kvi.annáll.is

AnnállEfniHelgisiðirKennslaKirkjaPrédikanirPrívatSálmarYfirlit

« Viðtalstímar · Heim · Orgelvígsla »

Þjónusta kirkjunnar. Eðli hennar og innihald.

Kristján Valur @ 21.52 21/10/02

Þjónusta kirkjunnar er mjög til umræðu í námskeiðinu Embættisgjörð. Tíminn er hinsvegar mjög skammur fyrir mikið efni. Það er því kærkomið tækifæri sem annállinn gefur til að koma á framfæri ýmsu ítarefni eins og þessum pistli.

Inngangur um sundferðir

Það er talið hollt og heppilegt að fara í sund, hvort sem farið er sjaldan eða oft. Þau sem fara reglulega hafa holla hreyfingu sem gleður líkamann og styrkir hann og gerir jafnvel lífið léttbærara. Í mörgum tilfellum fylgir ánægjulegur félagsskapur og ákveðin andleg næring í föstum vinahópi.

Þau sem fara sjaldan, jafnvel einungis einu sinni á ári eða á nokkurra ára fresti hafa oftast af því mikla ánægju. Það er jafnvel uppsöfnuð ánægja sem er svo mikil að þau halda því fram að fáar ferðir séu miklu dýrmætari en margar. Janfvel dragi fjöldi ferða verulega úr gildi þess að fara í sund yfirleitt, samkvæmt þeirri kenningu að ekki sé gott að alltaf séu jólin.
Báðir hópar hafa vafalaust rétt fyrir sér.

Það er hinsvegar nokkuð ljóst að einungis í fyrrnefnda hópnum er að finna verulega lipra sundmenn.

Kirkja. Hús og líf eða … að breytni mín þess beri vott að barn þitt gott ég heiti

Í flestum samfélögum þessa lands er kirkjan sýnileg vegna þess að hún er annaðhvort hús sem er auðþekkt sem kirkja og stendur á áberandi stað, eða að hún er skrítnasta húsið í bænum.

Kirkjan sem félagsskapur er aldrei sýnileg nema þegar líf færist í þetta fyrrnefnda hús. Kirkjan að starfi er þessvegna í hugum margra samkoma í kirkjuhúsinu undir stjórn prests. Það er annaðhvort almennt guðsþjónustuhald eða sérstakar athafnir, einkum útfarir og hjónavígslur.

Fjöldi hinna sýnilegu er mjög breytilegur og segir lítið um heildarfjölda þeirra sem teljast til kirkjusafnaðarins á hverjum stað og vilja halda því áfram. Reynsla síðustu ára sýnir að á meðan umfang safnaðar við almenna guðsþjónustu dregst saman vex það við nefndar athafnir.

Ekki er endilega merkjanlegt samræmi á milli hins landfræðilega safnaðar, það er fjölda þeirra sem eiga sókn til ákveðinnar kirkju og greiða til hennar sinn kirkjuskatt, og þess safnaðar sem kemur saman til kirkjuathafna. Þetta stafar af því að það er ekki sóknin sem er grunneining hins raunverulega kirkjustarfs heldur fjölskyldan. Þetta er ekki séríslenskt fyrirbæri, en þó mjög íslenskt. Þannig eru mörg dæmi þess að fólk sæki ekki kirkjuna í þeim söfnuði sem þau eru búsett í, heldur þá sem þau fluttu frá þegar þau hleyptu heimdraganum. Jafnvel eru mörg dæmi um að kirkjur í eyðibyggðum geti státað af mjög trúföstum söfnuði.

Mjög stór hópur safnaðarins kemur ekki til guðsþjónustu nema þar eigi að fara fram athöfn sem snertir fjölskylduna. Trúarleg ábyrgð einstaklings beinist að hans nánustu en ekki að öðrum. Helgiþjónustan í húsi Guðs byggir á þeim litla vísi að heimilsguðrækni sem eftir er í kirkjunni og kemur fram í því að allur þorri ungra barna fær trúaruppeldi og trúarnæringu í kvöldbænum móður eða föður. Einmitt á þeim stað sinnir þorri hinna kristnu skyldum sínum um að bera trú sinni vitni. Könnun sem Gunnar J Gunnarsson kennari við Kennaraháskólann gerði um þetta efni og fleira sýnir þetta á afgerandi hátt. Þessi könnun væri reyndar ágætt svar við þeim tilraunum sem nú standa yfir í því að reka flein á milli kirkjunnar sem stofnunnar og kirkjunnar sem samfélags kristinna, enda er aldrei til hennar vitnað.

Ef barn dettur á hjólinu sínu á götuna má telja víst að einhver komi og reyni að hugga það, og/eða koma því til foreldra eða til læknis. Ólíklegt er að nokkur myndi telja það kirkjustarf, þótt viðkomandi væri bæði skírður og fermdur og færi í kirkju jafnvel oftar en á jólum. Hið sama gildir um þann sem stumrar yfir fyllibyttunni sem liggur afvelta í ælu sinni við veginn og veitir honum þjónustu náungakærleikans.

Hversvegna ?

Margt í grundvallarkenningu kristindómsins er svo samgróið menningu okkar og daglegri hegðun, til dæmis ríkulegur þáttur náungakærleikans, að það er eins og mörgum þyki að viðbrögð sem heyra til kærleiksþjónustu séu bundin í genunum, eða þau séu ekki til – og það sé alls ekkert ,,undarlegt að elska”.

Það er þá heldur ekki að ganga erinda Guðs að fara eftir vilja hans – og að elska í vitundinni um að Guð er kærleikur og snertir þau sem trúa á hann með kærleika sínum sem kemur fram í verkum þeirra.

Að margt fólk sem ekki trúir á Guð myndi fara alveg eins að, kemur þessu máli ekki við. Þetta snýst ekki um það hvort kristinn maður er betri maður en heiðinn eða hvors breytni er frekar til fyrirmyndar, – þetta snýst um það hvort líf kristins safnaðar skilar árangri vegna þess að þau sem mynda þennan söfnuð lifa samkvæmt þeirri lífsafstöðu að Guð sem er kærleikur vilji nota hugsun þeirra og hönd til góðrar breytni og fái það, eða að lífið í kirkjunni sé lífið í hreppnum og ekki megi gera greinarmun þar á.

Það hefur nefnilega gleymst að reglur um hegðun og breytni kristins manns eru mun strangari en almennar reglur skattborgarana. En ef það gleymist þá er ekkert lengur til sem ekki má, nema það sem er andstætt lögunum.

Þessvegna getur til dæmis framhjáhald verið kynnt sérstaklega í blaðagrein sem nauðsynleg upplyfting í skammdeginu og leið til að styrkja hjónalífið.

Hvaða máli skipta heilög heit fyrir augliti Guðs?

Þeir hræktu á Krist sem krossfestu hann forðum.

Lífið sem sést í kirkjunni þegar fólk streymir þar út og inn er einungis ein mynd kirkjustarfsins, önnur er af barni að hugga annað barn sem datt á hjóli, hin þriðja er af foreldrum við barnarúm að biðja Guð að vaka yfir því og öllum þeim sem þau svo nefna og þakka fyrir liðinn dag, og enn ein er að horfast í augu við freistinguna og standast ásókn hennar. Þessar myndir eru miklu fleiri.

Leitaðu að þeim í huga þínum og þú sérð kirkjustarfið. Stefnuskrá þess er ekki síst að finna í sálminum: Þú Guð sem stýrir stjarnaher. Það er ekki nóg að kunna bara hann til leiðsagnar í lífinu, – en það er mikil hjálp.

Þau sem játast hafa undir merki kristindómsins og vilja varðveita kristna trú í eigin lífi og í eigin samfélagi mæta nýjum kröfum, nýjum spurningum og nýrri gagnrýni á hverri tíð. Svörin sem þau veita með lífi sínu og trú eru svörin sem Kristur sjálfur kallar eftir og treystir okkur til að gefa.

Þau segja heiminum hvert er inntak þess að vera kristin manneskja og þar með líka hvert er eðli og innhald guðsdýrkunarinnar.

Hugsanlegt er að þegar kristileg mótun mannlífsins almennt er orðin að grundvallareinkenni samfélagsins að fólk hætti að sjá þörf fyrir kristindóm en láti sér nægja einhverskonar siðmennt sem trúarbragðaígildi.

Hugsanlegt er líka að innan kirkjunnar vaxi félagsleg þjónusta á kosnað trúfræðslunnar vegna þess að einstaklingar leiti fremur þjónustu kirkjunnar við sig en eigin leiða til að sýna sjálfstæða ábyrgð kristins manns. Kristur verður ráðgjafi í félagslegum vandamálum, en ekki frelsari mannanna.

Spurningunni sem er kveikja þessa máls hefur enn ekki verið svarað beinlínis. Það verður ekki gert nema með einum hætti. Eðli og inntak og grundvöllur kirkjustarfsins er Jesús Kristur sem kallar börn sín saman og sendir þau út. Einfaldast er að sjá þetta fyrir sér í sakramentum kirkjunnar. Miðja guðsþjónustulífsins er heilög kvöldmáltíð. Jesús býður til borðs. Hann kallar saman kirkjuna.

Upphaf kristnilífsins er skírnin. Skírnin felur í sér sendinguna með boðskapinn um lífið með Kristi og í Kristi. Hann sendir út. Þetta tvennt er innöndun og útöndun kristninnar. Um það má flytja langt mál en bíður síns tíma.

Til að draga saman framansagt má setja það upp á tvennan hátt. Líf kirkjunnar er tjáð með þrem hugtökum: Liturgía, Díakonía og Marturía. Þetta eru þrjár systur, samvaxnar eins og Síamsþríburar. Ef ein er skilin frá, deyja þær allar. Hin fyrsta stendur fyrir þjónustuna við Guð í helgidómi hans, þar sem Guði er þjónað í lofsöng og tilbeiðslu og hann þjónar kirkju sinni í orði sínu og við borð sitt. Næsta stendur fyrir þjónustuna við Guð úti í iðukasti mannlífsins, það er kærleiks – og líknarþjónustan.

Hin síðasta er þjónustan við heiminn, – það er vitnisburður trúarinnar til þeirra sem ekki trúa, eða eru trúnemar. Það má líka draga þetta saman svo sem hér segir.

 • Trúin er samfélagsskapandi
  Hún kallar til samfunda í nafni trúarinnar þar sem þau sem byggja á sama
  trúargrundvelli tilbiðja Guð, læra um hann og hlýða á orð hans sameiginlega.
 • Trúin er samfélagsmótandi
  Hún þjónar samfélaginu í líknarstörfum , í leiðbeiningu og fræðslu sem
  gefur samfélaginu kringum þau sem trúa yfirbragð kærleika
 • Trúin er samfélagsbætandi
  Hún kallar nýja einstaklinga til nýrar breytni og hegðunar í eftirfylgdinni
  við orð og líf Jesú Krists.

Páll postuli skrifar í niðurlagi 2. Korintubréfs: ,,Hann (Kristur) var krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, sem hann sýnir yður.” (2.Kor.13.4).

Það er einmitt það.

url: http://kvi.annall.is/2002-10-21/21.52.51/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Óþekkti andarúnginn @ 22/10/2002 21.05

Mikið er gaman að fá að lesa þennan texta eftir þig srKvalur.

Lokað er fyrir athugasemdir.

© kvi.annáll.is · Færslur · Ummæli