi þjóna þér með gleði og kunngjöra dýrð þína með fagnaðarsöngvum.

Lát nálægð þína fylla þetta hús
og heilagan anda þinn dvelja í hjörtum lýðs þíns,
að þau megi ávalt með fúsleik syngja þér lof
með tungu sinni og í hjörtum sínum.
Gef oss af náð þinni að þau öll
sem hér læra að gleðjast í tilbeiðslunni
megi um síðir fylla flokk þann
er syngur þér lof frammi fyrir hásæti þínu á himnum.

Vér biðjum þig í nafni Drottins vors Jesú Krists,
sem lifir og ríkir með þér og heilögum anda
um aldir og að eilífu.

Söfn: Amen

Söfnuðurinn rís úr sætum. Biskup (eða annar sá sem athöfnina leiðir) gengur að orgeli, (ef svo háttar til að því verður við komið) annars stendur hann við altarið og mælir:

HELGUN:
B/P: Í trú á Drottin vorn Jesú Krist, helgum vér þetta hljóðfæri þjónustunni við Guð og söfnuð hans og lýsum því yfir að það er frátekið til þeirrar þjónustu og helgað lofgjörð og tilbeiðslu hins eina almáttuga Drottins, í nafni Guðs, + föður og sonar og heilags anda. Amen.

ORGELLEIKUR:

Organistinn sest við orgelið og leikur: Orgelforspil.

INNGÖNGUBÆN:

Meðhjálparinn gengur fram og leiðir söfnuðinn í inngöngubæninni.

SÁLMUR:

Þá er sunginn fyrsti sálmur. Sunginn er sálmurinn nr. 25 eða sálmur samkvæmt kirkjuári.

Framhald messunnar er svo sem venja er til ( Með neyslu altarissakramentisins.)

Eftir síðasta sálm getur organisti eða annar úr söfnuðinum gengið fram og gert grein fyrir orgelinu, smíði þess og höfundi, og öðru því sem tengist hinu nýja hljóðfæri , eins og t.d. gefendum og söfnunum (og kynnir þá tónlist sem flutt var og verður flutt.)

Að síðustu er leikið orgeleftirspil. Söfnuðurinn hlýðir þeirri orðlausu lofgjörð sitjandi í sætum sínum.

url: http://kvi.annall.is/2002-10-22/11.51.57/

Athugasemdir

Fjöldi 2, nýjasta neðst

Baldur G Baldursson @ 23/6/2003 15.37

Ágæti sr. Kristján Valur! Kirkju landsins sárvantar helgunarform fyrir ýmsar aðstæður kirkjulífsins, t.d. þegar nýr hökull (messuklæði) eru tekin í notkun. Er eitthvað slíkt til hjá hinum lifandi systurkirkjum okkar á norðurlöndum? Með góðum kveðju, sr. Baldur Gautur á Kirkjubæjarklaustri

Kristján Valur @ 25/6/2003 18.31

Þakka þér fyrir að minna á þetta. Við eigum þetta sem þig vantar og miklu meira og nú gerir tæknin okkur kleift að gera það aðgengilegt. Innan tíðar kemur þetta efni allt hér inn á annálinn og eða á vef kirkjunnar. Með kærum kveðjum, kv.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli